Rauði borðinn : fréttabréf alnæmissamtakanna á Íslandi - 01.12.2007, Side 7
Viva Glam!
Snyrtivörufyrirtækið M.A.C. hefur dyggilega stutt við
bakið á þeim er berjast gegn útbreiðslu hiv og alnæmis, sem
og þeim er sýkst hafa eða eiga um sárt að binda að einhverju
leyti vegna sjúkdómsins.
Alnæmissjóður M.A.C. var stofnaður árið 1994 að
frumkvæði þeirra Frank Toskan og Frank Angelo
meðstofnenda M.A.C. Sjóðurinn nýtur góðs af Viva Glam
varalitnum, en allt söluandvirði varalitarins rennur heilt
og óskipt í sjóðinn. Ýmsir hafa orðið til að ljá Viva Glam
varir sínar til styrktar sjóðnum, má þarf nefna Sir Elton
John, Boy George, Christina Aguilera, Linda Evangelista,
k.d. lang og Pamela Anderson. Alnæmissjóður M.A.C.
hefur frá upphafi styrkt starf alnæmissamtaka um víða
veröld og til þessa hafa ríflega 700 félagasamtök notið góðs
af framlögum úr sjóðnum. Markmið sjóðsins er að styðja
þau er þjást af völdum hiv og alnæmis en einnig hefur
sjóðurinn stutt fræðslu- og forvarnarstarf, svo sem starf
Alnæmissamtakanna á Islandi.
I ár mun M.A.C. fyrirtækið ekki bregða út af vana sínum.
Laugardaginn 1. desember, á alþjóðlega alnæmisdaginn,
verður sérstök kynning í verslun M.A.C. í Debenhams
í Smáralind. Ýmsir listamenn munu leggja lóð sitt á
vogarskálar og aðstoða við fjársöfnun fyrir alþjóðlegt
stuðnings- og fræðslustarfi M.A.C. Að sjálfsögðu verður
hægt að kaupa varalitinn góða og slá þar með tvær flugur í
einu höggi!
Rauði borðinn, tímarit Alnæmissamtakanna,
mun liggja frammi sem og upplýsinga- og fræðslurit
Landlæknisembættisins um hiv og alnæmi.
Talið er að um 14 milljónir barna hafi orðið munaðarlaus
vegna hiv-veirunnar og alnæmis. Það eru því ekki lítil
skörðin sem höggvin hafa verið.
Undanfarin ár hafa Alnæmissamtökin lagt mikla áherslu á
fræðslu' og forvarnarstarf og kunna M.A.C. bestu þakkir
fyrir stuðninginn.
Síðustu árin hafa Alnæmissamtökin notið góðs af sölu Viva
Glam og hefur það vissulega komið sér vel í því fræðslu- og
forvarnarstarfi sem samtökin hafa skipulagt.
Birna Þórðardóttir