Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2009, Page 31

Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2009, Page 31
blíðum orðum; þetta varð ég þó að þola því Gísli sat undir Geir og Geir lét dátt að honum en leit ekki við mér. Ég held að ég hafi sannarlega fundið til afbrýðisemi en hún var fjarskalega væg eins og eðlilegt er, því þótt Geir sé kærastan mín þá er hann ekki kærastan mín. Maður hefur víst aldrei jafnheita ást á pilt og meyju.“ sagan flekklausa Um þessi orð þagði Íslandssagan vandlega og þegar dagbækur og bréf Ólafs Davíðs- sonar voru gefin út árið 1955 hafði öllum þeim stöðum verið eytt úr textanum þar sem hann víkur að þrá sinni til pilta. Þannig hefur ríkjandi menning löngum strokað út þá vitnisburði sem hana grunar að gætu sett skítablett á söguna. Þeim mun neyðar- legra er þetta í ljósi þess að hin útgefna bók bar heitið Ég læt allt fjúka, og er það tilvitnun í orð Ólafs sjálfs. Hann var að upplagi óvenju hispurslaus maður og af formála dagbókarinnar má ráða að hann gerði ráð fyrir því að hún yrði varðveitt handa síðari tímum. Það var ekki fyrr en árið 1990 að Þorsteinn Antonsson rithöf- undur tók af skarið, vakti athygli á þessum dagbókarfærslum og birti þær í bók sinni Vaxandi vængir. Bersýnilega stafa eyðurnar í útgefinni dagbók Ólafs af þeirri staðreynd að hann átti eftir að verða einn af afburðamönnum íslenskrar menningarsögu, náttúrufræðingur og mikilvirkur safnari íslenskra þjóðfræða. Á því herrans ári 1955 var óhugsandi að bendla slíkan mann við ástarhjal á öfugum nótum. Eftir hann liggja stórkostleg söfn þjóðsagna og þjóðfræða og einnig samdi hann nokkur rit, þar á meðal mikla bók, Galdur og galdramál á Íslandi. Sá undurfríði Geir sem hér um ræðir varð síst ómerkari maður þótt í öðrum greinum væri – prestur á Akureyri, vígslubiskup í Hólastifti og annálaður söngmaður. En verðandi þjóð- fræðingar og vígslubiskupar eiga líka sína leyndu drauma. sættir og góður koss Og ástir unglinganna döfnuðu á þeim nótum sem hæfðu tíðarandanum vorið 1882. Þeir heimsækja hvor annan daglega, stundum oft á dag, sofa saman nótt og nótt, yrkja vísur hvor til annars, skiptast á um að færa hvor öðrum brjóstsykur og vindla og kúra saman í laut í Þingholtunum þegar vel viðrar. Þetta er löngu fyrir fyrir daga útvarps og geislaspilara og enginn iPod innan seil- ingar, en stundum syngja þeir saman: „Þá upp til Geirs. Hann kenndi mér lagið: „Ég veit yðar myndin in mæra“, fagurt lag og friðblítt. Ég kann ekki við orðið „angur- blítt“. Geir varð annars styggur við mig stundarkorn því ég uppnefndi hann öllum illum nöfnum, en sættir komust samt fljótt á og skaðabæturnar, sem hann fékk, voru góður koss.“ Ekki verður séð að Ólafur Davíðsson hafi þekkt nein orð um þrá sína til annarra pilta, enda ritar hann þetta áður en menn tóku fyrir alvöru að upphefja gagnkynhneigðina í vestrænni menningu með því að fordæma alla þá sem hlupu undan merkjum hennar og gefa þeim sín heiti. En Ólafur var prest- sonur, hann átti strangan föður og þekkti að sjálfsögðu þá alræmdu ritningarstaði Biblíunnar sem kvalið hafa margan piltinn. Þess vegna finnur hann sig knúinn til að réttlæta fyrir sjálfum sér þá nautn sem hann er rétt í þessu að uppgötva. Á einum stað í dagbókinni efast hann um þá skoðun að sannkristið líf hljóti að felast í því að krossfesta holdið og hvatir þess, og hefur þar í huga fleyg orð Páls postula í Galata- bréfinu, 5:24: „En þeir, sem Krists eru, hafa krossfest hold sitt með þess girndum og tilhneigingum“ (þýðing frá 1863). Þessu andmælir sá skynsami Ólafur, hann neitar með öðrum orðum að fyllast sekt- arkennd fyrir það að kannast við kenndir sínar og tilfinningar, og njóta þeirra. Að kvöldi 21. apríl 1882 ritar hann þetta í dagbók sína: „Ég tók Geir með mér. Hann sefur hjá mér í nótt. Mér hefur aldrei þótt eins vænt um neinn og Geir. Hvað það var indælt að vefja hann að sér og leggja hann undir vanga sinn og kyssa hann svo. Loksins varð ég þó skotinn. En hvað er það að vera skotinn í karlmanni hjá því að vera skotinn í meyju? Ekkert, segir náttúruvit mitt mér. Er það annars ekki röng skoðun að krossfesta holdið með girndum þess og tilhneigingum? Er ekki rétt að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er fyrir góðan og mannlegan mann? Það held ég.“ að hemja mannlífið Ólafur Davíðsson las sannarlega fleira en Biblíuna, til dæmis varð hann snemma vel læs á forngrísku og þekkti lýsingar Grikkja til forna á ástum tveggja af sama kyni. En allar greiningar og útlistanir síðari tíma á samkynhneigðri þrá voru honum framandi, enda var hún ekki skilgreind á nútímavísu fyrr en rétt um það bil sem Ólafur komst til vits og ára, og vorið 1882 höfðu engar frétt- ir borist af þeim tilburðum til Íslands. Því má ljóst vera að skilningur Ólafs á sjálfum sér og tilfinningum sínum verður ekki lagður að jöfnu við þann skilning sem lesbíur og hommar nútímans leggja í samkynhneigðar tilfinningar sínar. Hugtakið homosexualitet eða samkynhneigð varð fyrst til um 1870. Með iðnbyltingunni og vaxandi þörf hins kapítalíska samfélags til Reykjavík um aldamótin 1900. Danski fáninn blaktir við hún.

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.