Börn og menning - 01.09.1999, Síða 5

Börn og menning - 01.09.1999, Síða 5
BÖRN OC /aENN|N6 Fyrir nokkrum árum skrifaði ég greinarkorn í bók sem gefin var út til heiðurs nýkjörinni konu árþúsundsins, Vigdísi Finnbogadóttur, þar sem ég hélt því fram með Franz Kafka að bækur — og þá ekki síður barnabækur en fullorðinna — ættu að bíta lesandann og stinga, vekja okkur með hnefahöggi á höfuðkúpuna, eins og hann komst að orði. Ég var minnt á þessa grein á dögunum þegar ég las fjórðu Sossubókina, Sossa, sönn hetja, upphátt fyrir dótturdóttur mína, sögufikil á tíunda ári. Ég hafði lesið fyrir hana fyrri bækurnar þrjár um Sossu, henni og okkur báðum til mikillar vitsmunalegrar og tilfinningalegrar ánægju þó að þar skiptist sannarlega á skin og skúrir. Og þegar ég fékk handritið að fjórðu Sossubókinni til prófarkalestrar í fyrrasumar byrjaði ég strax á að lesa það upphátt fyrir hana. En í miðri bók brá svo við að sú stutta tók ekki lengur við. Þegar hún komst að því að litla Glingaling, yngsta systir Sossu, fósturbarn og eftirlæti, dæi í sögunni, varð hún óhuggandi og gerði uppreisn. Hún vildi ekki heyra þessa sögu. Bara ekki! Síðan leið heilt ár. Þá kom sögufíkillinn að máli við ömmu sína og ræddi við hana um möguleika á að taka aftur upp þráðinn í Sossubókinni þar sem frá var horfið. Ertu viss? spurði ég. Já, svaraði hún, en ég er samt reið við hana Magneu að leyfa ekki Glingaling að lifa. Kannski bjargaði Glingaling Sossu með því að deyja, sagði ég. Við skulum ræða málið þegar við erum búnar með söguna. Sossa var ekki aðeins lestrarefni næstu vikurnar heldur umræðuefni kvölds og morgna og miðjan dag. Líf Sossu norður á Ströndum, fátæktin og baslið, flóttinn til Ameríku, líkamlegar breytingar hjá stúlkum á unglingsárum, stéttamunur, ástin, afbrýðisemin, allt þetta ræddum við fram og aftur, en aðallega þó sorgina og átakanleg viðbrögð Sossu við sínum sára missi. Eftir hvern lesinn kafla tók stelpurófan bókina og las hann aftur og jafnvel fyrri kafla líka; stundum sá ég hana sitja í sófanum skælandi yfir endurlestri um miðjan dag. Það var reyndar talsvert skælt þessar vikur og ekki bara sú yngri sem grét! Bækur Magneu frá Kleifum um Sossu sólskinsbarn eru bókmenntalegt afrek, það sannfærðist ég endanlega um þessar frjóu vikur meðan við langmæðgur lásum saman síðasta bindið. Þær eru fullar af alvöru en kitla þó stöðugt; koma lesanda til að hlæja með óvæntri sýn stelpunnar á heiminn. Þær eru sögulega upplýsandi en þó er stíllinn hraður og hvergi teygður fræðilegur lopi. Þær taka á erfiðum tilfinningamálum en skilja lesanda aldrei eftir í lausu lofti heldur vinna úr þeim jafnt og þétt. Með því að standa allan tímann þétt upp við söguhetju sína — það er hún sem talar í trúnaði við lesendur og enginn milliliður — verða sögurnar á sérkennilegan hátt bæði nærgöngulli og auðveldari viðfangs. Sossa er að segja frá og úr því að svo er þá hefur hún lifað af, komist yfir allt sem fyrir hana kemur, og lesandinn verður tilbúinn til að leggja talsvert á sig til að fylgja henni á leiðarenda. Á okkar tímum finnst mér alltof mikið lagt upp úr því að allt barnaefni sé auðvelt. Oft er í því mórall, biddu fyrir þér: ekki vera vondur við minnimáttar, ekki hafa fordóma gagnvart þeim sem eru öðruvísi og þess háttar, en umfram allt á það að vera „létt“ og „skemmtilegt". Þó að sjálfsagt sé að hafa slíkt efni með er það ekki nóg. Bækurnar um hana Sossu eru dæmi um sögur sem lifa með lesendum sínum til æviloka, þær eru ekki yfirborðslegar dæmisögur heldur djúp tilfinninga- leg lífsreynsla sem þroskar lesendur sína og gerir þá að betri manneskjum. Greinarhöfundur er bókmenntafrœðingur og umsjónarmaður menningarefnis DV. 3

x

Börn og menning

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.