Börn og menning - 01.09.2005, Blaðsíða 11
Bernd og brúðurnar
9
einfaldleiki, engin tónlist eða truflun af neinu
tagi. Það hafi á vissan hátt verið áhætta í
sýningunni því í öðrum þáttum hennar ríki
mikil litagleði og lífleg tónlist.
En Bernd gerir meira en að starfa í
Þjóðleikhúsinu við þetta barnaleikrit því hann
er með fjölmörg önnur verkefni í takinu. í
byrjun október lauk tökum á jóladagatali
Stöðvar tvö sem ber heitið Galdrabókin.
Þar bjó hann til leikbrúðurnar og var
yfirstjórnandi því auk hans komu fimm aðrir
brúðuleikarar að gerð þáttanna sem voru í
leikstjórn Ingu Lísu Middleton. Áhugamenn
um kvikmyndir hafa eflaust heyrt minnst á
Strings, danska mynd eftir danska leikstjórann
Anders Ronnow-Klarlund en þar smíðaði
Bernd brúðurnar og hafði yfirumsjón með 16
öðrum brúðuleikurunum. Hann segir þetta
hafa verið gríðarmikla vinnu sem kostaði
hann heil tvö ár og á þeim tíma hafi hann
bæði orðið gráhærður og þurft að fá sér
gleraugu. Strings hefur þegar vakið mikla
athygli og unnið til fjölmargra verðlauna en
nánari upplýsingar um kvikmyndina má finna
á vefsíðunni www.stringsthemovie.com
Vorið 2006 er áætluð frumsýning í
Þjóðleikhúsinu á Metamorhposis eftir Bernd
og er brúðugerð og stjórnun á þeim alfarið
í höndum hans. í sýningunni mun hann
nota strengjabrúður, stafbrúður og japanskar
bunraku brúður en þetta eru eins konar
sögur án orða sem lýsa léttvægum og
gamansömum aðstæðum hvunndagsins en
kafa um leið í djúp mannssálarinnar.
Ánægður með aðstöðuna
Bernd kveðst mjög ánægður með þá aðstöðu
og tækifæri sem hann hefur fengið á fslandi.
Segir hann leikhúsin hér standa betur að
vígi en til að mynda í Bandaríkjunum þar
sem starfsbræður hans finna sífellt fyrir
meiri niðurskurði í allri menningarstarfsemi,
sérstaklega þeirri sem fram fer í leikskólum.
Bernd hefur heimsótt flest alla leikskóla á
íslandi með sýningar og lætur vel af því starfi
enda segir hann það ef til vill mikilvægast
fyrir alla menningu að byrja að sá fræjunum
nógu snemma. „Við sem fáum tækifæri til
að kynna listina fyrir börnum berum mikla
ábyrgð. Það sem mestu máli skiptir er að sá
þessum fræjum nógu snemma svo þau falli
ekki í grýttan jarðveg. Börnin í dag stjórna
heiminum í framtíðinni."
Oddný S. Jónsdóttir