Börn og menning - 01.09.2005, Side 30
28
Börn og menning
Norrænn IBBY-fundur í Osló
Fulltrúar IBBY á Norðurlöndunum hafa hist
einu sinni á ári til skrafs og ráðagerða.
Undirrituð fór á sinn fyrsta fund af þessu
tagi í Osló í apríl sl. Á fundinum voru
rædd sameiginleg verkefni norrænu IBBY-
félaganna, s.s. Nordisk blad sem Danir sjá
um í ár. Ákveðið var að reyna að fá styrk
úr norrænum sjóðum til útgáfu Nordisk
blad. Fulltrúi frá hverju landi um sig gerði
grein fyrir starfseminni sl. ár, einnig voru
kynntar athyglisverðar barnabækur frá
öllum löndunum auk þess sem norskur
barnabókahöfundur og myndskreytir Fam
Ekman kynnti bækur sínar.
Fundirvoru haldnirá nokkrum stöðum í Osló
og nágrenni. Fyrir undirritaða var fróðlegt að
koma í Norsk barneboksinstitut og að skoða
safn í Bærum kommune sem í eru bækur
sem ætlaðar eru fötluðum börnum. "Ibby
documentation centre of books for disabled
young people" (nánari upplýsingar á www.
ibby.org).
Næsti fundur norrænu IBBY-
félaganna verður haldinn í Reykjavík
10.-11. mars 2006.
Sigríður Matthíasdóttir
VORVINDAR
Vorvindar 2005
Það fylgir því góð tilfinning að mæta á
hverju vori í Norræna húsið og taka þátt
í að veita viðurkenningar fyrir hönd IBBY.
Að sumu leyti stafar tilfinningin af því að
Vorvinda-samkoman er jafn árviss atburður
og koma farfuglanna, sumarið er framundan
og athöfnin bindur nokkurs konar endahnút
á starf vetrarins. Það er líka svo gefandi að
horfa yfir allt það starf sem unnið er á sviði
barnamenningar í landinu og sjá ár eftir ár
hve margir leggja sitt af mörkum af miklum
metnaði, fagmennsku og eljusemi.
Að þessu sinni blésu Vorvindar IBBY
þann 7. maí í Norræna húsinu og voru
eftirtaldir listamenn heiðraðir: Ragnheiður
Gestdóttir fékk viðurkenningu fyrir
framlag sitt til íslenskra barnabókmennta
en síðasta bók hennar Sverðberinn hefur
hlotið fjölmörg verðlaun á þessu ári. Brian
Pilkington hlaut viðurkenningu fyrir frábærar
myndskreytingar í íslenskum barnabókum
sem gleðja bæði unga og aldna. Loks
hlutu Embla Ýr Bárudóttir og Ingólfur Örn
Björgvinsson viðurkenningu fyrir frábært
byrjendaverk, Blóðregn og Brennuna sem eru
teiknimyndasögur byggðar á Njálu. Að venju
var fámennt en góðmennt á samkomunni
sem lauk með því að gestir sungu saman
Vorvindar glaðir...
Guðlaug Richter
Aðalfundur 2005
Aðalfundur IBBY á íslandi var haldinn í
Lækjarbrekku 23. maí síðastliðinn. Á dagskrá
voru hefðbundin aðalfundarstörf. Formaður
félagsins, Sólveig Ebba Ólafsdóttir, fór yfir
starfsemina á síðasta ári en í máli hennar
kom fram að árið hefði verið bæði annasamt
og giftudrjúgt. Auk þess að gefa út Börn og
menningu gaf félagið út Myndabókadagatal
2005 og færði öllum leikskólum landsins að
gjöf. Einnig hélt IBBY bókakaffi og tók þátt
í hinni árlegu Gerðubergsráðstefnu. Skráðir
félagsmenn í IBBY á íslandi eru 253, þar
af einstaklingar 131 og fyrirtæki, stofnanir
og skólar alls 122. Alls voru haldnir ellefu
stjórnarfundir á árinu. Allir stjórnarliðar buðu
sig fram til endurkjörs og er stjórnin því
óbreytt.
Tilnefningar á Heiðurslista IBBY:
Ránið, Dynkur og Dóttir ávítarans í
heimsreisu
Sunnudaginn 16. október var Bókakaffi
IBBY á íslandi haldið í Gunnarshúsi. Flófst
samkoman með því að kynntir voru þeir
höfundar sem hafa verið tilnefndir á
heiðurslista IBBY-samtakanna árið 2006 fyrir
hönd íslands.
Gunnhildur Hrólfsdóttir ríthöfundur var
tilnefnd fyrir skáldsögu sfna Ránið, Brian
Pilkington myndlistarmaður fyrir bókina
Dynkur og Hilmar Hilmarsson fyrir þýðingu á
Dóttur ávitarans eftir Lene Kaaberbol.
Verða þessar þrjár bækur kynntar á
heimsþingi IBBY sem haldið verður í Peking í
Kína í september á næsta ári. Öll aðildarlönd
IBBY, 65 talsins, tilnefna bækur á listann
og eru þær til sýnis á heimsþinginu en
fara síðan á farandsýningu vítt og breitt
um heiminn með viðkomu á ráðstefnum
og alþjóðlegum bókasýningum. íslenska
heiðurslistafólkið lýsti yfir ánægju með að
hljóta þessa viðurkenningu enda má fullyrða
að verk þeirra fái mjög víðtæka kynningu
næstu árin.
Bókakaffinu lauk með því að Einar Már
Guðmundsson skáld hélt erindi sem hann
nefndi Gamli maðurinn og orðin. Fjallaði
hann þar um H.C. Andersen, ævi hans og
störf, og þau víðtæku áhrif sem ævintýri
hans hafa haft og tilgreindi hann nokkur
dæmi úr eigin verkum þessu til stuðnings.
Guðlaug Richter