Börn og menning - 01.04.2014, Blaðsíða 24

Börn og menning - 01.04.2014, Blaðsíða 24
Að brjótast í gegnum (bernsku)múrinn Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur kom út fyrir jólin síðustu, en um er að ræða fyrstu bók í „sagnabáikinum" Freyju sögu, eins og segirá baksíðu bókarinnar, „ævintýralegum spennutrylli sem gerist í harðneskjulegri veröld þar sem hinir vægðarlausu lifa af". Áður hafa komið út tvær vel lukkaðar unglingabækur eftir Sif, Ég er ekki dramadrottning (2006) og Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu (2007); hressilegar smáskvísusögur í dagbókarformi um ástarbrall og unglingadrama. Múrinn er afallt öðrum toga, dystópísk skáldsaga fyrir unglinga og hina nýfullorðnu (e. young adult). Slíkar bókmenntir njóta gríðarlegra vinsælda, svo mikilla raunar að farið er að tala um „young adult dystopian" sem sérstaka bókmenntagrein auk þess sem þetta er orðið að sérstökum leitarflokki á Amazon. Vel lesnir fantasíuaðdáendur koma eflaust fljótlega auga á líkindi með Múrnum og öðrum nýlegum og dystópískum fantasíum (oftast þríleikjum) sem hafa sterka kvenpersónu sem aðalsöguhetju, stúlku sem býr við erfiðar aðstæður og rís upp gegn rotnu samfélaginu og hefur sigur - þótt ótrúlegt sé - að lokum. Meðal þekktra bóka af þessu tagi sem hafa verið þýddar á íslensku má nefna Hungurleikaseríu Suzanne Collins og fyrstu tvær bækurnar í Afbrigði- þríleiknum eftir Veronicu Roth. Múrinn er framtíðarsaga en við skulum ekki halda að framtíðin sé björt og fögur. Sagan gerist eftir rúmlega hundrað ár og sögusviðið er borgin Dónol, ein af níu borgum heímsálfunnar íslands. Álfan dregur nafn sitt af eyjunni köldu sem fór í kaf í flóðunum miklu á því herrans ári 2012. Borgin er umkringd háum múr sem er vandlega gætt af vörðum, gráum fyrir járnum. Enginn skal inn og enginn skal út - og það er borgurunum sjálfum fyrir bestu. Innan borgarinnar gætir lífvarðasveit einvaldsins Zheng þess að borgarar óhlýðnist ekki og gerí þeir það eru refsingarnar harkalegar. Opinbert hlutverk sveitarinnar er að vernda íbúana Dónol fyrir „hinum utanaðkomandi", þeim sem búa handan múrsins, en raunverulegt hlutverk sveitarinnar er frekar að gæta þess að íbúarnir spyrji ekki of margra spurninga, efist ekki og hugsi ekki sjálfstæðar hugsanir. Þess er líka vandlega gætt að borgararnir fái engar dillur i höfuðið, til dæmis með þvi að stuðla að því að þeir hvorki lesi né afli sér fróðleiks og þekkingar - en þetta er mjög algengt þema i dystópískum framtíðarsögum. Annað slíkt þema er eftirsjá eftir tækni sem sem eitt sinn var til - til að mynda rafmagn og rennandi vatn - en er nú fjarlægur fortíðardraumur, eitthvað sem fólk minnist sem einhvers sem var í þá gömlu góðu daga. i dystópískum frásögnum er gjarnan einn maður sem mótmælir ríkjandi skipulagi, neitar að sæta kúgun, vill leita sannleikans og losna úr fjötrum. Uppreisnarseggurinn í Múrnum er fimmtán ára munaðarleysingi, Freyja, sem býr hjá ömmu sinni í Dónol. Freyja hefur alltaf haft efasemdir um ríkjandi skipulag og lætur sig dreyma um hina gömlu, góðu daga ... ... þegar ísland var bara eyja en ekki heimsálfa sem skiptist í mörg mismunandi lönd mismunandi ættbálka, þegar fólk gat farið þangað sem það vildi, gert það sem það vildi, skapað sér þá framtíð sem það vildi; þegar fólk hlustaði á tónlist af plötum og húsin voru í litum án þess að það þjónaði sérstökum tilgangi; þegar fólk klæddist skræpóttum fötum því það langaði til þess og lifði ekki eftir einkunnarorðunum „öryggi umfram allt". (15-16) Freyja er sjálfstæð, forvitin og ýtin og spurningar hennar og uppreisn hrinda af stað óvæntri og hættulegri atburðarás. Freyja og vinir hennar, þau Baldur, Höður og Nanna, heyra orðróm þess efnis að handan múrsins sé borgin Vanheimar og þau vilja bæði vita meira um þessa borg og komast til hennar. Tilraunum vinanna til að komast að sannleikanum og brjótast í gegnum múrinn lýkur ekki með sigri hinna góðu og ósigri hinna vondu. Sagan er flóknari en svo og ekki lifa vinirnir allir svo lengi að komast í gegnum múrinn. En þetta er ekki aðeins saga um baráttu góðs og ills þar sem barist er fyrir frelsi, réttlæti, þekkingu og góðum lífsskilyrðum (svo fátt eitt sé nefnt), heldur er þetta líka unglingasaga og þar með þroskasaga. Freyja þarf að fullorðnast ansi hratt og harkalega en það gerir hún ekki síst með því að komast að hluta sannleikans um sjálfa sig og uppruna sinn. Múrinn er ekki aðeins hinn raunverulegi múr sem umlykur borgina heldur lika sá múr sem Freyja þarf að klífa til að breytast úr barni í unga konu. Múrinn er æsispennandi unglingasaga þar sem sögusviðið byggir á gamla, góða íslandi, norrænni goðafræði og Islandssögunni. Hún er í senn kunnugleg og framandi, gamaldags og nýstárleg - og alveg þrælspennandi. Höfundur er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.