Dagblaðið Vísir - DV - 12.03.2021, Blaðsíða 18
18 EYJAN
N eyðarástand er í borg-inni, götur fylltust á örskömmum tíma
í morgun og einstaklingar
að missa stjórn á sér vegna
álagsins. Verulegar truflanir
eru á raforku, hús í tilteknum
hverfum eru að kólna, og farið
er að örla á örvæntingu meðal
borgarbúa. Kjaftæðið sem
kemur frá hinum og þessum
útvarps- og samfélagsmiðlum
ruglar almenning, og útsend-
ingar eru slitróttar og furðu-
legar. Símakerfið er að hruni
komið og tilviljun ræður hvort
samband náist auk þess sem
netið er hægvirkt.“
Þessi texti er ekki úr skáld-
sögu eftir Sigríði Hagalín
Björnsdóttur heldur tekinn
upp úr raunhæfu verkefni
sem lagt var fyrir nemendur
tækni- og verkfræðideildar
Háskólans í Reykjavík fyrir
fáeinum misserum. Þar var
gert ráð fyrir að eldgos væri
hafið í Henglinum – í aðeins
20 kílómetra fjarlægð frá
Reykjavík. Verkefnið var hluti
af svokölluðum Hamfara-
dögum þar sem nemendum
í ýmsum fögum er kennt að
vinna í samstarfi að gríðar-
stórum viðfangsefnum. Áður
hafði verið tekin fyrir sem
skólaverkefni útbreiðsla sjúk-
dóms, sem krefðist þess að
landið yrði í sóttkví – en ekki
svo löngu síðar var slíkt við-
fangsefni orðið heldur betur
raunverulegt …
Gos í námunda
við Reykjavík
Í verkefni nemendanna höfðu
miklar umferðarteppur
myndast um alla borg. Gosinu
fylgdi fín aska eða ryk sem
smeygði sér alls staðar. Íbúar
á Reykjavíkursvæðinu fyndu
margir fyrir öndunarerfið-
leikum. Verulegar truflanir
væru á raforku, hús í tiltekn-
um hverfum farin að kólna og
meðal borgarbúa örlaði á ör-
væntingu. Þá væri símakerfið
að hruni komið og tilviljun
réði því hvort samband næðist
auk þess sem netið væri hæg-
virkt.
Þetta skólaverkefni er eðli-
lega orðið miklu raunveru-
legra nú, í ljósi jarðskjálfta-
hrinunnar á Reykjanesskaga
og þess gosóróa sem þar hef-
ur mælst. Talsverð eldsum-
brot hafa orðið á skaganum á
sögulegum tíma, þar á meðal
í næsta nágrenni höfuðborg-
arsvæðisins. Má þar nefna
Svínahraun (eða Kristnitöku-
hraun) sem rann um árið
1000, Hellnahraun eða Hval-
eyrarhraun í Hafnarfirði frá
því um árið 950 og Kapellu-
hraun sem er yngst, eða frá
13. öld. Fræðimenn telja ekki
ósennilegt að við blasi við-
varandi jarðskjálfta- og eld-
virkni á svæðinu næstu ár og
áratugi.
Kristján Már Unnarsson,
hamfarafréttamaður Stöðvar
2, ræddi við Harald Sigurðs-
son eldfjallafræðing fyrir sex
árum þar sem Krýsuvíkureld-
stöðina bar á góma. Haraldur
sagði eldgos þar geta leitt til
goss í jaðri Reykjavíkur og
hvatti hann til þess að gert
yrði betra áhættumat fyrir
Reykjavíkursvæðið.
Sprungusvæðið
við Rauðavatn
Mál þessu tengd hafa líklega
aldrei orðið jafnpólitísk og í
aðdraganda borgarstjórnar-
kosninganna 1982. Vinstri-
meirihlutinn í borgarstjórn
áformaði þá íbúðabyggð við
Rauðavatn á þekktu sprungu-
svæði. Davíð Oddsson, oddviti
minnihluta sjálfstæðismanna,
komst svo að orði um það
mál í samtali við blaðamann
Morgunblaðsins í apríl 1981:
„Ennfremur hefur verið á það
bent af færustu jarðvísinda-
mönnum að Rauðavatn sé á
miklu sprungusvæði sem sé
að verulegu leyti ókannað og
óathugað. Jarðvísindamenn
hafa talið það óðs manns æði
að gera ráð fyrir þessum
svæðum sem næstu bygginga-
svæðum í borginni, áður en
vísindalegar athuganir á því
hafa farið fram.“
Hitamál í borgar
stjórnarkosningum
Þjóðviljinn, málgagn Alþýðu-
bandalagsins, var á öndverð-
um meiði og benti á að sjálf-
stæðismenn hefðu áður byggt
hverfi á sams konar sprungu-
svæðum í Breiðholtinu. Blaðið
ræddi við Halldór Torfason
jarðfræðing sem rannsakað
hafði svæðið. Hann taldi hús-
um á sprungusvæðinu engu
meiri hætta búin en bygging-
um á sprungulausum svæðum,
ef menn gættu þess að sneiða
hjá sjálfum jarðsprungunum
þegar byggt væri.
Hart var deilt um fyrirhug-
aða byggð á sprungusvæðinu
í aðdraganda kosninganna og
án efa átti þessi einarða and-
staða sjálfstæðismanna gegn
byggð þar, sinn þátt í því að
Sjálfstæðisflokkurinn endur-
heimti meirihlutann í borgar-
stjórn og Davíð Oddsson varð
borgarstjóri.
Eldgos í Árbæjarhverfi
Sjálfstæðismenn lögðu áform
um byggð á sprungusvæðinu
vitaskuld til hliðar eftir kosn-
ingarnar 1982, en svo fór þó
löngu síðar, eftir að R-listinn
var kominn til valda, að Norð-
lingaholtshverfi var byggt á
sprungusvæðinu og raunar
liggur ein sprunga í gegnum
Árbæjarhverfi. Haraldur Sig-
urðsson eldfjallafræðingur
telur þessar sprungur senni-
lega tengjast Krýsuvíkur-
kerfinu og að ekki megi úti-
loka eldgos í Árbæjarhverfi.
Þess má geta að stað-
setningu Árbæjarlaugar var
á sínum tíma breytt eftir
að sprunga kom í ljós og þá
hefur þurft að færa til hús í
Norðlingaholti sem teiknuð
höfðu verið ofan á misgengis-
sprungum. Holræsaskurður
var þó lagður eftir einni
sprungunni og yfir þær liggja
götur.
Sprungurnar allar
á sínum stað
Um það leyti sem deilurnar
um byggðina á sprungusvæð-
inu stóðu sem hæst mátti lesa
þetta í forystugrein Morgun-
blaðsins: „Með Rauðavatns-
hugmyndunum er verið að
stefna framtíð borgarinnar í
óefni um langa hríð.“ En hvað
sem hástemmdum yfirlýsing-
um af þessu tagi leið þá fór
ekki einasta svo að byggt yrði
íbúðahverfi á sprungusvæð-
inu heldur reisti Árvakur,
útgáfufélag Morgunblaðsins,
þar stórhýsi undir skrifstofur
sínar og prentsmiðju. Jón
Magnússon lögmaður spurði í
aðsendri grein í Fréttablaðinu
þegar verið var að reisa nýju
Morgunblaðshöllina hvað
hefði breyst – sprungurnar
væru allar á sínum stað: „Var
e.t.v. alltaf í lagi að byggja við
Rauðavatn þá eins og nú? Var
þetta upphlaup Davíðs gegn
Rauðavatnssvæðinu bara
ómerkilegur kosningaáróður
sem virkaði vel en var algjör-
lega innihaldslaus?“
Þeirri spurningu verður
ekki svarað hér, en svo fór að
sjálfur Davíð varð ritstjóri
Morgunblaðsins og hefur í á
annan áratug setið á skrifstofu
á hinu alræmda sprungusvæði
við Rauðavatn. n
Á ÞINGPÖLLUM
Björn Jón
Bragason
eyjan@eyjan.is
SKOÐANAPISTILL
TALIÐ ÓÐS MANNS ÆÐI AÐ
BYGGJA Á SPRUNGUSVÆÐI
Engu að síður var reist fjölmennt íbúðahverfi við Rauðavatn. Sprungu-
svæði hitamál í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1982. Jarðskjálfta-
virknin á Reykjanesskaga nú gerir hættuna raunverulegri í hugum fólks.
12. MARS 2021 DV
Eldgos gæti verið í aðsigi á Reykjanesskaga. MYND/ANTON BRINK