Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2013, Síða 18
18
„Ég var alin upp í tveimur heimum,
íslenskum og dönskum. Afi minn fór ungur
til náms í Kaupmannahöfn og gekk þar að
eiga danska stúlku. Þar fæddist faðir minn
og ólst upp í Kaupmannahöfn til sextán
ára aldurs. Þá fluttist fjölskyldan til Íslands
því afi átti jörðina á Úlfljótsvatni. Þar
hittust foreldrar mínir í fyrsta sinn því að
ráðsmaður fjölskyldunnar á býlinu átti unga
dóttur. Með þeim föður mínum tókust síðar
ástir og fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau á
Úlfljótsvatni.
Ég fæddist á jörð ættarinnar árið 1936.
Þegar ég var fimm ára fluttumst við yfir
Sogið að Brúarlandi því að jörðin okkar
hafði verið tekin undir Sogsvirkjun, og
þar starfaði pabbi. Ég á góðar minningar
um bernsku mína, við krakkarnir bjuggum
við mikið frelsi og mikla ást á heimili sem
var miklu heldur danskt en íslenskt. Þar
var aldrei vitnað í Íslendingasögurnar
en þeim mun oftar í það sem stóð í
Kaupmannahafnarblöðunum. Eins og lög
þeirrar tíðar gerðu ráð fyrir byrjaði ég tíu ára
í skóla, en hafði þá auðvitað löngu lært að
lesa, skrifa og reikna. Þetta var afskaplega
akademískt nám ef svo má segja, hálfur
mánuður í skóla og hálfur mánuður heima.
En ég var aldrei nema þrjá vetur í skólanum,
lauk aldrei fullnaðarprófi svo kannski eru öll
mín síðari próf ógild ef út í það er farið.“
Þrettán ára hélt Nanna norður í
Reykjaskóla í Hrútafirði og þar lauk
hún bæði gagnfræðaprófi og landsprófi
miðskóla. Þar voru nemendurnir á ólíkum
aldri, þau elstu komin undir tvítugt,
„nokkurs konar bjarg okkar yngri, traust
bjarg“.
Í fóstbræðalag á Laugarvatni
„Ekki var nú kynhneigðin að trufla mig
þarna. Ég velti henni aldrei fyrir mér enda
var þetta orð ekki til árið 1950. Aldrei varð
ég ástfangin á Reykjum og fannst það
ekkert skrýtið, ég var með allan hugann við
að mennta mig. Hinu get ég ekki neitað
að strákarnir urðu sumir hverjir skotnir í
mér, en samt hef ég aldrei þurft að verjast
ágangi karlmanna, strákar hafa alltaf verið
ljúfir við mig. Einn af strákunum varð
reyndar yfir sig ástfanginn af mér, en það
var saklaust samband sem þróaðist seinna í
vináttu og virðingu fyrir æskuástinni. Aldrei
heyrði ég minnst á það á Reykjum að til
væru hommar, hvað þá lesbíur, en ég man
að eitt sinn heyrði ég orðið „tvítóla“ út
undan mér þegar einhver var að gaspra um
frávik sköpunarverksins. Bíddu nú aldeilis
við! Hvað er það?“
Svo lá leiðin í Kennaraskólann því að
auraráðin leyfðu ekki menntaskólanám
og Nönnu þótti skynsamlegast að verða
sér úti um kennaramenntun til fá að sömu
laun og strákarnir. Því næst hélt hún í
Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni
því lengi hafði áhuginn beinst í þá átt,
„og þetta varð kjarninn í menntun minni,
þess vegna er ég vel varin gegn alls konar
heilsuáróðri og veit að íþróttir eru ekki til
að slá annan út af laginu heldur til að efla
eigin líkama og heilsu.“ Þá var Nanna 21 árs.
„Við vorum tólf nemendur í Íþrótta-
kennaraskólanum og í þeim hópi var 18 ára
stúlka úr Reykjavík, Jónína Tryggvadóttir.
Við drógumst hvor að annarri og um vorið
vorum við óaðskiljanlegar vinkonur – án
þess þó að vita hvað var að gerast. Eitt
kvöldið þetta vor fann Unna eins og Jónína
var alltaf kölluð upp á því að sverjast við
mig í „fóstbræðralag“. Hún dró upp lítinn
vasahníf og svo var rist á handlegg og
blandað blóði með skólasystur okkar að
vitundarvotti. Nokkrum vikum síðar héldum
við svo á Þingvelli þar sem landsmót
ungmennafélaganna var haldið. Við Unna
vorum illa búnar, án svefnpoka og bara
með fáeina túkalla í vasanum, en fengum
inni í tjaldi hjá skólasystur okkar. Á þessum
árum hafði ég varla smakkað vín en fyrsta
kvöldið á Þingvöllum hittum við Unna
stráka, syni betri borgara úr Reykjavík, sem
færðu okkur útlendan bjór. Við smökkuðum
á og það losaði um einhverjar hömlur.
Alkohólið hefur auðvitað sína galla en
hvar væri ástarlífið án þess! Því þessa nótt
kysstumst við Unna í fyrsta sinn – í tjaldi á
Þingvöllum.“
What are we doing, my love?
„Upp frá þessu vorum við óaðskiljanlegar
og þegar við komum til Reykjavíkur og út
á vinnumarkaðinn var mér boðið að búa
með Unnu heima hjá foreldrum hennar.
Svo kom að því að við létum kossana ekki
nægja og gengum lengra. Þá man ég að
hún leit á mig eina nóttina og sagði: „What
are we doing, my love?“ Hún var betur
upp alin en ég og sér meðvitaðri um kvaðir
samfélagsins, öll óskráðu lögin, en ég kærði
mig kollótta. Samt töluðum við aldrei um
sektarkenndina, og eftir á að hyggja fann
ég ekki neina sektarkennd innra með mér.
Fyrir mér er það að skammast sín að brjóta
gegn því sem manni er helgast og þar var
ég með hreina samvisku.
En um tilfinningarnar töluðum við ekki,
það var þegjandi samkomulag að þetta
væri bara okkar á milli. Auðvitað gerðum
við okkur grein fyrir því að við höfðum
farið yfir óleyfileg landamörk en litum á
ástarsambandið sem okkar einkamál. Þetta
var rétt fyrir 1960 og við höfðum ekkert til
að miða okkur við – nema fordóma!
Það auðveldaði okkur Unnu lífið að
fjölskylda hennar studdi vináttu okkar.
Valgerður móðir hennar tók mér eins og
öðrum tengdabörnum sínum og seinna meir
sá ég að hún skildi fullkomlega hvernig
í málunum lá. En við Valgerður ræddum
það aldrei einu orði hvers eðlis sambandið
væri. Samt var hún alltaf nálæg til að styðja
okkur og vernda.“
Nanna og Jónína voru kappsfullar
og stefndu hærra. Þær dreymdi um að
fara utan, læra íþróttafræði og setja
upp heilsuræktarstöð, löngu áður en
slíkar stofnanir urðu hluti af daglegu lífi
Íslendinga, og heilan vetur dvöldu þær á
Englandi við tungumálanám. Þegar heim
kom kunni vinkona þeirra að segja þeim