Fræðaþing landbúnaðarins - 16.02.2007, Page 176
174 • Fræðaþing landbúnaðarins 4, 2007
Áhrif skógræktar á fuglalíf
Ólafur K. Nielsen, Guðmundur A. Guðmundsson,
Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Náttúrufrœðistofnun Islands, Pósthólf5320
Eitt höfuðeinkenni íslands er skógleysi og einkennisgróðurlendi á láglendi eru mýrar,
graslendi og móar. Þessi gróðurlendi eru heimkynni margra tegunda mófugla, en til þess
hóps heyra bæði vaðfuglar og spörfuglar sem og rjúpa. Verulegur hluti af heimsstofnum
sumra þessara tegunda eiga varpheimkynni á Islandi og þær eiga tilveru sínu undir því
að búsvæði þeirra séu varðveitt. Einu náttúrlegu skógar íslands eru birkiskógar en 1000
ára rányrkja hefur að mestu eytt þeim skógum og því er opið land jafiivíðáttumikið og
raun ber vitni á láglendi. Skógrækt hófst á Islandi snemma á 20. öld og tugir framandi
trjátegunda hafa verið fluttar til landsins á liðnum áratugum og plantað í úthaga. Stærstu
skógræktarverkefnin eru svokallaðir landshlutaskógar, fjármögnuð að langmestu leyti
af íslenska ríkinu. Markmið þeirra er að rækta skóg á nokkur þúsund ferkílómetrum
lands sem er að mestu gróið; móar, mýrar og graslendi. Harðar deilur hafa orðið um
möguleg áhrif skógræktar á fuglafánuna. Rannsókn var gerð á varpfuglum á nokkrum
svæðum til að lýsa breytingum sem verða er skógur vex upp á skóglausu landi.
Meginrannsóknasvæðin voru tvö: Hérað á Austurlandi og Skorradalur á Vesturlandi. A
Héraði voru fimm samanburðarsvæði:
■ Mólendi
■ Lerkiskógur, 7 til 10 ára gamall, meðalhæð trjáa 1,4 m
■ Lerkiskógur, 17 til 23 ára gamall, meðalhæð trjáa 4,5 m
■ Lerkiskógur, 33 til 47 ára gamall, meðalhæð trjáa 11,8 m
■ Birkiskógur, 90 ára eða eldri, meðalhæð trjáa 6 m
I Skorradal voru samanburðarsvæðin þrjú:
■ Mólendi
■ Blandaður barrskógur (greni og fura plantað í birkikjarr)
■ Birkiskógur
Fjórtán tegundir mófugla fundust; sjö þeirra voru bundnar við opið land, fjórar fundust
jafnt á opnu landi sem í skóglendi og þrjár tegundir voru bundnar við skógi. Bæði
þéttleiki fugla og eins lífmassi þeirra var mestur á fyrstu stigum framvindu frá opnu landi
yfir í þéttan skóg (yngsti lerkiskógurinn). Þær tegundir sem bundnar eru við bersvæði
voru allar horfnar á braut er skógurinn hafði myndað þykkni og lokað landinu og slíkt
hafði gerst 10 til 20 árum eftir gróðursetningu. Þær fuglategundir sem byggja skógana
eru flestar íslenskar að uppruna og þá annars vegar bersvæðistegundir sem geta búið í
skógum og hins vegar skógarfuglar sem koma úr birkiskóginum. Einn nýr landnemi
frá Evrópu, glókollur, var áberandi varpfugl á rannsóknasvæðunum bæði á Héraði og í
Skorradal fyrra rannsóknarárið (2004) en stofninn hafði hrunið vorið 2005.