Fræðaþing landbúnaðarins - 16.02.2007, Page 186
184 • Fræðaþing landbúnaðarins 4, 2007
tilvikum þegar breidd þverunar var minni en þrír metrar, voru þrjár mælingar teknar yfir
alla breiddina. Mesta dýpi var einnig mælt. Ef um fallhæð niður úr þverun á vatnsflöt
við útfall var að ræða, var hún mæld (m) og einnig var dýpi hylja (ef til staðar) mælt (m)
undir fallhæð.
Þversnið voru lögð út ofan og neðan við þveranir, utan sýnilegra áhrifasvæða þeirra.
Dýpi og straumhraði voru mæld eins og fyrir brýr, en einnig fióðfar (e. bankfull width).
Flóðfar var skilgreint sem sú breidd árfarvegs sem vatn flæðir um þegar rennsli fyllir alla
breidd árfarvegsins án þess að vatn flæði inn á aðliggjandi flæðilönd (t.d. Mount 1995).
Áhrif þverana á vatnsföll voru könnuð með því að reikna út tvö hlutföll: 1) möguleg
þrenging þverunar að flóðfari var metin með svokölluðu þrengingarhlutfalli, þ.e.a.s.
hlutfalli hámarksbreiddar þverana af meðaltali flóðfarsmælinga ofan og neðan þverunar,
og 2) áhrif á straumhraða voru könnuð með því að reikna út meðalstraumhraðahlutfall,
þ.e. hlutfall meðalstraumhraða inni í (ræsi/stokkar) eða undir (brýr) þverunarmannvirki
af meðalstraumhraða ofan og neðan þverunar. Þrengingarhlutfallið 1:1 þýddi að
hámarksbreidd þverunar var hin sama og meðaltal flóðfarsmælinga ofan og neðan hennar
og því að þverun þrengdi ekki að flóðfari. Á sama hátt þýddi meðalstraumhraðahlutfallið
1:1 að straumhraði var sá sami í eða undir þverunarmannvirki og í vatnsfallinu sjálfu
utan áhrifasvæðis þverunar. Einhliða t-próf var notað til að kanna hvort meðalhlutfall
hverrar þverunargerðar væri frábrugðið meðaltalinu 1, þ.e. hlutfallinu 1:1 sem lýsir
engum áhrifum (one-sample t-test, test with mean=l). Einþátta ANOVA og Tukey's
samanburður var notað til að bera saman meðalhlutföll milli mismunandi þverunargerða.
Allur tölfræðilegur samanburður var gerður með hjálp tölfræðiforritanna SPSS 13.0 og
Minitab 14.0.
Forsendur sem þveranir þurftu að uppfylla til að teljast fiskgengar voru byggðar á
nokkrum leiðbeiningaritum fyrir far laxfiska um ræsi (NMFS 2001; Poulin og Argent
1997; Powers o.fl. 1997; Bates o.fl. 2003; Gibson o.fl. 2005). Þessar forsendur miða
við að veikasti og minnsti einstaklingur viðkomandi tegundar komist um þverun (t.d.
Bates o.fl. 2003). Sömu forsendur voru notaðar fyrir urriða og bleikju, en greint á milli
fullorðinna fiska og seiða. Þær breytur sem notaðar voru til að ákvarða fiskgengd voru:
meðalstraumhraði, meðaldýpi, fallhæð við útfall, hylur undir fallhæð ef hún var til staðar
og hindranir við inntak eða útfall, s.s. grjóthnullungar. Tafla 1 sýnir lágmörk eða hámörk
þessara breyta (eftir því sem við á). Gildi fyrir þessar breytur fyrir hverja þverun voru
síðan borin saman við skilyrðin í töflu 1 og fiskgengd ákvörðuð. Einnig var kannað
hvort það myndi hafa áhrif á fjölda þverana sem ekki uppfylltu skilyrði ef notað væri
hámarksvatnsdýpi og lágmarksstraumhraði þverananna til samanburðar við skilyrðin, en
þessir þættir geta skipt miklu máli fyrir far fiska.
1. tafla. Forsendur til ákvörðunar á fiskgengd þverana fyrir fullorðinn fisk og seiði urriða
og bleikju voru eftirfarandi lágmarks meðalvatnsdýpi (Gibson o.fl. 2005; NMFS 2001),
hámarks meðalstraumhraði (Powers o.fl. 1997; Poulin og Argent 1997; Bates o.fl. 2003)
, hámarks fallhæð (NMFS 2001) og lágmarks dýpi hyljar undir fallhæð, ef hún var til
staðar (NMFS 2001). Fimmta forsendan var að engar hindranir, svo sem grjóthnullungar,
væru við þveranir. Forsendur eru sýndar fyrir mismunandi lengdarflokka þverana.