Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.01.2021, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31.1. 2021
ÚTIVIST
HRÖKKBRAUÐ
Ég byrjaði fyrir tveimur árum,“segir Gígja sem er nú heltekinaf gönguskíðum.
„Kærastinn minn hafði æft göngu-
skíði og þarna var sportið aðeins farið
að glæðast og það mátti sjá miðaldra
fólk í spandex-göllum á gönguskíð-
um. Mér finnst gaman að prófa eitt-
hvað nýtt en ég hef alltaf verið
íþróttaálfur. Þarna prófaði ég skíðin
og smitaðist um leið,“ segir Gígja sem
hafði alltaf átt svigskíði.
Upplifði bara vá!
„Ég heillaðist algjörlega frá fyrstu
stundu. Ég hef alltaf haft mikla þörf
fyrir að hreyfa mig og þessi hreyfing
nærði mig á svo margan máta. Úti-
veran er nauðsynleg og hreyfingin
hentar mörgum aldurshópum. Hún
reynir á þol, styrk og samhæfingu.
Ég upplifði bara vá!“ segir Gígja.
„Ég hef ekki farið á mörg nám-
skeið, en þó á eitt og ég lærði alveg
fullt á því. Ég mæli með að fólk fái
leiðbeiningar. Þetta lá vel fyrir mér
en þetta er mjög tæknilegt sport.
Fólk er farið að leita til mín og ég er
sjálf farin að taka að mér hópa, þótt
ég sé bara búin að stunda þetta í tvö
ár. En ég er auðvitað sjúkraþjálfari
og er vön að þjálfa hópa og svo finnst
mér þetta svo gaman,“ segir hún.
„Ég er fyrst og fremst á brautar-
skíðum og það hefur verið dásamlegt
að uppgötva Heiðmörk, Þingvelli og
Bláfjöll. Það er búið að lyfta grettis-
taki við gerð brauta og þetta er ótrú-
lega óeigingjarnt starf hjá þessu fólki
sem sér um að halda þessu flottu og
upplýsa okkur um gang mála á alls
kyns facebooksíðum og öppum. Svo
eru sum bæjarfélög, eins og Kópa-
vogur og Hafnarfjörður, farin að
leggja brautir á til dæmis golfvelli
þannig að þeir fá nýtt hlutverk og
fólk getur æft sig á léttum brautum.“
Vakning í sportinu
Gígja er mikil keppnismanneskja og
þrátt fyrir að eiga ekki langan göngu-
skíðaferil að baki hefur hún tekið þátt
í tveimur mótum.
„Ég tók þátt í fyrra í Fjarðargöngu
á Ólafsfirði sem var mjög gaman og
svo í Strandagöngunni á Hólmavík,“
segir Gígja og segir að vel hafi gengið
á mótunum.
Hún segir félagsskapinn líka svo
skemmtilegan.
„Ég er búin að kynnast mörgu
fólki. Eins er ég búin að draga marg-
ar vinkonur með í þetta og tek þær í
létta leiðsögn, og svo er auðvitað
kærastinn með í þessu. Í fyrra tókum
við þátt í Landvættunum og klár-
uðum allar þrautirnar nema skíða-
gönguna, sem við erum þá að fara að
klára núna í vor. En það var hætt við
hana vegna Covid í fyrra,“ segir hún.
„Það er rosaleg vakning í sportinu.
Ég er einmitt að skoða að kaupa mér
utanbrautarskíði líka. Þá get ég farið
utan troðinna slóða. Við ætlum að
fara í ferðir og draga á eftir okkur
púlku og læra að tjalda í snjó. Það er
mjög spennandi. Eitt leiðir af öðru.
Áhugi okkar á útivistarsporti hefur
aukist þannig að við skráðum okkur í
Landkönnuði hjá Ferðafélagi Íslands
og munum læra hvernig hægt er að
bjarga sér úti í íslenskum vetrar-
aðstæðum. Finnst þér það ekki
spennandi! Ég fæ kitl í magann,“ seg-
ir hún og hlær.
Ekki lengur púkó
Er þetta ekki lengur hallærislegt
sport miðaldra fólks?
„Nei, nú er þetta í tísku. Ég man
sjálf eftir því þegar ég var að fara í
Bláfjöll á svigskíði að mamma og
pabbi áttu gönguskíði. Mér fannst
ekki mjög smart að horfa á eftir
þeim, í stuttum buxum og háum
sokkum,“ segir hún og hlær.
„Þegar maður opnar augun og
kynnist þessu þá er þetta svo
skemmtilegt. Búnaðurinn í dag er
orðinn svo góður og alveg hægt að
missa sig í þessum græjum,“ segir
hún.
„Það eru margir í kringum mig á
gönguskíðum, meira að segja
mamma sem er á áttræðisaldri. Þetta
er búið að bjarga geðheilsunni núna í
Covid, að geta verið úti að hreyfa sig.
Að fara á gönguskíði í Heiðmörk er
eins og að vera í paradís. En þessa
dagana vantar snjóinn!“
„Eins og að
vera í paradís“
Sjúkraþjálfarinn Gígja Þórðardóttir
segir gönguskíðin hafi bjargað geð-
heilsunni nú á tímum Covid. Hún
er heltekin af sportinu.
Gígja tekur létta jógastellingu á skíðum í blíðskaparveðri.
Sjúkraþjálfarinn Gígja Þórðardóttir hefur stundað
gönguskíði í tvö ár og veit fátt skemmtilegra. Hún
er strax farin að keppa með góðum árangri.
Óskar Magnússon hjá Sportvali
segir sölu á gönguskíðabúnaði
hafa verið ótrúlega undanfarna
mánuði.
„Það hefur heldur betur ver-
ið sprengja. Það má segja að
með Landvættunum hafi fólk
farið að uppgötva gönguskíðin
og vinkonur hafa dregið hver
aðra af stað. Ég opnaði búðina í
desember 2018 og síðan þá hef-
ur verið sprenging og sala farið
langt fram úr væntingum,“ seg-
ir Óskar sem segist hafa selt
milli 300 og 400 pör af skíðum í
fyrra og annað eins nú á síðustu
þremur mánuðum.
„Ég er að reyna að vera á
jörðinni þegar ég kaupi inn en
það kemur í bakið á mér. Og
núna í Covid hafa lyftur ekki
verið opnar og þá var það eina
sem hægt var að gera til að
svala skíðaþörfinni að fara á
gönguskíði. Svo kemst enginn í
skíðafrí til útlanda þannig að
það eru nokkrir þættir sem
spila inn í. Mesta aukningin er í
utanbrautarskíðum,“ segir
Óskar.
Spurður um meðalverð á
startpakka segir hann það vera
um hundrað þúsund krónur.
Vel yfir þúsund skíði
Magnús Magnússon, sölustjóri
hjá Everest, tekur í sama
streng.
„Það hefur verið gríðarleg
aukning og í raun uppgangur í
sportinu síðustu fimm ár. En
það er sprenging núna. Ræktin
hefur verið lokuð og fólk í úti-
vistargír,“ segir Magnús og seg-
ir þau hafa selt óvenjumikið af
skíðum í vetur.
„Þetta er gríðarlegt magn.
Við höfum selt vel yfir þúsund
skíði á þessum vetri,“ segir
hann og segir að sömu sögu
mætti segja um alla Evrópu.
Gönguskíðabakterían smitast
víða.
„Margir birgjar hafa ekki und-
an.“
Magnús segist selja mest til
fólks yfir 35 ára en farið sé að
bera á yngra fólki líka.
„Fólk er farið að taka börnin
sín með og þetta er að verða
fjölskyldusport líka. Þetta er
svo heilbrigð hreyfing.“
SALA Á GÖNGUSKÍÐUM
Heldur betur sprengja