Morgunblaðið - 06.02.2021, Síða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. FEBRÚAR 2021
SÉRBLAÐ
SMARTLANDS
BLAÐIÐ
Fylgir Morgunblaðinu 12. febrúar
–– Meira fyrir lesendur
PÖNTUN AUGLÝSINGA: Til 8. febrúar
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Katrín Theódórsdóttir
Sími: 569 1105 kata@mbl.is
Fjallað verður
um tískuna 2021
í förðun, snyrtingu,
útliti og fatnaði auk
umhirðu húðarinnar,
heilsu, dekur o.fl.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Ég var að velta fyrir mér af
hverju væri svona hljótt um bisk-
upsfrúrnar í Skálholti. Við körp-
uðum um þetta, ég og Karl Sigur-
björnsson. Ég sagði að engin
kvennamenning hefði verið fyrir
sunnan og við vissum ekki einu
sinni nöfnin þeirra. Karl sam-
þykkti þetta ekki og færði mér
svo lista yfir þær með ártölum.
Það ýtti mér af stað,“ segir Hildur
Hákonardóttir, en nýlega kom út
seinna bindi hennar af bókunum
Hvað er svona merkilegt við það
að vera biskupsfrú? Þar rekur hún
sögu biskupsmatróna Skálholts-
staðar í lúterskum sið og nýtir
samtalsformið til að gæða sögu
þessara löngu gengnu fyrirkvenna
lífi.
„Ég vildi kynnast þeim og byrj-
aði að vinna út frá listasögunni og
útsaumsmenningunni sem
blómstraði fyrir norðan á tímum
kaþólskunnar. Ég hafði áður borið
saman nöfnurnar Ragnheiði
Brynjólfsdóttur í Skálholti og
Ragnheiði Jónsdóttur á Hólum,
sem við þekkjum af 5.000 króna
seðlinum en hún varð tvisvar bisk-
upsfrú á Hólum. Þær voru nokk-
urn veginn jafnöldrur og báðar af
sömu höfðingjastéttunum en örlög
þeirra gjörólík.“
Veldið hélst í gegnum konur
Hildur segir að upphaflega hafi
bókin átt að heita Neðanmáls-
greinarnar.
„Þegar ég fletti upp á biskup-
unum, stóð kannski neðanmáls
hverri þeir voru kvæntir, en
stundum ekki. Ég ætlaði því upp-
haflega að koma þessum konum á
netið, gera um þær Wikipediu-
texta, en til þess þarf að vísa í
heimildir, sem ekki voru fyrir
hendi svo ég fór að grúska. Þá
komst ég að því að þetta voru
spennandi konur, sem áttu sér
margbreytilegt og áhugavert líf en
einnig voru ákveðin líkindi á milli
þeirra og smám saman rann upp
fyrir mér að eftir 1600 eru þær
nær allar náfrænkur. Því má segja
að biskupsembættið erfist í kven-
legg, ekki frá móður til dóttur,
heldur frá móðursystur eða
ömmusystur og hélst þannig í
ákveðnum ættboga með þeirri
þekkingu, völdum og fé sem
fylgdi. Ættarleggurinn leiðir til
Björns og Ara sem voru háls-
höggnir í Skálholti. Það er Helga
Jónsdóttir, sem kemur að norðan
1591, sem setur ættarveldi Jóns
Arasonar langafa síns á biskups-
stól fyrir sunnan, og það helst
gegnum konurnar. Helga þótti
höfðingskvinna og var þekkt af
röggsemd og sagt að aldrei myndi
hennar líki koma í Skálholt. Hún
hafði búsforráð þar í nær hálfa
öld.“
Að skandalísera var ekki til
Hildur segir að konurnar hafi,
sökum frændsemi sinnar þekkt vel
til starfsins og sögu embættisins,
og þeim verið það sameiginlegt að
skipta sér ekki af embættis-
gerðum né heldur sýndu þær
áberandi trúrækni.
„Þó fann ég dæmi um biskups-
frú sem fékk biskup til að breyta
hegðun sinni. Það var út af skóla-
pilti, en hún vissi að biskup hafði
sýnt honum ósanngirni. Áhrifum
frúnna í samfélaginu gætir líklega
helst í því að þær sýna fag-
mennsku og jafnaðargeð. Þær
misstu sig aldrei eða sóttust eftir
sviðsljósinu heldur. Að skand-
alísera var ekki til hjá þeim, og
mér finnst þær hafi verið fremur
góðlyndar og mennskar. Til eru
sögur um að þær hafi sýnt aðhald
þegar kom að búrekstrinum sem
var á þeirra könnu, en hart var
sótt að biskupsstólunum af bein-
ingafólki því örbirgð í landinu var
skelfileg og skipulögð fátækra-
hjálp engin. Mér finnst skipta
máli að við þekkjum þessar konur
og það má spyrja sig hvort þær,
með fagmennsku sinni, hafi sett
verðugt fordæmi fyrir nútímakon-
ur sem nú eru að taka við emb-
ættum og orðnar ráðandi í sam-
félaginu.“
Drjúgum drukkið í Skálholti
Þegar Hildur er spurð að því
hvort hún hafi komist að ein-
hverjum leyndarmálum segir hún
það helst að Margrét Halldórs-
dóttir, kona Brynjólfs Sveinssonar
biskups, hafi mögulega átt við
áfengisvanda að stríða.
„Margir drukku drjúgum í Skál-
holti, enda var þar bruggað öl á
öldum áður og sagt að Þorlákur
helgi drykki helst ekki vatn með-
an hann átti vín. Ég fann kjafta-
sögu um áfengisvanda Margrétar
sem kom frá Jóni Grunnvíkingi í
Kaupmannahöfn. Þessi saga, djúpt
falin í skrifum hans, útskýrir
margt í sögu Margrétar. Ég skildi
líf hennar betur eftir það. Einnig
kemur fram hjá Jóni að þegar
Brynjólfur verður sem æfastur út
í Ragnheiði dóttur sína og gengur
hvað harðast fram, þá er Margrét
sú eina sem þorir að standa á móti
honum. Við þurfum að horfa á
heildarmyndina, Margrét hefur
verið buguð af sorg, hún missir
fimm börn í fæðingu, og þau tvö
sem komast upp, Ragnheiður og
Halldór, látast bæði snemma. Þær
áttu allar sitt líf og eru mjög
mannlegar biskupsfrúrnar mínar,
en það var langt frá því að ævi
þeirra væri slétt og felld.“
Í fangelsi í 22 ár í Bláturni
Hildur rekur líka í bók sinni
sögu þriggja kvenna, sem ekki eru
biskupsfrúr.
„Fyrst er það Guðrún Gott-
skálksdóttir sem verður barnshaf-
andi eftir kirkjuprestinn en hún
var þá heitbundin Gissuri, fyrsta
lúterska biskupnum okkar. Það
slitnar upp úr trúlofuninni en þrí-
burarnir fæðast andvana í
Bræðratungu. Önnur er Helga í
Bræðratungu, náfrænka allra
hinna en hún giftist sýslumanni.
Mér fannst þurfa að hafa frú úr
hinum veraldlega heimi til saman-
burðar. Helga var í æsku kát,
uppreisnargjörn og frjálsleg í fasi
enda þurfti hún ekki að beygja sig
undir óskrifaðan aga kirkjunnar.
Hún talaði fyrir réttlæti, fyrirleit
galdraofsóknir og allt ofstæki. Þó
finnast í eftirmælum hennar dæmi
um meiri trúrækni en við vitum af
meðal hinna. Sú þriðja er Leonóra
Kristín Ulfeldt, dóttir Kristjáns
IV. Danakonungs. Hún var lokuð
inni í Bláturni í 22 ár, á æsku-
heimili sínu konungshöllinni, því
eiginmaður hennar var ákærður
fyrir föðurlandssvik. Hún var
mjög vel menntuð og skrifaði nið-
ur hvað hún gerði til að fylla tím-
ann í fangavistinni. Þannig veitir
hún okkur innsýn í hvernig hátt-
settar konur hugsuðu, hvað þær
gerðu og hvernig þær unnu með
sína menntun. Nær allar biskups-
konurnar eru vel menntaðar yfir-
stéttarkonur, en með hjálp þess-
ara þriggja fannst mér sögusviðið
opnast og tengjast út fyrir land-
steinana. Skyldu þær hafa borið
sig saman við kónga- og aðalsfólk
síns tíma? Eftir ævintýrið með
Guðrúnu biður Gissur um hönd
Katrínar Hannesdóttur fyrrum
hirðstjóra og þau eru gefin saman
um haustið þegar Hinrik VIII.
tekur sér fyrir eiginkonu þriðju
Katrínuna og hann er þá þegar
búinn að hálshöggva tvær og þar
af eina Katrínu. Mig langaði að fá
bergmál utanlands frá til að
stækka myndina.“
Valgerður hefði verið kölluð
ofurkona nú á tímum
Í bókunum kemur Hildur tölu-
vert inn á klæðnað kvennanna og
höfuðbúnað.
„Við erum að fjalla um tíma
Loðvíks XIV, sem setur tískulín-
una fyrir alla Evrópu. Ég leitaði
að einhverjum merkjum um að
frúrnar mínar hafi vitað um og
komið fram með nýungar en finn
fátt fyrr en kemur að Valgerði.
Hún verður fyrst hefðarkvenn-
anna til að leggja niður faldbún-
inginn og taka upp frjálslegri
klæðnað. Þær tvær sem eru sterk-
astar, hún og Helga, eru báðar
uppi á tímum þegar eitthvað er að
gerast í samfélaginu. Prentverkið
breytir miklu, hannyrðum kvenn-
anna líka, meðan Helga verður
þessi mikla ættmóðir í Skálholti.
Valgerður reisir staðinn við og
gerir aftur að stórbýli því hún
lærir að nýta sér hina nýju tækni
sem póstsamgöngurnar eru og
skrifar rúmlega fjögur hundruð
bréf, meðal annars til kóngsins í
Kaupmannahöfn. Hún kaupir jarð-
ir og hefði verið kölluð ofurkona á
okkar tímum,“ segir Hildur og
bætir við að henni finnist þær all-
ar skemmtilegar, biskupsfrúrnar.
„Þær sóttu að mér á undarlegan
máta og það var verulega gaman
að spjalla við þær.“
Ævi þeirra var ekki slétt og felld
„Þær sóttu að mér á undarlegan máta og það var verulega gaman að spjalla við þær,“ segir Hildur
Hákonardóttir Skoðar sögu biskupsmatróna Segir skipta máli að við þekkjum þessar konur
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hildur „Þegar Brynjólfur verður sem æfastur út í Ragnheiði dóttur sína og gengur hvað harðast fram, þá er Mar-
grét sú eina sem þorir að standa á móti honum,“ segir Hildur um Margréti Halldórdóttur biskupsfrú.