Morgunblaðið - 12.04.2021, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. APRÍL 2021
Flatahrauni 7 | 220 Hafnarfirði | Sími 565 1090 | www.bjb.is
Fékk bíllinn
ekki skoðun?
Aktu áhyggjulaus í burt á nýskoðuðum bíl
Sameinuð gæði
BJB-Mótorstilling þjónustar
flesta þætti endurskoðunar
á sanngjörnu verði og að
auki förum við með bílinn
þinn í endurskoðun, þér
að kostnaðarlausu.
Kirkjuturn
Afstaða
Hver sem leitar að kirkju byrjar á
því að svipast um eftir kirkjuturni
og oftast verður það fyrsta merkið
um kirkjuna sem hann finnur. Ekki
eru margar kirkjur án turns, þótt
þeir geti vissulega verið af ýmsum
stærðum og gerð-
um. Við eigum
einhvern veginn
erfitt með að
ímynda okkur
kirkjur án hans í
einhverri mynd.
Oftast er turni
komið fyrir á
vesturhlið kirkna,
þar sem þeir rísa
hátt upp yfir kirkjudyrunum og
marka jafnframt inngang hennar.
Kirkjuturninn hýsir hér alla jafna
anddyrið eins og til dæmis á við um
Hallgrímskirkju í Reykjavík. Einnig
eru til turnar sem standa að mestu
við hlið inngangsins eða sem sjálf-
stæð bygging til hliðar við kirkjuna
eins og turn Breiðholtskirkju og
Grensáskirkju. Sumar kirkjur eru
með tvo eða fleiri turna og nægir að
benda á Háteigskirkju sem hefur
fjóra. Ósjaldan eru turnarnir miklar
byggingar með mun þykkari veggi
en kirkjan sjálf eins og margar eldri
kirkjubyggingar í Evrópu vitna um.
Oftast rísa þeir þar hátt og mjókka
þegar ofar dregur og enda í odd-
hvössu þaki. Turninn lætur menn
þannig ósjálfrátt líta upp og beina
sjónum til himins. Oft er þak þeirra
oddhvasst, en margir hafa þak að
lögun eins og lauk eða næpu eða eru
jafnvel flatir. Sumir turnar eru sí-
valir en alla jafna eru þeir fer-
strendir og byggðir á ferhyrndum
grunni. Þegar ofar dregur er sem
þeir snúi sér við toppinn og verði að
átthyrningi sem spírulaga þak er
sett á.
Kirkjuklukkum er oftast komið
fyrir í turninum og í honum tröppum
á milli hæða innan kirkjunnar til
þess að fólk komist inn á svalir sem
liggja meðfram kirkjuskipinu. Efst í
honum má oft finna útsýnissvalir.
Erlendis er gjarnan skreytingum
komið fyrir á turnum, sérstaklega í
kringum þak- og vatnsrennur, svo
sem styttum af englum, djöflum og
furðuverum. Þetta er sérstaklega
áberandi á gotneskum kirkjum. Á
toppi turnsins er komið fyrir krossi
sem oft stendur á kúlu en ósjaldan
er þar veðurhani í stað kross, sjá
nánar um hann hér síðar.
Turnar fá fólk á jörðu niðri til að
líta upp til himins, en þegar það er
komið upp í turninn og á útsýnispall-
inn sér það langt og verður í bók-
staflegri merkingu víðsýnt. Í yfir-
færðri merkingu greinir það betur
samhengi hlutanna á jörðu niðri.
Turnar setja þannig iðulega daglegt
líf manna í annað og stærra sam-
hengi. Oft er sem þeir færi menn
nær himninum og veiti þeim nýtt
sjónarhorn á eigin tilvist.
Lengi vel voru kirkjuturnar
hæstu byggingar í borgum og í
minni þorpum og sveitum er það
iðulega þannig enn. Athyglisvert er
að í samtímanum er mikið gert úr
vægi turna og skýjakljúfa sem rísa
upp úr borgarbyggðinni. Það er sem
eigendur þeirra vilji jafnt vísa til
eigin valds og víðsýnis. Það þarf því
ekki að koma á óvart að við hlið
kirkjuturna eru það oftast banka-
byggingar, viðskiptahallir og sjón-
varpsturnar sem eru hvað mest
áberandi í borgarlöndum nútímans.
Ráðhús eru mörg hver líka með sína
turna en það á einnig við um fangelsi
og aðrar hallir sem óneitanlega vilja
vísa til mismunandi „valdastöðu“
manna. Auk þess ber að geta hafn-
arvita sem lýsa skipum rétta leið.
Sögulegt samhengi
[…] Fyrstu kirkjur sem reistar
voru í Rómaveldi á 4. öld voru svo-
kallaðar basilíkur, en við hlið þeirra
var farið að reisa turna og í þá settar
kirkjuklukkur. Þeir kölluðust
klukkuturnar og urðu algengir á 4.
og 5. öld. Nú á dögum þekkjum við
vel til slíkra turna, svo sem eins og
við Breiðholtskirkju, og hógvært
dæmi um einn slíkan er við Kópa-
vogskirkju. Kirkjuturnar urðu fyrst
útbreiddir í Evrópu á 8. og 9. öld, á
valdatíma svonefndra Karlunga
(750-900). Þeir voru aðallega
klukkuturnar með útsýnisrými eða
palli til öryggisgæslu. Eins og áður
er getið varð annar kirkju-
byggingarstíll síðar ráðandi, svo-
nefndur rómanskur stíll (1050-1250),
en kirkjur í þeim stíl minna mjög á
borgarvirki sem veittu skjól í ólgu-
sjó sögunnar. Kirkjurnar höfðu alla
jafna tvo turna hvorn sínum megin
við aðalinnganginn á vesturhlið.
Þegar menn stigu yfir þröskuldinn
var ekki aðeins sem þeir kæmu inn í
virki sem veitti þeim skjól, heldur
inn í sjálfan himininn.
Á hámiðöldum kemur fram annar
stíll í kirkjubyggingum, svonefndur
gotneskur stíll (1200-1500). Kirkjur
hafa þar iðulega einn stóran turn á
vesturhliðinni, eins og við þekkjum í
Hallgrímskirkju, en auk þess gátu
þær verið með nokkra minni. Turn-
inn átti að rísa hátt og vísa inn í him-
ininn sem lofgjörð til Guðs og til
dýrðar þeim er hann reistu. Oft voru
þeir hálfkarað verk og sjaldan full-
gerðir og stundum hrundu þeir. Á
hámiðöldum og síðmiðöldum óx
borgarastéttin jafnt og þétt að völd-
um og auði. Í borgum þar sem voru
biskupssetur var ósjaldan reist veg-
leg biskupskirkja með glæsilegum
turni, en til að draga úr alræði bisk-
upa reistu borgarar gjarnan sína
eigin kirkju og þá helst með aðeins
stærri turnum. Þessi samkeppni
leiddi ekki bara til þess að turnar
urðu sífellt stærri, heldur líka til
þess að merkar klausturhreyfingar
(t.d. sistersíanar) höfnuðu með öllu
háum turnum. Þær byggðu kirkjur
sínar með litlum klukkuturnum við
þakið eða rétt upp úr því og virkuðu
þær sem kall til iðrunar. Ef til vill
má setja turna sveitakirkna á Ís-
landi í þetta samhengi.
Á tímum endurreisnarstefnunnar
(1500-1650) var turnum oft skipt út
fyrir voldug hvolfþök eins og við
þekkjum t.d. á Péturskirkjunni í
Róm. Á tímum barokksins (1650-
1750) var aftur lögð áhersla á turna
þótt hvolfþök hafi verið algengari.
Þegar þjóðernisstefnan kom fram á
sjónarsviðið var ráðandi klassískur
stíll (1790-1830) en á 19. öld tók hún
upp á sína arma nýgotneskan bygg-
ingarstíl og verða þá miklir turnar
aftur vinsælir. Hallgrímskirkja er
gott dæmi um slík áhrif. Nú á dög-
um hefur verið horfið frá háum turn-
um. Þeir eru oft frístandandi við
kirkjurnar eða hreinlega innbyggðir
í þær og ekki eins háir og áður.
Guðfræðileg merking
Kirkjuturnar veita skjól og gefa
vísbendingu um að kirkjan sem
guðshús sé „borg á bjargi traust, hið
besta sverð og verja“, eins og Lúth-
er orðar það í sálminum. Hér ber að
gæta þess að í fornöld og á miðöld-
um, og í raun allar götur síðan, gat
fólk leitað skjóls í turnum þegar
hætta steðjaði að því. Erfitt var að
komast inn í þá af því að dyrnar voru
jafnan á útvegg og klifra þurfti upp í
þá eftir stiga sem síðan var dreginn
inn um þessar litlu dyr. Torvelt gat
reynst að ryðjast inn í slíka turna,
einkum ef menn mættu mikilli mót-
stöðu þeirra sem vörðust í turninum.
Líkast til má finna í þessu ástæðu
þess að turnar voru reistir við
vesturvegg kirkna og að þar væru
dyr og anddyri þeirra staðsett. Líkt
og sólin reis í austri kemur myrkrið
úr vestri. Í samræmi við ríkjandi
heimsmynd álitu menn að þegar
haldið væri í vestur mætti þeim haf
sem endaði við myrkt tómið. Þessari
hugmynd léðu menn fyrr á tímum
þá merkingu að ógnum myrkurs og
þeim djöflum sem það gat hýst væri
mætt í kirkjubyggingunni. Einmitt
sem varnarturn átti kirkjuturninn
að sýna að í öllu lífi manna væri
kirkjan þeim athvarf. Í henni gæti
fólk leitað skjóls frá ógnum veru-
leikans og þeirri óáran sem herjaði á
tilvist þess. Kirkjan var hæli og
griðastaður. Þetta sjónarmið kemur
vel fram m.a. í kirkjugriðum þar
sem gert er ráð fyrir því að innan-
dyra í kirkjunni sé bannað að beita
vopnavaldi og draga fólk nauðugt út.
Þetta skipti sköpum fyrir samfélög
sem höfðu ekki sterkt eða virkt
ríkisvald og hnefarétturinn, jafnvel
stríðsrekstur, mótaði daglegt líf
fólks. Um Mikael erkiengil er ritað í
Opinberunarbókinni að hann hafi í
umboði Krists fellt Satan og hlekkj-
að (Opb 12. 7-9). Mikael eru tileink-
aðar margar kirkjur og á hann sér
einatt fastan sess í kirkjunni nærri
innganginum. Þar má jafnvel sjá ölt-
uru sem tileinkuð hafa verið honum.
Hann verndar menn frá ógnum
myrkurs og hins illa. Finna má at-
hyglisverða útleggingu á þessari
arfleifð í Hallgrímskirkju þar sem
Jesús Kristur stendur við inngang-
inn á þeim stað sem Mikael erkieng-
ill er vanalega. Það er sem þessi
staðsetning styttunnar vilji árétta
að Kristur sé sá sem sigrar jafnt
myrkur heimsins og það myrkur
sem finna má í hjörtum mannanna.
Þegar fólk gekk til kirkju lá leiðin
frá myrkri í vestri til ljóss í austri.
Við austurenda kirkjunnar í kórnum
er altarið þar sem komið er fyrir
helstu táknum kristninnar um upp-
risuna og það eilífa líf sem trúaðir
eiga í Kristi. Sálmur Lúthers sem
fyrr er vitnað til er gott dæmi um
þetta.
Fjöldi turna hefur einnig ákveðna
merkingu. Ein er sú að tveir turnar
vísi til himinsins eða guðsríkisins,
þ.e.a.s. til hins nýja heims sem mað-
urinn tilheyrir að lokum. Aftur á
móti eru fjórir turnar alla jafna
tengdir guðspjallamönnunum, turn-
arnir á framhliðinni standa fyrir
Matteus og Jóhannes, sem báðir
voru lærisveinar Krists, en turn-
arnir á austurenda fyrir Lúkas og
Markús, sem voru lærisveinar
postula.
Margir turnar eru ferstrendir
eins og fyrr segir. Ástæðan er meðal
annars sú að ferningurinn hefur frá
fornu fari verið talinn fullkomið
form og heilagt ásamt hringnum.
Ferningurinn var ímynd reglunnar
og andstæða óreiðunnar. Átthyrn-
ingurinn er samsettur úr tveimur
ferningum og vísar til sama veru-
leika, en í kristninni fær hann aðra
og dýpri trúarlega merkingu. Turn-
ar sem eru átthyrndir vísa því ekki
bara upp í himininn, heldur inn í
sjálfa eilífðina. Ef kirkja hefur fleiri
turna en einn vekur það hugboð um
kirkjuna sem hina nýju Jerúsalem
sem hefur – í lýsingum Opinber-
unarbókarinnar – tólf hlið og jafn-
marga turna (Opb 21.9-22.5). Turn-
inn er til vitnis um að innan
kirkjunnar, m.a. í hverri bænastund,
guðsþjónustu eða öðrum athöfnum,
mætast himinn og jörð, þar sem
kirkjan er ríki Guðs á jörðu fyrir
mátt orðs og sakramentis.
Einnig er unnt að sjá í turninum
ákall til safnaðarins um að halda
vöku sinni. Það er sem turninn segi:
„Réttið úr yður, hjálpræði ykkar er í
nánd.“ Þess vegna geyma þeir jafn-
an kirkjuklukkur – sem jarteikn
fagnaðarerindisins – og á toppi
turnsins er kross sem vísar til inn-
taks þess. Honum er oft komið fyrir
á kúlu en hún getur táknað fullkom-
leikann og það sem fagnaðarerindið
stendur fyrir, jafnvel heiminn sem
fagnaðarerindið hljómar í. Eins og
áður er bent á má stundum finna
veðurhana í stað kross á slíkum kúl-
um. Hann snýr upp í vindinn og
brýnir þannig fyrir hinum trúuðu að
takast á við þá mörgu kenningar-
vinda sem skella á kirkjunni á hverj-
um tíma úr ólíkum áttum með fagn-
aðarerindið að vopni (1Pét 4.11).
Hann er auk þess tákn fyrir uppris-
una en umfram allt er hann áminn-
ing til safnaðarins um að halda vöku
sinni. Frásagan af því þegar Pétur
afneitar Jesú og haninn galar þrisv-
ar vitnar um það (Matt 26.69-75).
[…]
(Tilvísunum er sleppt.)
Frá myrkri í vestri til ljóss í austri
Bókarkafli | Í bókinni Augljóst en hulið leiðir
Sigurjón Árni Eyjólfsson lesandann í gegnum
sögu kirkjubygginga, allt frá fyrstu húskirkj-
unum til hinna íburðarmiklu dómkirkna miðalda
og fram á okkar daga og opnar augu hans fyrir
dýpri merkingu kirkjurýmisins.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Hulið Sigurjón Árni Eyjólfsson skýrir merkingarheim kirkjubygginga
Veistu um góðan
rafvirkja?
FINNA.is