Morgunblaðið - 29.04.2021, Side 56
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það er mjög viðeigandi að frumsýna í apríl, bæði
er þetta afmælismánuður Elísabetar auk þess
sem verkið kallast sterklega á við Aprílsólar-
kulda,“ segir Edda Björg Eyjólfsdóttir, leikkona
og framleiðandi leikverksins Haukur & Lilja –
Opnun eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur í
leikstjórn Maríu Reyndal sem frumsýnt verður í
Ásmundarsal í kvöld. Spurð um tilurð uppfærsl-
unnar segir Edda Björg að þau Svein Ólaf Gunn-
arsson hafi langað að leika saman. „Við erum
góðir vinir og finnst gaman að vinna saman. Við
fórum því að leita að rétta verkinu og þá datt
Svenna þetta leikverk í hug sem hann lék á móti
Mörtu Nordal árið 2010 í útvarpinu,“ segir Edda
Björg og bendir á að gaman sé að sviðsetja verk
sem aðeins hafi hljómað í útvarpi fram til þessa.
„Það er alltaf spennandi að takast á við verk
sem er ekki alveg hefðbundið,“ segir Edda Björg
og rifjar upp að hún hafi strax heillast af verkinu
þegar hún las það. „Það fjallar um parið Hauk og
Lilju sem eru á leið í veislu. Hún veit ekki í hvaða
kjól hún á að fara, hún vill að Haukur ákveði það.
Tíminn líður og veislan bíður meðan Lilja reynir
af veikum mætti að vinna bug á óttanum og kvíð-
anum sem hefur gagntekið hana,“ segir Edda
Björg og tekur fram að meðal vangaveltna Lilju
sé hvort hún eigi að halda ræðu og hvort hún
muni setjast hjá rétta fólkinu í veislunni. „Við
kynnumst þannig Hauki og Lilju og þeirra innra
lífi og sambandi meðan þau hafa sig til fyrir veisl-
una – en lífið sjálft er auðvitað veisla. Það er mikil
elísabetíska í þessu verki þar sem ekki er fyrir-
sjáanlegt hvernig samtalið milli persónanna
tveggja þróast. Elísabet er svolítið eins og Pinter
– maður skilur texta hennar með hjartanu en
ekki alltaf með höfðinu,“ segir Edda Björg og
tekur fram að textar Elísabetar séu oft á tíðum
ljúfsárir í senn. „Verkið myndar ákveðna lúppu
sem gengur í hringi eins og lífið, sem minnir
sumpart á Beðið eftir Godot eftir Beckett,“ segir
Edda Björg og rifjar upp að þegar leikhópurinn
las Aprílsólarkulda, sem út kom í fyrra og hlaut
Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagur-
bókmennta, hafi hópurinn séð í hendi sér að kjör-
ið væri að grípa búta úr þeirri bók og tvinna sam-
an við Hauk & Lilju – Opnun. „Enda er sterk
speglun milli Kjartans og Védísar í Aprílsólar-
kulda og Hauks og Lilju. Við fengum því leyfi hjá
Elísabetu til að stækka leikritið með þessum
hætti. María Reyndal leiddi handritavinnuna af
sinni alkunnu snilld og næmni. Hún heldur sem
leikstjóri einnig einstaklega fallega utan um leik-
hópinn,“ segir Edda Björg og bendir á að tengsl-
in við Aprílsólarkulda hafi einnig gefið leikverk-
inu ákveðna jarðtengingu og gert útvarpsverkið
leikbærara á sviði. „Í grunninn fjallar verkið um
það að vera manneskja með öllu því sem það inni-
ber, bæði af sorg og gleði sem eru bara tvær hlið-
ar á sama peningi. Elísabet skrifar svo fallega
um lífið, manneskjuna, ástina og óttann við höfn-
un að það má auðveldlega finna mikla sjálfshjálp
í textum hennar,“ segir Edda Björg og tekur
fram að textabrot úr verkinu hafi verið prentuð
út, römmuð inn og prýði veggi Ásmundarsalar
eins og um listaverkasýningu væri að ræða, en
hægt er að fjárfesta í völdum innrömmuðum
setningum úr verkinu. „Þetta er því nánast orðið
sýning á sýningu,“ segir Edda Björg og bendir á
að sér hafi fundist efnið kalla á óhefðbundið leik-
rými og af þeim sökum hafi Ásmundarsalur orðið
fyrir valinu, en Haukur & Lilja – Opnun mun
vera fyrsta leikverkið sem þar er sett upp. „Okk-
ur langaði að þurrka út mörkin milli listgreina og
vinna með samruna listforma,“ segir Edda Björg
og bendir á að áhorfendur mæti yfirleitt með
ólíkar væntingar eftir því hvort leikverk sé sett
upp í hefðbundnu leikrými eða óhefðbundnu
rými. „Okkur fannst líka gaman að aðlaga okkur
að breyttum heimi. Þetta er stutt sýning sem
inniheldur allt í senn leikverk, tónleika, myndlist
og gjörning,“ segir Edda Björg og tekur fram að
í þeim skilningi sé uppfærslan líka mjög elísabet-
ísk.
Verðum einfaldlega að treysta englunum
Að sögn Eddu Bjargar virðist uppfærslan vera
fædd undir heillastjörnu. „Þegar ég sótti um
styrk fyrir uppsetningunni var ég á sama tíma að
kveðja afa minn inni á líknardeild, en það er eins
og englarnir sem sóttu hann hafi líka vakað yfir
þessu verkefni,“ segir Edda Björg og bendir á að
þrátt fyrir ýmsar hindranir á tímum heimsfar-
aldurs hafi hlutirnir alltaf blessast þegar til kast-
anna kom. „Maður verður einfaldlega að treysta
englunum og treysta því að allt fari vel. Þegar lit-
ið er um öxl er hreint ótrúlegt að sjá hvernig allt
hefur leyst á farsælan hátt, sem maður sá ekkert
endilega fyrir í ferlinu meðan leitin að réttu
lausninni fór fram,“ segir Edda Björg og undir-
strikar mikilvægi þess að fylgja innsæinu og vera
óhræddur við að sleppa takinu og treysta.
Verkið er um 50 mínútur í flutningi og leikið án
hlés. „Aðeins komast 24 áhorfendur á hverja sýn-
ingu, þannig að þetta er lítil og náin sýning með
þeim fjarlægðartakmörkunum sem í gildi eru.
Fólk getur því hæglega fengið þá tilfinningu að
við séum að leika sérstaklega fyrir það, sem er
skemmtilegt,“ segir Edda Björg að lokum. Auk
ofangreindra listamanna koma að uppfærslunni
María Th. Ólafsdóttir sem hannar leikmynd og
búninga, Ólafur Ágúst Stefánsson sem hannar
lýsinguna og hljóðfæraleikararnir Þorvaldur Þór
Þorvaldsson á trommur og Stefán Magnússon á
gítar, en sá síðarnefndi hefur umsjón með tónlist
uppfærslunnar.
Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir
Opnun Edda Björg
Eyjólfsdóttir og Sveinn
Ólafur Gunnarsson í
hlutverkum sínum.
„Mikil elísabetíska í þessu verki“
- Haukur & Lilja – Opnun eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur í leikstjórn Maríu Reyndal frumsýnt
í Ásmundarsal - „Lífið sjálft er auðvitað veisla,“ segir Edda Björk Eyjólfsdóttir sem leikur Lilju
56 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. APRÍL 2021
Barnabókaverðlaun Reykjavíkur-
borgar 2021 voru afhent í Höfða í
gær. Verðlaunin hlutu að þessu sinni
Freydís Kristjánsdóttir fyrir bókina
Sundkúna Sæunni í flokki myndlýs-
inga, Jón St. Kristjánsson í flokki
þýðinga fyrir þýðingu sína á Ótrúleg
ævintýri Brjálínu Hansen 3 eftir
Finn-Ole Heinrich og Rán Flygen-
ring, og Snæbjörn Arngrímsson fyr-
ir Dularfullu styttuna og drenginn
sem hvarf í flokki frumsaminna
bóka. Borgarstjóri, Dagur B. Egg-
ertsson, afhenti verðlaunin.
Þetta eru elstu barnabókverðlaun
á Íslandi en þau voru fyrst veitt árið
1973 á vegum fræðsluyfirvalda í
Reykjavík. Árið 2016 voru Dimma-
limm-myndlýsingaverðlaunin og
Barnabókaverðlaun Reykjavíkur
sameinuð og urðu flokkarnir þá þrír.
Verðlaunafé er 350 þúsund kr.
Hrífandi, skapandi, á erindi
Í ár fékk dómnefndin 116 bækur
til skoðunar. Fimm bækur voru til-
nefndar í hverjum flokki og skar svo
valnefnd úr um að þessar þrjár hlytu
verðlaunin. Valnefndina skipuðu
Tinna Ásgeirsdóttir, Ásmundur
Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára
Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson
og Valgerður Sigurðardóttir.
Í rökstuðningi um að Freydís
Kristjánsdóttir hljóti verðlaun fyrir
myndlýsingar í bókinni Sundkýrin
Sæunn segir að myndir hennar séu
„listilega unnar, hrífandi og vinna
vel með textanum og hvort tveggja
vísar á skemmtilegan hátt í sígildar
íslenskar barna- og þjóðsögur.
Myndirnar eru í raunsæisstíl, unnar
með vatns-/gvasslitum, og bera
færni Freydísar vitni. Hún hefur
frábært vald á þeim miðli sem hún
hefur valið sér og um leið mikla
næmni við að túlka dýr og menn.“
Um verðlaunaþýðingu Jóns Stef-
áns Kristjánssonar, Ótrúleg ævin-
týri Brjálínu Hansen 3, segir að þýð-
andinn glími „við afar fjölbreytt
verkefni í þessari sögu. Hann þarf
ekki aðeins að búa til skapandi
staðarheiti á borð við Brjálivíu og
Plastgerði og nýyrði eins og Blappír
og Brús-ís, hann þarf líka að þýða
fjölda uppskrifta og myndasagna og
halda takti í iðandi frásögn sem lýt-
ur sínum eigin lögmálum. Allt ferst
þetta honum afar vel úr hendi. Hann
fangar einstök blæbrigði verksins og
skilar bæði sorgum og sigrum Brjál-
ínu til íslenskra lesenda á lipru og
leikandi máli svo unun er að lesa.“
Snæbjörn Arngrímsson hlaut
Barnabókaverðlaunin fyrir bestu
frumsömdu bókina á liðnu ári,
Dularfulla styttan og drengurinn
sem hvarf. Um hana segir að höf-
undur fari „ákaflega létt með að véla
lesandann inn í söguheiminn með
lágstemmdum stíl og meitlaðri per-
sónusköpun. Snæbjörn ber virðingu
fyrir ungum lesendum og skilur
margt eftir handa þeim til að ráða úr
í textanum og lesa á milli línanna.
En fyrir þá sem eru styttra á veg
komnir standa fléttan og spennan
fyllilega fyrir sínu og bókin á því
erindi til margra.“
Snæbjörn, Freydís og Jón verðlaunuð
- Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar afhent í gær - Skáldsaga Snæbjörns Arngrímssonar valin
best - Freydís Kristjánsdóttir verðlaunuð fyrir myndlýsingu - Þýðing Jóns St. Kristjánssonar best
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Valin best Snæbjörn Arngrímsson, Freydís Kristjánsdóttir og Jón St. Kristjánsson tóku við verðlaununum í Höfða.