Morgunblaðið - 29.05.2021, Síða 50
50 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. MAÍ 2021
Tvær sýningar verða opnaðar í dag,
laugardag, í Listasafninu á Akur-
eyri milli kl. 12 og 17. Er það annars
vegar samsýning norðlenskra
myndlistarmanna, Takmarkanir, og
hins vegar sýning á verkum úr safn-
eign Listasafnsins sem ber yfir-
skriftina Nýleg aðföng. Sýningar-
stjóri beggja sýninga er Hlynur
Hallsson.
Samsýningin er tvíæringur og nú
haldin í fjórða sinn. Að þessu sinni
var unnið út frá þemanu takmark-
anir sem er augljóslega bein tilvísun
í ástandið í heiminum þessi miss-
erin, segir í tilkynningu, en safnið
auglýsti eftir umsóknum um þátt-
töku í sýningunni og dómnefnd valdi
verk eftir 17 listamenn af þeim 44
sem sóttu um. Sum verkin voru
unnin sérstaklega fyrir sýninguna
og er henni ætlað að gefa innsýn í
fjölbreytta flóru myndlistar sem
tengist Norðurlandi og vekja um-
ræður um stöðu norðlenskra lista-
manna og myndlistar almennt, svo
vitnað sé í tilkynningu. Listamenn-
irnir sem sýna eru Aðalheiður S.
Eysteinsdóttir, Auður Lóa Guðna-
dóttir, Árni Jónsson, Bergþór Mort-
hens, Brák Jónsdóttir, Egill Logi
Jónasson, Guðmundur Ármann Sig-
urjónsson, Hekla Björt Helgadóttir,
Hrefna Harðardóttir, Íris Ólöf
Sigurjónsdóttir, Jonna – Jónborg
Sigurðardóttir, Joris Rademaker,
Jón Laxdal Halldórsson, María
Sigríður Jónsdóttir, Sigurður Mar
Halldórsson, Stefán Boulter og
Tanja Stefanovic.
Ekkert fjármagn
Um Nýleg aðföng segir að eitt af
meginhlutverkum listasafna sé að
safna myndlist og miðla safneign-
inni en því miður sé ekkert fjár-
magn áætlað á fjárhagsáætlun
Listasafnsins á Akureyri til kaupa á
listaverkum og þannig hafi það ver-
ið í meira en áratug. Það standi þó
til bóta og nýlega hafi verið lögð
fram drög að samþykkt um lista-
verkakaup í stjórn Akureyrarstofu
sem jafnframt er stjórn Listasafns-
ins.
Listasafninu hafa borist margar
góðar gjafir á síðustu árum og
byggist sýningin á hluta af þeim
verkum. Listamenn sem eiga verk á
sýningunni eru Elín Pjet Bjarnason,
Friðgeir Helgason, Jessica Tawc-
zynski, Louisa Matthíasdóttir,
Magnús Helgason, Óli G. Jóhanns-
son og Tomas Colbengtson.
Takmarkanir og
Nýleg aðföng
- Opnanir í Listasafninu á Akureyri
Sumarnótt Hluti verks eftir Bergþór Morthens, unnið á þessu ári.
Nú finnur
þú það sem
þú leitar að
á FINNA.is
IÐNAÐARMENN VERSLANIR
VEITINGAR VERKSTÆÐI
BÓKHALDSÞJÓNUSTA OG FLEIRA
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þetta er nýtt og ögrandi samtíma-
verk sem vakið hefur verðskuldaða
athygli erlendis,“ segir Marta Nor-
dal, sem leikstýrir útskriftarnem-
endum leikarabrautar Listaháskóla
Íslands í leikritinu Krufning á
sjálfsmorði eftir
Alice Birch í
íslenskri þýðingu
Sölku Guðmunds-
dóttur. Upp-
færslan, sem
unnin er í sam-
vinnu Listahá-
skóla Íslands,
Þjóðleikhússins
og Leikfélags
Akureyrar, er
frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhús-
inu annað kvöld kl. 20.
Að sögn Mörtu er Alice Birch eitt
áhugaverðasta unga leikskáld
Breta, en Krufning á sjálfsmorði var
frumsýnt í Royal Court-leikhúsinu í
London 2017 í leikstjórn Katie
Mitchell og hlaut Susan Smith
Blackburn-verðlaunin árið 2018.
Hvað mótar manneskjurnar?
„Í verkinu er höfundurinn að
skoða hvað mótar okkur mest sem
manneskjur. Eru það erfðir, uppeldi
eða samfélagsleg áhrif og umhverf-
ið. Áhorfendur fá að sjá þrjár kyn-
slóðir kvenna segja sögu sína sam-
tímis á sviðinu. Hver saga nær yfir
mislangan tíma, en alls spannar
leikritið tíma sem nær frá um 1967
til 2030. Þetta er gífurlega krefjandi
verkefni vegna þess að við erum eig-
inlega að æfa þrjú verk sem fara
fram samtímis. Fyrir vikið held ég
að áhorfendur muni upplifa upp-
færsluna með mjög ólíkum hætti,
því það er mismunandi hvaða saga
grípur hvern mest,“ segir Marta og
líkir leikritinu við tónverk. „Þar sem
hver nóta skiptir máli, en textinn er
í senn meitlaður og ljóðrænn. Þetta
er því góð áskorun fyrir krakkana,“
segir Marta og vísar þar til
útskriftarnemendanna.
Útskriftarnemendur ársins eru
Almar Blær Sigurjónsson, Björk
Guðmundsdóttir, Ellen Margrét
Bæhrenz, Fannar Arnarsson,
Kristrún Kolbrúnardóttir, Níels
Thibaud Girerd, Stefán Þór
Þorgeirsson, Urður Bergsdóttir og
Örn Gauti Jóhannsson.
„Þetta er ekki síður krefjandi fyr-
ir okkur leikstjórana,“ segir Marta
og vísar þar til sín og Önnu Maríu
Tómasdóttur. „Hún kom inn í verk-
efnið sem verkefnastjóri og aðstoð-
arleikstjóri, en varð með tímanum
meðleikstjóri minn sökum þess
hversu krefjandi verkefnið er, hún
frábær leikstjóri og við sammála um
leiðina sem farin er,“ segir Marta og
rifjar upp að Anna María hafi lokið
námi frá sviðshöfundabraut LHÍ
áður en hún hélt til New York í leik-
stjórnarnám. Hún leikstýrði The
Last Kvöldmáltíð og var aðstoðar-
leikstjóri í Kópavogskróníkunni og
Framúrskarandi vinkona.
Aðrir listrænir stjórnendur eru
Brynja Björnsdóttir sem hannar
leikmynd og búninga, Ólafur Ágúst
Stefánsson sem hannar lýsingu og
Ísidór Jökull Bjarnason sem semur
tónlistina, en Ísidór er útskriftarefni
í tónsmíðum frá tónlistardeild LHÍ.
„Hann er eitt stór talentbúnt,“ segir
Marta og tekur fram að það sé dýr-
mætt að vera með blöndu af ungu
hæfileikafólki og miklum reynslu-
boltum.
Safaríkar senur
Iðulega hefur verið horft til þess
að útskriftarverkefni leikaraefna
bjóði upp á bitastæð hlutverk fyrir
alla í hópnum. Hentar þetta leikrit
vel til þess að öllum í leikhópnum
gefist færi á að láta ljós sitt skína?
„Já, ég myndi segja það. Fimm
þeirra leika sömu hlutverkin alla
sýninguna, þar af eru þrjár leik-
konur í burðarhlutverkum sem
mæðir mikið á þar sem þær eru all-
an tímann á sviðinu,“ segir Marta,
en sýningin er rúmir tveir tímar.
„Allir í leikhópnum fá hins vegar
bitastæð hlutverk, en sumir eru að
leika mörg hlutverk í sýningunni. Í
mínum huga var mjög mikilvægt að
allir í leikhópnum fengju safaríkur
senur til að vinna með,“ segir Marta
og rifjar upp að lesinn hafi verið
fjöldi leikrita meðan leitin að rétta
verkinu fór fram.
„Okkur langaði til að vinna með
samtímaverk sökum þess að síðast
vorum við að vinna með epískt
verk,“ segir Marta og vísar þar til
Mutter Courage eftir Bertolt
Brecht sem var útskriftarverkefni
nemenda af leikarabraut LHÍ vorið
2019. „Við skoðuðum mikinn fjölda
erlendra verka sem voru mörg hver
mjög flott. En svo kom þetta verk
upp í hendurnar á okkur sem okkur
fannst mjög spennandi. Það býr yfir
góðum hlutverkum fyrir alla, efnis-
tökin eru svo áhugaverð og það á
mikið erindi við okkur,“ segir Marta
og vísar þar til umræðunnar um
þunglyndi og þess hvernig áföll og
sorg erfist milli kynslóða. „Með því
að stilla sögunni upp á þremur tíma-
plönum er samtímis hægt að skoða
hversu mikil áhrif umhverfið hefur
sem og þau úrræði sem í boði eru.
Okkur fannst áhugavert hvernig
leikskáldið speglar sögur
kvennanna sem eru venslatengdar
og hvernig þær burðast með fortíð-
ina, því það er auðvitað svakalegt að
missa móður sína úr sjálfsvígi. Sam-
tímis beinir verkið sjónum sínum að
tengslum og tengslaleysi,“ segir
Marta og tekur fram að tilrauna-
mennskan í formi verksins hafi ekki
síður heillað. „Verkið reynir mikið á
tækni leikarans og hlustun,“ segir
Marta og bendir á að þó texti verks-
ins sé ljóðrænn sé raunsæið ríkjandi
í kringumstæðum verksins.
„Fyrir vikið erum við samkvæmt
forskrift bæði með börn og dýr í
sýningunni, sem er skemmtileg
áskorun,“ segir Marta, en auk
útskriftarhópsins leika í sýningunni
stúlkurnar Anna María Tryggva-
dóttir og Arnþrúður Karen Viktors-
dóttir sem og kanínan Skúli.
Hefur þú haft einhver kynni af út-
skriftarhópnum í námi þeirra hing-
að til?
„Nei, ég kem alveg fersk að þess-
um hóp. Ég held að þau hafi, á
þessu stigi málsins, mjög gott af því
að fá leikstjóra sem nálgast þau með
alveg ferskum augum. Það eru ótrú-
lega mikil forréttindi að fá að leik-
stýra útskriftarnemum af leik-
arabraut. Þau eru svo áhugasöm,
opin, ósérhlífin og örlát, auk þess
sem þau hafa stutt vel hvert við
annað í kófinu. Það er einstaklega
gefandi að vinna með hóp þar sem
leikhúsástríðan er ríkjandi.“
Flókið púsluspil
Á sínum tíma var leikritið Mutter
Courage frumsýnt á Akureyri og í
framhaldinu sýnt í Reykjavík. Er
það ekki rétt skilið að til hafi staðið
að endurtaka leikinn núna, en kófið
komið í veg fyrir það?
„Jú, það er rétt. Það er mér auð-
vitað þungbært að hafa ekki getað
æft og sýnt verkið fyrir norðan út af
kófinu. Ferlið allt hefur einkennst af
miklu æðruleysi gagnvart þeim
breytingum sem þurft hefur að
gera. Við höfum aldrei eytt tím-
anum í að fárast yfir hlutunum held-
ur bara tekið því sem að höndum
ber og gert gott úr öllu með bros á
vör.“
Sýndar verða sex sýningar á
næstu sex dögum og eru aðeins
örfáir miðar lausir. Aðgangur er
ókeypis en bóka þarf miða á tix.is.
Spurð hvort ekki standi til að bæta
við fleiri sýningum í ljósi þess
hversu hratt miðarnir eru rifnir út
svarar Marta að það sé snúið.
„Enda er þetta flókið púsluspil þar
sem margt þarf að ganga upp. Það
er alltaf mikil ásókn í sýningar út-
skriftarhópsins,“ segir Marta og
rifjar upp að fyrir tveimur árum
hafi líka þurft að hætta sýningum á
Mutter Courage fyrir fullu húsi.
„Það er auðvitað alltaf grátlegt þeg-
ar ekki er hægt að leyfa fleirum að
njóta afrakstursins, ekki síst þegar
búið er að leggja miklu vinnu í upp-
færsluna,“ segir Marta.
Ljósmynd/Margrét Seema Takyar
„Nýtt og ögrandi“
- Útskriftarnemendur frumsýna Krufningu á sjálfsmorði
- „Áhugasöm, opin, ósérhlífin og örlát“ segir leikstjórinn
Krefjandi „Þetta er gífurlega krefjandi verkefni vegna þess að við erum eiginlega að æfa þrjú verk sem fara fram
samtímis,“ segir Marta Nordal leikstjóri um leikritið Krufning á sjálfsmorði eftir Alice Birch í Kassanum.
Marta Nordal