Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.07.2021, Síða 8
H
ér er fjallað um merkingu orðs-
ins maður og þær ógöngur sem
ratað yrði í ef hróflað verður of
mikið við notkun þess, einkum
í lögum og opinberu máli. Til-
drögin eru tilraunir til þess að ná fram kynhlut-
lausri ræðu með því að forðast notkun á orðinu
og segja og skrifa þess í stað annað orð, oftast
fólk eða manneskja.
Að baki búa mótsagnakenndar hugmyndir
um að rétt sé að hafna annarri merkingu orðs-
ins maður en þeirri sem nær yfir fulltíða karl
(einnig þegar það gegnir hlutverki ópersónu-
legs fornafns) og gefnar forsendur eru í þá veru
að það sé þó aðalmerking orðsins. Samhliða er
orðið einnig talið þýða homo sapiens og vera
þannig samheiti við fólk og manneskja.
Nokkur orð um stöðu málsins
Ekki liggja fyrir leiðbeiningar um leiðir til þess
að ná fram kynhlutlausri málnotkun í íslensku
en ágætar vísbendingar eru í viðmiðum sem
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út fyrir ensku.
Þar er meðal annars lagt til að kyn sé látið koma
fram þegar það er viðeigandi en að því sé sleppt
þegar það varðar ekki umræðuefnið. Á málfars-
ráðunaut Ríkisútvarpsins er að skilja að hún
hafi ekki gefið út fyrirmæli um leiðir til að ná
fram kynhlutleysi í tungutaki, en hafi samt sem
áður ákveðið að láta hverjum frétta- og dag-
skrárgerðarmanni eftir að hafa sína hentisemi
um kynhlutlaust tungutak.
Líta þarf á þessa niðurstöðu sem aðgerð,
fremur en aðgerðaleysi, enda hefur hún haft
mikil, en þó tilviljanakennd, áhrif á málfar fjöl-
miðilsins; til viðbótar við að orðin fólk og mann-
eskja hafi orðið staðgenglar fyrir maður eru
töluorð, óákveðin fornöfn og lýsingarorð notuð í
hvorugkyni fleirtölu þar sem hefur verið karl-
kyn fram að þessu, en allt virðist það handa-
hófskennt. Því fer fjarri að þetta sé bundið við
Ríkisútvarpið, og sambærilegur geðþótti er orð-
inn algeng sjón í öðrum fjölmiðlum, í auglýs-
ingum sem og í efni frá opinberum aðilum.
En þótt ásetningurinn sé góður óttast margir
að meðulin séu óheppileg. Höskuldur Þráinsson
hefur til dæmis bent á að með því að nota hvor-
ugkyn í stað karlkyns sé hætta á útilokandi orð-
ræðu sem ekki hefur verið fyrir hendi hingað til
(Mbl. 29.5.). Ástæðan liggur í kerfinu, það er að
segja í innbyrðis samhengi í tungumálinu sjálfu.
Svipað gæti átt við ef orðinu maður verður
slaufað athugunarlaust.
Um afskipti yfirvalda af tungutaki
Þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson hefur farið
fram á að yfirvöld taki formlega afstöðu til þess-
ara málefna og verður ekki annað séð en að
hann mæli með breytingum af ofangreindu tagi.
Í framhaldinu hefur stjórnarráðið leitað ráð-
gjafar hjá málnefndum, sem munu byggja af-
stöðu á fyrirliggjandi þekkingu á efninu.
Umræðan hefur samt sem áður að miklu leyti
farið fram í fjölmiðlum og á netinu. Á slíkum
vettvangi hefur verið haft eftir Guðrúnu Þór-
hallsdóttur, dósent við HÍ, að ekki væri hægt að
gefa út íslenska orðabók „þar sem orð sem enda
á -maður væru eingöngu sögð vísa til karla“
(Fréttablaðið 12.5. 2021). Skoðanir eru þó jafn-
skiptar meðal málfræðinga og annarra, sem
virðast almennt andsnúnir opinberum af-
skiptum af málinu, þótt forsendurnar séu mis-
munandi. Vésteinn Ólason setti málið í sam-
hengi við persónulega máltilfinningu
(Facebook, opin færsla 16.5. 2021); Eiríkur
Rögnvaldsson hefur látið í veðri vaka að mál-
samfélagið muni leysa vandann af sjálfu sér
þegar fram líða stundir (blogg 13.5. 2021) og
Gísli Sigurðsson telur að tungumálinu verði
ekki breytt með valdboði (Mbl. 22.5. 2021).
En eins og forsætisráðherra benti á í ræðu-
stóli á Alþingi getur álitamálið sem Andrés Ingi
tók til umræðu á þinginu ekki snúist um annað
en „íslenskt lagamál og annan opinberan texta“
(18.11. 2020). Í framhaldi af því leyfi ég mér að
benda á að lagamál og opinber texti er umræðu-
efni sem hægt er að greina og ræða málefna-
lega, þó aðeins að því tilskildu að það sé skipu-
lega lagt fram. Um orðalag og hugtakanotkun í
lögum gildir hins vegar að því verður hvergi
breytt nema á Alþingi.
Rannsókn hugtaksins maður í lögum
Um nokkurt skeið hefur lögfræðihugtakið mað-
ur í íslenskum lögum verið hluti af réttarsögu-
rannsóknum mínum á heimildum sem varða
persónurétt og önnur undirstöðuréttindi Ís-
lendinga frá 13. öld til nútíma. Í þeim hef ég orð-
ið þess áskynja að engar rannsóknir hafa verið
gefnar út þar sem gerð er grein fyrir notkun
orðsins maður í lagamáli og tel ég mig geta full-
yrt að orðið sé vangreint í heild sinni.
Þær tvær orðabækur sem nákvæmastar eru
um orðið maður gefa upp 11 til 18 merkingar
(Orðabók Sigfúsar Blöndals og fornmáls-
orðabókin ONP: Dictionary of Old Norse
Prose). Þar er þó ekki allt talið því að hvorki
þessar orðabækur né aðrar skýra frá því að orð-
ið maður hefur frá fyrstu tíð verið til sem sér-
stætt lagahugtak og skírskotar þá alls ekki til
tegundarheitis sem skilgreint er í líffræði. Sú
ranghugmynd virðist einnig hafa verið við lýði
meðal fræðimanna að hugtakið hafi verið til en
horfið í nútímarétti. Til dæmis nefndi Jakob
Jóh. Smári árið 1920 að orðið maður hefði verið
til í fornu lagamáli („notað um einhvern óákveð-
inn mann“, Íslenzk setningafræði, endur-
prentuð hjá Málvísindastofnun HÍ árið 1987,
bls. 26). Rétt er þó að hugtakið lifir enn góðu lífi
í íslenskum lögum.
Maður í lagatexta og afleiður í
opinberu máli
Í núgildandi lögum skírskotar orðið maður bæði
til hugtaka í alþjóðlegum mannréttinda-
sáttmálum og í stjórnarskrá lýðveldisins. Þar er
það notað til þess að skilgreina grundvallarrétt-
indi Íslendinga og annarra sem hingað koma og
hér dvelja. Ætti að nægja að nefna að menn eru
kosningabærir samkvæmt stjórnarskrá en í
henni stendur til dæmis einnig: „Maður skal
aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn
krefur …“ og „Rétt eiga menn á að safnast sam-
an vopnlausir“. Í 65. grein stjórnarskrárinnar
er áréttað að með þessu sé átt við bæði (öll) kyn:
„Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hví-
vetna“. Að öðru leyti kemur kyn ekki við sögu í
stjórnarskránni.
Á meðan óumdeilt er að stjórnarskrárgreinar
á borð við þessar eigi jafnt við konur sem karla,
og jafnvel börn, verður að líta svo á að laga-
hugtakið maður geri ekki mannamun eftir kyni,
aldri, þjóðfélagsstöðu eða nokkurs annars. Í
lögum táknar orðið maður í senn sérhvern og
alla, en á alls ekki sérstaklega við fulltíða karl.
Þessi hugtakanotkun er órofin frá fyrstu tíð,
til dæmis þar sem segir í Grágás: „allir menn
skulu vera kristnir á landi hér“ (12. öld). Einnig
í Mannhelgi Jónsbókar (13. öld): „Ef maður
vegur mann, hvort sem karlmaður drepur konu
eða kona karlmann, þá fari útlægur.“ Enginn er
heldur hafður út undan í jafnaldra Jónsbókar,
kristinrétti hinum nýja: „Vér skulu trúa að
hvers manns líkamur sem í er kominn heiminn,
eða koma kann til dóma dags, þá skal upp rísa.“
Af þessu leiðir að orðið maður þýðir ekki
heldur karl þegar það er notað í opinberum
texta með vísun í lög um grundvallarréttindi.
Það er þrátt fyrir að orðið maður sé notað í
merkingunni karl jafnhliða hugtakinu maður,
eins og má til dæmis sjá í stóradómi (16. öld).
Tengsl milli manns, fólks og
manneskju
Til samanburðar benda athuganir mínar til þess
að orðið fólk skírskoti að jafnaði til hóps eða
fjölda sem er afmarkaður af umræðuefni hverju
sinni. Þannig kemur það til dæmis fyrir í stóra-
dómi, sem var sérstök löggjöf Danakonungs,
„fyrir allt fólk á Íslandi“. Orðið fólk getur aldrei
átt við einn, öfugt við orðið manneskja sem hef-
ur eigin merkingu og vísar ávallt til einstakra
manna, einnig þegar það er í fleirtölu. Hvorugt
orðið skilgreinir almenn réttindi og þau eru
bæði fátíð í lögum. Þess vegna leiða engin rök
að því að orðin fólk, manneskja og maður séu
orð sem ganga hvert í annars stað.
Ef athugað væri hvort fólk, manneskja og
maður séu samheiti í reynd er sennilegasta
svarið að maður geti ávallt komið í stað hinna
tveggja. Því er hins vegar ekki öfugt farið og
manneskja og fólk geta sjaldnast komið merk-
ingu orðsins maður fyllilega til skila, enda eru
þau tvö ekki heldur samheiti.
Vandi annars vegar, lausnir hins vegar
Komið er fram að hvorki er til útgefin rannsókn
á notkun orðsins maður í íslensku lagamáli né í
tungutaki hins opinbera. Þar af leiðandi eru
ekki til upplýsingar um hvort vandi skapist af
notkun orðins á þeim vettvangi. Rökstuddar til-
lögur um hvernig væri gagnlegast að leiðrétta
vanda, sem kann að vera fyrir hendi, hafa held-
ur ekki komið fram. Þá eru ekki til ýtarlegar
greiningar á orðum sem lagt er til að nota í stað
orðsins maður.
Af öllum ofangreindum ástæðum er ljóst að
ekki er grundvöllur fyrir ákvörðun málfars-
ráðunautar, ritstjóra og annarra ábyrgðaraðila
um afskiptaleysi þegar spurningin snýst um að
setja annað orð þar sem orðið maður hefur verið
notað um aldir.
Hér hefur verið bent á að notkun á orðinu
maður er ekki aðeins félagslegs eðlis og að hug-
takanotkun í löggjöf verður ekki byggð á máltil-
finningu einni saman. Í ljósi þess að orðið maður
kemur víða fyrir í gildandi lögum væri óhófleg-
ur vandi að halda því utan við nýja lagasetningu
og í opinberum textum. Þar er það einkar mik-
ilvægt hugtak sem á ríkan þátt í að útbúa flókið
en viðkvæmt samhengi þar sem persónurétt-
indi, borgararéttindi og mannréttindi verða til.
Því væri í besta falli fljótfærnislegt ef yfirvöld
beittu sér fyrir breytingum á notkun þessa und-
irstöðuhugtaks án ýtarlegrar athugunar og
skýrrar afstöðu til þess hver staðgengillinn gæti
orðið. Þvert á markmið gæti niðurstaðan orðið
ný útilokandi orðræða líkt og Höskuldur Þrá-
insson benti á að geti gerst þegar kyni fornafna
er breytt, sem og óþarfa áhersla á kyn, öfugt við
leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna.
Eðli málsins
Í stærra samhengi verður ekki litið fram hjá því
að formleg og óformleg ræða tengjast órofa
böndum. Ef opinber ákvörðun um breytingu á
lagamerkingu orðsins maður byggðist á einföld-
unum eins og þeirri að eiginleg merking sé full-
tíða karl, hvaða skilning ættu nýjar kynslóðir þá
að leggja í texta þar sem fullvíst er að orðið eigi
ekki við karlkynið eingöngu?
Hér er dæmi úr Guðmundarsögu þar sem
sjúkri konu var hjálpað:
„Heitið var á vora frú fyrir henni, og aðra
heilaga menn, og stóð hið sama hennar vagn-
megn þar til að tíguleg jungfrú birtist um nótt
konu þeirri, er mesta dyggð og manndóm sýndi
þeim aumingja. Frúin talar svo: Fallast yður
læknisdómar við hina sjúku? Hún svarar: Eigi
fáum vér á fundið hvað guð hefir henni til lækn-
ingar sett. Frúin svarar: Eigi sýnist mér þér
ráðleitin í þvílíku vandkvæði. Hún svarar
hversu munu vér syndugir menn slíkt með ráð-
um vinna …“
Hætt er við að breytingar á ofangreindum
forsendum væru til þess fallnar að breiða yfir
mikilvæg atriði í sögu kvenna og barna sem iðu-
lega eru umtalsefni þar sem orðið maður hefur
verið notað í textunum allt fram á þennan dag.
Þetta er í ritum sem almenningur les sér til
skemmtunar og fróðleiks og eru grundvöllur
rannsókna á sögu landsins og menningu.
Betri staða en ætla mætti
Hitt er svo annað mál að löggjafinn kemst varla
hjá því að huga að tryggingu fyrir því að lögin
geri ekki mannamun eftir kynferði eða öðru. Þá
er gott til þess að vita að sennilega er ekki eins
langt í land og margur hyggur því að lögin búa
yfir hlutlausu hugtaki.
Þótt orðið hafi málfræðilegt karlkyn er lík-
legt að besti kosturinn sé að maður verði áfram
undirstöðuhugtak um almenn réttindi og að Al-
þingi taki að öðru leyti ekki afstöðu í málinu. En
álitamálið er komið fram á sjónarsviðið og til
þess að fá góða og friðsamlega niðurstöðu þarf
að koma til skilningur og þekking, bæði innan
stjórnkerfisins og hjá almenningi.
Maður í ógöngum
„Í lögum táknar orðið maður í senn sérhvern og alla, en á alls ekki sérstaklega við fulltíða karl .“
Morgunblaðið/Eggert
Tilraunir til að kalla fram kynhlutleysi í ræðu og riti beinast meðal annars að því að ýta orðinu maður til hliðar á þeirri
forsendu að með notkun þess sé sérstaklega skírskotað til karla. Lára Magnúsardóttir dr. phil. telur að með þessu sé
rangur skilningur lagður í merkingu orðsins og varar við því að ratað yrði í ógöngur ef hróflað yrði við notkun þess.
’
Því væri í besta falli fljót-
færnislegt ef yfirvöld beittu
sér fyrir breytingum á notkun
þessa undirstöðuhugtaks án
ýtarlegrar athugunar og skýrrar
afstöðu til þess hver staðgengill-
inn gæti orðið.
Höfundur er sagnfræðingur.
ÍSLENSKT MÁL
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.7. 2021