Strandapósturinn - 01.06.1975, Page 14
og nú bjargaði það lífi eins þeirra, sem rann til á jakabrún er
hann stökk og féll niður á milli jakanna, að félagar hans gátu
dregið hann upp á vaðnum. Þeir komust allir heilir að landi
aftur. Nú var ekkert hægt að gera til bjargar bát og skipi, ísinn
lá þéttur yfir allt, hvergi vök eða rennu að sjá.
Skipshöfnin beið átekta á Eyjum, tilbúin að leggja lífið í
hættu til bjargar skipi og bát. Þann 27. apríl sjá menn að
mikið rek kemur á ísinn út flóann, en ekkert var hægt að gera
og hurfu þar með skip og bátur að fullu og öllu. „Og þó.“ Það
voru þungbúnir menn, er héldu heimleiðis frá Eyjum þennan
apríldag. Þann 23. maí rak íshroða aftur inn á flóann, en ekki
voru skipin sjáanleg, þó vel væri svipast um eftir þeim.
Síðla þetta sama vor leggur bátur úr lendingu á Hrófbergi.
Þar er á ferð Stefán bóndi og er ferðinni heitið norður að
Eyjum og skyldi báturinn, sem var fjögurra manna far, vera
greiðsla til Loftar bónda fyrir bátinn, sem hann lánaði og fór
með ísnum. Ekki er ólíklegt að Stefáni bónda hafi verið þungt
í sinni er hann hóf þessa ferð, nokkrum vikum áður átti hann
hákarlaskip og útróðrabát, en nú, er hann hefði afhent bátinn,
átti hann enga fleytu.
Á Hafnarhólmi við Steingrímsfjörð átti Stefán góða vini,
hann lenti þar og fór heim til bæjar, þar sem honum var vel
tekið og boðið til baðstofu að þiggja góðgerðir. Menn tóku tal
saman og bárust umræður fljótlega að skipamissi Stefáns. Er
menn höfðu rætt það nokkra stund kom húsfreyja inn með
hressingu handa gestunum. Hún hlýðir á umræðurnar nokkra
stund, en gengur þvínæst til Stefáns og segir: „Ég held þú
ættir ekki að fara lengra með bátinn þinn Stefán minn, það
verður ekki langt þar til þú fréttir af skipunum, sem fóru með
ísnum, það er búið að bjarga þeim báðum óskemmdum.“ Allir
viðstaddir horfðu undrandi á húsfreyjuna. Að lokum spyr
Stefán. „Hvað áttu við, hvernig veist þú það?“ „Jú Stefán
minn, ég veit það og það var allur farviður og öll veiðarfæri í
skipinu nema legustjórinn, hvernig sem stendur á því, að
hann vantar í skipið.“ Stefán var mjög hugsandi og þegir
langa stund þar til hann segir: „Þetta er undarlegt, ég man
12