Strandapósturinn - 01.06.1975, Blaðsíða 120
mamma fór inn um lágar dyr. „Þau muna ekki að nú sé ég,“
sagði mamma. Svo fóru þau út að Bæ að heilsa frændum og
vinum, en áður var drukkið hátíðakaffi með pönnukökum og
jólaköku, og þótti okkur það veizla í þá daga.
Litlu síðar kom séra Páll af þingi og messaði á báðum
kirkjunum sama daginn, fyrst á Stað og svo á Prestbakka. Þá
fóru foreldrar mínir til kirkju með sumt af yngstu börnunum.
Það voru mikil viðbrigði að sjá mömmu ganga rösklega að því
að ferðbúa sjálfa sig og aðra. Eg man, þegar hún var að fara á
bak, nú þurfti ekki að hjálpa henni og leiða hana að hestinum.
Þegar mamma kom að sunnan, mættu þau á Borðeyri séra
Þorvaldi á Melstað og konu hans. Þau voru að fara með Böðvar
son sinn, þá barn að aldri, tii lækninga vestur að Hvammsdal
til Magnúsar Guðlaugssonar hómópata. I þeirri ferð komu þau
að Skarði á Skarðsströnd. Þar var séra Jónas Guðmundsson,
áður á Staðarhrauni, og var þá orðinn blindur. Þau sögðu þar
fréttirnar af mömmu, var þá brugðið við og farið með séra
Jónas suður á Akranes og fékk hann fulla sjón.
Nokkrum misserum síðar hitti séra Þorvaldur mömmu og
sagði þá við hana. ,,Þér voruð einu sinni veðurspáin mín.
Þegar þér komuð af Akranesi og við hittumst á Borðeyri, þá
var ég þar með Böðvar minn dauðvona. Þegar Finnur kom
þarna á móti mér sigri hrósandi, þá hugsaði ég, að þetta skyldi
ég hafa til marks, að mín ferð myndi einnig ganga farsællega,
og það rættist.“
Föður mínum leiddist, að mamma gat ekkert lesið, batt
hann þá saman tvenn gleraugu og gat hún þá lesið, en þessa
þurfti ekki lengi með, því um haustið komu gleraugu frá
lækninum, tvenn mjög sterk gleraugu, önnur til að ganga með
daglega, en hin til að lesa með og vinna í höndum. Einnig
þetta var hátíðisdagur. Gleraugun voru í svörtum pappahús-
um með gylltri stjörnu. Síðan þykja mér þau gleraugnahús
fallegust.
Faðir minn skrifaði nú grein í Isafold með fyrir sögninni.
„Fáheyrð læknishjálp.“ Tveimur árum síðar kom einnig í
ísafold kvæði til Björns Olafssonar læknis eftir Benedikt
Gröndal, þar eru þessar línur.
118