Strandapósturinn - 01.06.1975, Blaðsíða 32
ég sá vel norður á fjöllin mín og sýndist mér þau vera býsna
grá, far á skýjum og éljaleiðingar. Eg hélt áfram það sem ég
gat og hugsaði, að ég skyldi vera komin sem lengst á fjallið
áður en fyrsta élið kæmi, því þá bjóst ég við að myndi verða
launhált niður hálsinn, eins og fjallið var vanalega nefnt, en á
miðjan hálsinn var ég komin, þegar dimmdi í kring um mig
og hringurinn þrengdist mjög ótt og hvessti um leið. Ég bjóst
við éli áður en hann væri fullharðnaður en svo varð ekki, því
veðrið versnaði mjög fljótt og dimmdi svo sorti varð. Ég sá á
tær mér og stundum á miðja leggi og enn í dag, eftir 50 ár, lofa
ég guð að hann hélt hendi sinni yfir mér, því ekki hefði ég
þurft meira en að verða hrædd til að æða út í dauðann. Ég var
kunnug þessari leið, vissi hvar ég átti að stíga niður fæti, hafði
allan hugann við að fara rétt eins og ég gat best hugsað mér,
enda var ég svo heppin að hnjóta um harðspora þó að ekki sæi
ég nema niður á leggina, en nú kom babb í bátinn, nú fóru að
þyngjast pilsin mín, því þá var ekki siður að vera í buxum
ystum fata, en ekki mátti ég deyja ráðalaus og til hvers hafði
ég hníf og snæri? Nú kom hvoru tveggja að góðu, ég reyndi að
hrista mesta snjóinn af pilsinu, braut það upp og batt snæri
utan um mig. Ég var vel búin eins og ég gat um áður, í
tvennum ullarsokkum og ytri buxur mínar voru úr þykkum
lasting með teygju ofan og neðan, í skálmunum var líka teygja
er náði vel sokkum. Allt gekk vel þó ekki sæist glóra, og svo
leið að því, að ég fann að hallaði norður af. Þá var að passa sig
að fara ekki fram af einhverjum hjalianum, en vanalega voru
sund á milli hjallanna, sem farið var niður, og nú vissi ég að ég
varð að gæta þess að hrekjast ekki of mikið upp á hægri hönd,
því þar tók við víðátta mikil, en til vinstri var Bjarnarfjarðará
og bakkar að henni. Við hana var ég þó ekki hrædd, en eftir
bökkum hennar var nauðsynlegt að fara, því þar stóð bærinn
Bakki, og kæmist ég þangað var mér borgið og satt best sagt
var ég komin að Bakka áður en ég vissi af og gerði vart við mig
þar.
Konan á bænum, Júlíana Guðmundsdóttir, kom til dyra.
Ekki þekkti hún mig blessunin fyrr en hún var búin að taka af
mér sjalið. Þá bað hún guð að hjálpa sér, hvort ég kæmi af
30