Strandapósturinn - 01.06.1975, Page 75
Það þótti gott að ná til kunnugra manna þarna í nágrenni
prestssetursins til þessa starfa, svo að grafir væru tilbúnar á
jarðarfarardag. Þær voru því um það er lauk og ég flutti í
burtu, orðnar allmargar þessar grafartökur mínar þarna í
garðinum. Ég var þá líka orðinn þar allkunnugur og þekkti
þar flestar þúfurnar (þ.e. leiðin) og var það að sjálfsögðu
margt fyrir ábendingar frá frænda mínum, sem mest vann
með mér við grafartökurnar allt þar til að hann lést árið 1940,
en hann hafði fylgst þarna með greftrunum frá því fyrir
aldamót og honum var sagt nokkuð á yngri árum um legstaði í
garðinum, en flest leiði voru þá ómerkt. Nú er margt af þessu
gleymt, enda hef ég vart komið þar síðan ég flutti burt árið
1943. Mér leið vel þarna í garðinum og okkur frændum
báðum, þeir framliðnu voru okkur vinsamlegir og við reynd-
um ætíð að sýna þeim virðingu og vinsemd. Þarna kom oft
allmikið upp af beinum, við söfnuðum þeim ætíð vel saman og
létum þau vel og snyrtilega niður aftur.
Ég hef aldrei séð neitt eða orðið neins þess var, sem
dularfullt má kallast nema þetta eina sinn, sem hér er áður
sagt frá. Mér hefur hinsvegar oft fundist eitthvað ósýnilegt í
nálægð minni og mér hefur meira en fundist það, áhrifin hafa
verið greinileg og oft ærið misjöfn. Því tel ég nokkra vissu fyrir
því að við mannanna börn erum ekki ein á ferð hér í þessum
heimi, þar er fleira á ferð, sem okkur er dulið. Þessi duldu öfl
eru oft að verki og geta valdið okkur ýmsum óþægindum í lífi
og starfi, en þau veita okkur líka traust, trú og huggun á
erfiðleikastundum okkar.
Élest eigum við líklega vitneskju eða hluti (ef ég má orða
það svo), sem við ein viljum eiga og ekki deila með öðrum. Við
viljum fara með það með okkur að ferðalokum hér, af því að
það er tengt því, sem við teljum merkast og helgast í lífssögu
okkar. Einhversstaðar er sagt að „það sé yfir oss vakað,“ bæði
þessa heims og annars. En er þá, þegar allt kemur til alls, þessi
heimur ekki bara einn? Einhversstaðar segir að í húsi drottins
séu margar vistarverur, er það þá ekki aðgreiningin á því, sem
við köllum þessa heims og annars, eða dáinn mann og lifandi?
73