Strandapósturinn - 01.06.1975, Side 121
„Og móðurinni barnahópur hvarf
og hljómurinn var hennar eina gleði“
o.s.frv.
Það sagði mamma, að hún hefði misst minni eftir að hún
fékk sjónina, áður hafði hún óbrigðult stálminni, en nú kom
svo ótal margt nýtt til að muna.
Eitt kvöld var mamma frammi í búri eitthvað að gera og
var í myrkrinu, ein systranna kom þá til hennar. „Því
kveikirðu ekki?“ sagði hún. „Æ, ég mundi ekkert eftir því,“
sagði hún, hún var svo vön að vinna í myrkrinu, en þá kveikti
hún strax.
Mér var minnisstæðast hversu allir samglöddust mömmu af
heilum hug. Gamall maður kom og var að heilsa henni og
bætti við. „og ég óska þér-----ég óska þér-------gleðilegrar
hátíðar.“ Hann var góðglaður, en þarna fylgdi hugur máli, þó
honum vefðist tunga um tönn, en orð hans áttu þó vel við.
Það var sumarið eftir, 1892, að mamma fór einn morgun
suður að læk í glaðasólskini. Þegar hún kom inn aftur, þá sagði
hún. „Nú sá ég sama bláa litinn, sem ég sá, þegar augun voru
skorin upp, það var í daggardropa suður við læk.“
Sextán árum síðar, sumarið 1907, fóru foreldrar mínir með
„Vestu“ frá Borðeyri til Reykjavíkur. Samskipa þeim var Jón
blindi frá Mýlaugsstöðum, einnig voru margir þingmenn með
skipinu, voru þeir Norðlendingarnir oft að koma til Jóns og
vita hvernig honum liði. Einu sinni voru þau að drekka kaffi
og buðu Jóni með sér og var mamma að hjálpa honum. Þá
sagði Jón. „Það er einkennilegt með þessa konu, það er eins og
hún viti allt, sem ég hugsa.“ „Það er ekki einkennilegt,“ sagði
faðir minn, „því sjálf hefur hún verið blind í mörg ár.“ Rétt í
þessum svifum koma þeir inn Jón í Múla og Karl Finnboga-
son. „Nú, þú ert ekki einn í ráðum, karl,“ sögðu þeir. „Nei,“
sagði Jón, „en það er annað, ég hef hitt hér konu, sem hjálpar
mér af svo mikilli nákvæmni, að það er eins og hún viti allar
mínar hugsanir, en mér er líka sagt, að hún hafi verið blind í
mörg ár. Þetta er það einkennilegasta, sem fyrir mig hefur
komið.“ „Það er þó ekki sú, sem kvæðið var um,“ sagði Karl
Finnbogason. „Jú, það er hún.“
119