Morgunblaðið - 14.08.2021, Blaðsíða 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. ÁGÚST 2021
Eftir Líney Sigurðardóttur
Þórshöfn
Á
býlinu Holti í Þistil-
firði er Grásteinn guest-
house en þar búa hjónin
Hildur Stefánsdóttir og
Sigurður Þór Guðmundsson ásamt
börnum sínum. Þau hafa síðustu
árin byggt þar markvisst upp
ferðaþjónustu, jafnframt því að
vera með stórt sauðfjárbú. „Sum-
arið hefur verið einstaklega gott
að öllu leyti, nóg að gera í ferða-
þjónustunni og ekki spillir veðrið,
sem hefur leikið við okkur í sum-
ar,“ sagði húsfrúin Hildur.
Meirihluti ferðafólksins sem
komið hefur í sumar í Holti eru
Íslendingar. Hildur og Sigurður
eru nú með gistirými fyrir sautján
manns en auk þess er eldhús og
veislusalur fyrir allt að 30 manns.
„Við höfum verið að byggja
upp hjá okkur smám saman og
bæta við gistirýmum. Hlaða, súr-
heysturn og fjós hafa nú fengið
nýtt hlutverk eftir miklar breyt-
ingar. Við reynum að skapa okkar
eigin stíl með því að blanda gömlu
og nýju. Í hverju herbergi höfum
við gamla hluti eða húsgögn frá
búskapartíð forfeðranna,“ sagði
Hildur hress í bragði. „Rúmin eru
þó ný og fín enda erum við að
selja svefn, frið og ró.“
Flest er heimaunnið
Herbergin bera nöfn sem
tengjast fyrri tíma, svo sem Hlað-
an, Loftið, Fjósið og Skemman og
barinn er í súrheysturninum. Á
Grásteini eru einnig tvö smáhýsi,
Hornahóll og Litla-Brekka sem
eru vel útbúin með eldhúsi, stofu-
horni og baðherbergi en rými er
fyrir þrjá í hvoru húsi.
„Við hjónin vinnum út frá
þeirri hugmyndafræði að hafa sem
flest heimagert og heimaunnið og
reynum það eins og tími vinnst
til,“ sagði Hildur. Morgunverð-
urinn ber þessa vitni, heimagerðar
sultur og brauð en grænmeti og
ber ræktar Hildur í gróðurhúsinu
við bæinn.
„Ég næ þó ekki að rækta nóg
fyrir þetta allt en það er gaman að
geta boðið upp á nýtínd hindber
og kirsuber með morgunmatnum,
við veljum líka ávallt íslenskar
vörur frekar en innfluttar, svo
sem sápur í baðherbergin, rúmföt
og fleira.“
Sér baðherbergi fylgir öllum
gistirýmum á Grásteini og bera
herbergin vitni um frumleika og
handlagni hjónanna Hildar og Sig-
urðar, en hann er menntaður
smiður, auk búfræðinámsins.
„Við reynum að gera sem
flest sjálf og nýta það efni sem er
næst okkur, Siggi hefur t.d. smíð-
að rennihurðir fyrir baðherbergin
og flest sem mér dettur í hug að
láta búa til, hann getur nefnilega
allt,“ sagði Hildur sposk.
Fá alltaf nýjar hugmyndir
Hún tók þá ákvörðun í vetur
að helga sig búinu heima ásamt
ferðaþjónustunni og hætta annarri
vinnu. Hildur er menntaður lands-
lagsarkitekt og kennari og hefur
síðustu ár kennt við Grunnskólann
á Þórshöfn. „Ferðaþjónustan hér
hefur gengið vel og við erum alsæl
með frábærar umsagnir á bók-
unarsíðum. Fólkið hér heima í
byggðarlaginu hefur líka tekið
okkur vel og sótt þá viðburði sem
við höfum boðið upp á hér, til
dæmis morgunverðarhlaðborð,
jólahlaðborð og svo veislusalurinn
okkar sem hefur verið nýttur í
ýmis einkasamkvæmi.“
Hildur segir enn fremur að
þau hjónin séu með ýmsar hug-
myndir í kollinum en næsta sumar
hyggjast þau bjóða upp á göngu-
ferðir inn í heiði. Í sumar var slík
ganga einmitt prufukeyrð með
góðum hópi, þar sem gist var tvær
nætur í heiðadýrðinni í blíðskapar-
veðri.
Hildur og Sigurður sjá í sam-
einingu um allt sem snýr að búinu
og ferðaþjónustunni. „Hann er lið-
tækur við að skipta um rúmföt og
baka brauð meðan ég sé um bók-
anir og reikningshald eða bregð
mér í sjósundið,“ segir Hildur
hlæjandi. Fallegt er við ströndina
í landareign hjónanna og gaman
að fara þar í sjósund, í svonefndri
Dalsfjöru en þar fór til dæmis
kvennahópur í Jónsmessusund
sumarsins.
Þessi samhentu hjón, Hildur
og Sigurður, hafa á jörðinni sinni
byggt upp fallega og notalega
ferðaþjónustu í hjarta Þistilfjarðar
og er almenn ánægja gesta með
dvölina og þá hlýju sem fylgir
gestgjöfunum á Grásteini.
Bjóða væran svefn á skemmuloftinu
Sveitasæla. Súrheysturni
var breytt í bar. Fjós og
hlaða eru nú hlýleg her-
bergi ferðafólks. Listfengi
og ljúft líf á Grásteini í
Holti í Þistilfirði.
Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Velkomin Gestgjafinn á Grásteini, Hildur Stefánsdóttir, stendur vaktina.
Rúmgott Veislusalurinn á neðri hæð er bjartur og hlýlegur. Nýtni Gamli smíðabekkurinn sómir sér vel í anddyrinu. Gisting Á lofti skemmunnar er nú herbergi með lokrekkjum.
Þistilfjörður Íslendingar hafa verið mikið á ferðinni í sumar á norðaustur-
horni landsins og býðst þá góð aðstaða, og í raun og veru sæludvöl, á Holti.
ÚRVAL
ÚTILJÓSA
www.rafkaup.is