Morgunblaðið - 23.11.2021, Qupperneq 5
Opið bréf nr. þrjú til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Grein heilbrigðisráðherra, „Mikilvægi bólusetninga“, sem birt var í Morgunblaðinu
9. nóvember sl. vekur upp margar spurningar sem nauðsynlegt er að ráðherra svari. Um er að
ræða málefni sem snýr ekki aðeins að lýðheilsu heldur einnig að borgaralegu frelsi og almennum
mannréttindum. Meðal þess sem vekur spurningar eru vísbendingar um að íslensk stjórnvöld hafi
valið óskilvirkari leiðir en önnur ríki sem virðast vera á betri vegferð, sbr. m.a. Japan.
Síðasta bylgja smita í Japan náði hátindi 22. ágúst sl. en þá voru ný smit 26.184 talsins.
Ný smit þar í landi 21. nóvember sl. voru 99,5% lægri en þegar mest lét
í ágúst á þessu ári eða 112 skv. www.worldometers.info
Í Japan búa tæplega 126 milljónir manna. Ef þetta er borið saman við Ísland samsvarar þetta því
að einn myndi greinast á Íslandi þriðja hvern dag. Þess skal getið að Japan er ekki eina dæmið um
ríki sem hefur náð góðum árangri að þessu leyti undanfarna mánuði.
Stjórnvöldum ber að leggja heildarmat á þær aðgerðir sem þau standa fyrir, þ.m.t. áhættu,
kostnað og ábata. Á þessum forsendum er þess óskað að heilbrigðisráðherra veiti skilmerkileg
svör við eftirfarandi spurningum:
1. Ef markmiðið er að bæta heilsu fólks og þekktar aðferðir annara ríkja eru kunnar,
hvers vegna hefur þeim ekki verið beitt hérlendis?
2. Ef markmiðið er að bæta heilsu fólks, hvers vegna hvetja heilbrigðisyfirvöld ekki fólk til
að taka lýsi og tiltekin vítamín daglega?
3. Ef markmiðið er að bæta heilsu fólks, hvers vegna eru yfirvöld ekki að beita sömu aðferðum
og Japanir og önnur ríki sem náð hafa bestum árangri gegn SARS-COV 2 undanfarna mánuði?
4. Ef markmiðið er bætt heilsa fólks, hvers vegna hafa heilbrigðisyfirvöld lagt alla áherslu
á að „bóluefnin“ séu töfralausnin gegn SARS-COV 2, í stað þess að prófa notkun lyfja og
vítamína sem virka vel erlendis og gætu gert gæfumuninn í baráttunni gegn SARS-COV 2?
5. Hvers vegna eru þær rannsóknir og þau vísindi sem frelsisskerðingar yfirvalda byggja á
ekki birtar á vef heilbrigðisráðuneytisins eða á www.covid.is? Farið er fram á að allar
upplýsingar verði birtar þar um þær vísindalegu forsendur sem yfirvöld byggja aðgerðir sínar á,
ásamt viðeigandi tilvísunum til þeirra reglna sem settar hafa verið.
6. Samkvæmt frétt 11. nóvember sl. halda yfirvöld því fram að 27 einstaklingar hafi fengið
SARS-COV 2 oftar en einu sinni hér á landi. Ef rétt reynist væri hér um heimsviðburð að ræða á
sviði vísinda. Óskað er eftir að ráðuneytið staðfesti réttmæti þessara frétta, en leiðrétti þær ella
sem fals-fréttir.
7. Birtar hafa verið upplýsingar á www.covid.is um hlutfall innlagna á sjúkrahús,
„fullbólusettra“ og „ekki-bólusettra“ einstaklinga, hlutfall „fullbólusettra“ mun samkvæmt því
vera 65%. Inniliggjandi sjúklingar eru um 1.4% af heildarfjölda PCR jákvæðra. Hve margir PCR
jákvæðra einstaklinga hafa verið veikir á hverjum tíma og hve margir einkennalausir? Getur
ráðuneytið upplýst hlutfall veikra af þeim sem hafa mælst með jákvætt PCR próf?
Með hliðsjón af þeim miklu almannahagsmunum sem í húfi eru væntum við þess að
ráðherra víki sér ekki undan því að bregðast skjótt við með skýrum svörum. Við væntum þess
að sjálfsögðu að svör ráðherra verði studd tilvísunum í vísindalegar rannsóknir og gögn.
Virðingarfyllst,
VIÐVILJUM SVÖR
SAMTÖKIN FRELSI OG ÁBYRGÐ