Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.12.2021, Blaðsíða 12
BÆKUR
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19.12. 2021
Þ
að er ekki á hverjum degi sem
maður tekur upp tólið, velur
númer og ber upp eftirfarandi
erindi: Ég hringi út af framtíð
mannkyns! Það gerðist þó hjá
mér fyrir helgina. „Já, ég hef áhyggjur af
henni líka,“ segir Gunnlaugur Björnsson,
rannsóknarprófessor í stjarneðlisfræði við
Raunvísindastofnum Háskóla Íslands, á hin-
um enda línunnar. Síðan
biður hann um gálgafrest
enda á leið í jólaklipp-
inguna; menn ræða ekki slík
grundvallarmál óklipptir.
Gunnlaugur er einn
þriggja þýðenda bókarinnar
Framtíð mannkyns eftir
bandaríska vísindamanninn
Michiu Kaku sem komin er
út hjá Uglu. Hinir eru Bald-
ur Arnarson blaðamaður og
Sævar Helgi Bragason,
jarðfræðingur og sjónvarps-
maður. Bókin, sem kom út á
frummálinu árið 2018, hefur
hlotið mikið lof og The Wall
Street Journal segir hana
skrifaða af smitandi eldmóði
og The New York Times
Book Review talar um að hún sé í senn hríf-
andi og æsispennandi. „Kaku sýnir les-
endum þá vitneskju sem nútímavísindi búa
yfir og til hvers sú þekking kann hugsanlega
að leiða í framtíðinni,“ segir í umsögn síð-
arnefnda blaðsins.
Sjálfur kemst Kaku svo að orði í bókinni:
„Með því að horfa yfir sviðið gætum við val-
ið ungan alheim sem býður upp á ný heim-
kynni. Við myndum velja alheim með stöð-
ugt efni, eins og atóm, sem er nógu ungur
til að stjörnur geti myndað ný sólkerfi og
kveikt líf. Því gæti hin fjarlæga framtíð, í
stað þess að vera endastöð fyrir vitiborið líf,
boðið upp á ný heimkynni. Þá lýkur sögunni
ekki með endalokum alheimsins.“
Það blasir því við að spyrja Gunnlaug
fyrst, hvort við séum á leið út í geim?
„Það fer eftir því hvern þú spyrð,“ svarar
hann hlæjandi. „Sumir eru sannfærðir um
að það sé eina leiðin til að bjarga mannkyn-
inu, að færa sig milli hnatta í sólkerfinu,
meðan aðrir telja of flókið mál að halda fólki
á lífi við aðstæður sem eru okkur framandi.
Og spyrja: „Er það þess virði að reyna?“
Eins og við vitum þá er mannkynið við-
kvæmt fyrir áreiti og hnjaski. Þá svarar
hinn hópurinn: „Það skiptir ekki máli ef
þetta er eina hugsanlega leiðin til að bjarga
mannkyninu.“ Við höfum með öðrum orðum
engu að tapa.“
Kaku heldur því fram í bókinni að mann-
kynið geti þróað sjálfbæra siðmenningu í
geimnum en til að svo megi verða þurfi
maðurinn að laga sig að breyttum aðstæðum
og jafnvel eftirláta háþróuðum þjörkum að
finna ný heimkynni. Sem kunnugt er hafa
stórveldi jafnt sem auðjöfrar þegar sett
stefnuna á Mars.
„Það er í undirbúningi,“ segir Gunn-
laugur, „þó það verði ekki alveg á næstunni;
nema menn ætli bara að fara aðra leiðina.
Það getur verið erfitt að finna fólk í svoleið-
is ævintýri.“
Að dómi Gunnlaugs er raunhæfara að
gera tunglið að áfangastað á leiðinni, það er
bækistöð, þaðan sem lagt yrði upp í geim-
ferðir til Mars og jafnvel víðar. „Kaku sér
fyrir sér að menn byggi upp mannaða bæki-
stöð á löngum tíma á tunglinu og þaðan
yrðu geimferðirnar síðan stundaðar. Lang-
tímamarkmiðið í augnablikinu er Mars sem
er raunhæft vegna þeirra miklu tækni-
framfara sem orðið hafa á ekki svo löngum
tíma. Þetta hefði þótt óhugsandi fyrir tutt-
ugu árum eða svo. Aðrar eins breytingar
geta auðveldlega átt sér stað á næstu tíu til
tuttugu árum en lykilatriðið í þessu öllu
saman verður hér eftir sem hingað til áhætt-
an.“
– En þetta færist stöðugt nær?
„Heldur betur. Það sjáum við til dæmis á
frumkvæði auðkýfinga á borð við Elon Musk
og Jeff Bezos,“ segir Gunnlaugur en fyrir-
tæki þess fyrrnefnda, SpaceX, var beinlínis
stofnað til að byggja upp nýlendu á Mars.
„Þeir hafa raunar ekki enn sent menn alla
leið út í geim en klárlega skotið þeim upp í
rjáfur.“
Fjárhagslega viðráðanlegra
Vegna endurnýtingar geimflauga SpaceX er
orðið miklu ódýrara að fljúga út í geim, auk
þess sem menn eru reynslunni ríkari eftir
hvert og eitt verkefni. „Fjárhagslega er
þetta að verða viðráðanlegra, sem skiptir
auðvitað miklu máli,“ segir Gunnlaugur, „og
menn þess vegna farnir að tala um ennþá
lengri vegalengdir í þessu sambandi. Það
eru djúpar og skemmtilegar pælingar en
varla raunhæfar enn sem komið er. En eins
og ég gat um áðan eru menn fljótir að finna
nýjar leiðir – og núna þegar búið er að kort-
leggja yfirborð jarðar þá vilja menn auðvit-
að hugsa stærra og lengra. Nema nýjar
lendur.“
Hann segir enga tilviljun að Mars sé í
brennipunkti í umræðunni enda séu að-
stæður þar líkastar því sem við þekkjum á
jörðinni, að tunglinu meðtöldu. „Þar er vatn
sem auðvitað er nauðsynlegt til að líf þrífist.
Loftþrýstingur er að vísu lægri en eins og
við þekkjum hefur mannskepnan mikla að-
lögunarhæfni og myndi ábyggilega ráða
fram úr því með tíð og tíma. Þetta yrði þó
vitaskuld meira mál en að flytja milli bæjar-
hluta eða bæja.“
Það er heldur ekki eins og geimbrölt sé
bara geimbrölt. „Heilmargt sem kemur út
úr þessum rannsóknum og tilraunum mun
koma að gagni hérna niðri á jörðinni,“ segir
Gunnlaugur.
Hann er ekki hissa á vinsældum bók-
arinnar enda innihaldi hún mjög skemmti-
legar og vel ígrundaðar pælingar. „Kaku er
þarna að velta fyrir sér allskonar mögu-
leikum og tekst mjög vel að setja fram hug-
myndir sínar um það hvernig mannkynið
komi til með að þróast, bæði á jörðinni, í
sólkerfinu og jafnvel utan þess. Við vinnu
sína ræddi hann við ógrynni sérfræðinga á
ýmsum sviðum og tekur tillit til allra mögu-
legra þátta, þannig að þetta er ekki allt frá
honum sjálfum komið. Sjálfur er hann
þekktastur fyrir rannsóknir sínar í strengja-
fræði og nýtir sinn bakgrunn vel í þessum
vangaveltum öllum. Bók Kakus er mjög gott
innlegg í umræðuna um framtíð mannkyns
og örlög okkar í alheiminum.“
Gunnlaugur bendir á að Kaku sé alls ekki
fyrsti vísindamaðurinn til að viðra hug-
myndir af þessu tagi en sumt af því sé þó
hrein og ómenguð óskhyggja. Annað byggist
á þekkingu og rökum, þannig hélt Stephen
Hawking því til dæmis lengi fram að framtíð
mannkyns væri utan jarðar. „Nefna má
fleiri menn í því sambandi en Kaku gengur
þó skrefinu lengra, að mínu mati, og dregur
upp mjög heillega og trúverðuga mynd af
framtíð mannkyns, ekki síst til lengri tíma
litið.“
Hann segir Kaku raunar þegar hafa
reynst sannspáan en sumt af því sem hann
hafi rætt um í bókinni, sem kom út 2018,
hafi þegar gengið eftir, eins og tilraunir
SpaceX.
Engir Jónasar
Baldur og Sævar ætluðu upphaflega að
skipta þýðingunni á milli sín en sá síð-
arnefndi varð snemma að segja sig frá verk-
inu vegna anna. Baldur grófþýddi því af-
ganginn áður en Gunnlaugur tók við
textanum og skoðaði hann með gleraugum
fræðimannsins. „Þó bókin sé skrifuð á auð-
skiljanlegu máli og fyrir almenning þá eru
þarna tæknileg atriði sem huga þurfti að,
auk þess að passa upp á villur og meinlokur.
Það þarf engan bakgrunn í vísindum til að
lesa þessa bók og ég er ekki í vafa um að
hún á eftir að höfða til allra sem hafa áhuga
á framtíð mannkyns og mögulegum til-
færslum í sólkerfinu.“
Ekki hefur mikið verið skrifað um þessi
mál á íslensku og fyrir vikið er nokkuð um
nýyrði í bókinni enda þótt Gunnlaugur biðj-
ist auðmjúklega undan samanburði við Jón-
as Hallgrímsson í því sambandi. Að ein-
hverju leyti var líka stuðst við orðaskrá
Stjarnvísindafélags Íslands frá tíunda ára-
tugnum.
Gunnlaugur segir þetta hafa verið mikla
vinnu en skemmtilega. „Ég hafði mikla
ánægju af þessu verkefni og vona að líflegar
umræður spinnist um bókina, þegar fólk
verður búið að lesa hana.“
Er framtíð mannkyns utan jarðar?
Í haust fengu sex geimfarar frá Evrópu og Ísrael það verkefni að einangra sig frá heiminum í heilan mánuð og máttu aðeins fara úr húsi í geimbúningum
eins og þeir væru staddir á Mars. Þangað sem mannkynið stefnir, ef marka má hugmyndir Michius Kakus og fleiri áhugamanna um framtíð manmkyns.
AFP
Gunnlaugur
Björnsson
Michiu Kaku
Bókin Framtíð mannkyns eftir
bandaríska vísindamanninn
Michiu Kaku er komin út í ís-
lenskri þýðingu. Gunnlaugur
Björnsson, einn þýðenda, seg-
ir höfundinn færa sterk rök
fyrir tilfærslu mannkyns út í
geim þegar fram í sækir.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
’
Sumir eru sannfærðir um
að það sé eina leiðin til að
bjarga mannkyninu, að færa sig
milli hnatta í sólkerfinu, meðan
aðrir telja of flókið mál að
halda fólki á lífi við aðstæður
sem eru okkur framandi.