Strandapósturinn - 01.06.2018, Side 40
38
Þegar hér er komið sögu hafa afi og amma hætt búskap og gef-
ið hann eftir til Jóns og Alferðs, sem nýta jörðina í sína þágu. Afi
á jörðina og þiggur afgjald af henni með því að hafa fáeinar ær á
fóðrum hjá hvorum bónda.
Gamli tíminn með öllum sínum boðum og bönnum er að
hverfa, vistarbandið hefur trosnað upp og vinnufólk orðið sjálfrátt
gerða sinna, það ræður sig til starfa og þiggur laun fyrir vinnu
sína. Engu að síður var vinnumennskan illa launuð og alls ekki
framtíðarstarf þegar stofnun fjölskyldu var í undirbúningi. Því var
nauðsynlegt að leita annarra leiða, þrátt fyrir að kostirnir væru
ekki margir í kreppunni 1938. Ekki var fýsilegt að sækja í atvinnu-
leysið í bæjunum fyrir mann, sem hafði ekkert að bjóða annað en
eigin líkama, og jafnvel þótt eitthvert atvinnubótaskrap fengist
var það bæði stopult, ótryggt og launin svo lág að engan veginn
nægði til að framfleyta fjölskyldu. Sómasamlegt húsnæði í kaup-
stöðunum var vandfundið og það litla sem í boði var oftast bæði
dýrt og lélegt.
Hér er rétt að minna á að bæði mamma og pabbi komu frá
efnamiklum heimilum, og úr góðum og reisulegum húsakynn-
um, þannig að það litla sem var í boði í þeim efnum í þéttbýlinu
höfðaði ekki til fólks, sem var betra vant. Eflaust hafa málin verið
rædd fram og aftur veturinn 1938 og sumarið á eftir, ýmsum
möguleikum velt upp hvað eftir annað án þess að niðurstaða
fyndist, sem viðunandi mætti teljast. Sú staðreynd að sveitin byði
upp á fæðuöryggi og húsaskjól, þótt ýmislegt annað skorti, vó
þungt þegar að því kom að taka ákvörðun um framhaldið. En
hvernig sem umræðunni var háttað þá heggur afi Sigurður á
hnútinn með ákvörðun sinni eins og hún birtist í meðfylgjandi
skjali dagsettu 20. september 1938 og þinglýst 21. október sama
ár af sýslumanninum í Strandasýslu, Jóhanni Salberg Guðmunds-
syni, að greiddu þinglýsingargjaldi – tuttugu og fimm krónur
41/100:
Ég Sigurður Þórðarson til heimilis að Stóra Fjarðarhorni. Eig-
andi jarðarinnar Stóra Fjarðarhorn í Fellshreppi Strandasýslu.
Lýsi hérmeð yfir því, að ég hefi látið af áðurnefndri jörð til nýbýl-
isins „Undraland“ handa Hirti syni mínum, allt land utan tún-
girðingar (Jóns girðingar) – að vestan í sjó fram, suður að „Leir-
lág“ og í beinni línu eftir neðri bakka „Leirlágar“ í „Þrúðardalsá“.