Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 44
42
Byggingarnar á Undralandi útheimtu mikla vinnu. Sementið í
steypuna var keypt í kaupfélaginu á Hólmavík, steypumölin20 sótt
út á Broddadalsárreka, sandurinn upp í Ljúfustaðamel og víðar.
Það var seinlegt og streðsamt verk að moka möl með broddskóflu
eina að vopni upp á vörubílspall. Við bræður fórum með pabba
að sækja mölina og reyndum að vera til gagns, en gróf mölin var
okkur ofviða enda ungir og lágir í loftinu, utan Páll sem var
orðinn það stór að það munaði verulega um hann við mokstur-
inn, sama var með sandinn. Þegar kom að því að steypa voru
dagarnir á undan notaðir til að sækja möl og sand og svo smágrjót
í fjöruna út við Líká og þar í kring. Þessu smágrjóti var troðið
saman við steypuna þegar hún var komin í mótin til að drýgja í,
því allt þurfti að spara.
Steypan var hrærð á bretti, og tveir fullhraustir karlar stóðu
hvor á móti öðrum og hrærðu steypuna með þar til gerðum skófl-
um, steypuskóflum, og þegar hún var fullhrærð var hún dregin í
vatnsfötum upp í mótin. Svona var unnið langan vinnudag dag
eftir dag þangað til steypuvinnunni lauk og húsin uppsteypt.
Meðan fullorðnu karlmennirnir unnu við að steypa, þá vorum við
Hreinn sendir út að Líká að tína smágrjót í hrúgur. Þarna puðuð-
um við í grjóttínslunni, Hreinn 5–6 ára og ég 7–8 ára daglangt. Sá
háttur var hafður á að draga hvítt lak upp á fánastöngina á Undra-
landi þegar komið var hádegi eða hæfilegur tími síðdegis til að
hætta vinnu. Við röltum heim í hádegismat og aftur til baka eftir
hádegishléið og tíndum meira grjót, þangað til aftur var flaggað
hvítu undir kvöld og kominn hættutími. Þegar steypuvinnunni
lauk síðdegis fór pabbi og við auðvitað með, að tína grjóthrúgurn-
ar okkar upp á bílinn og flytja heim. Næsta dag hófst sami leik-
urinn og þannig dag eftir dag meðan steypuvinnan stóð yfir.
Seinna er farið að hræra steypuna í þar til gerðri tunnu. Þá var
steypuefninu blandað í tunnuna ásamt hæfilegum skammti af
vatni, tunnunni lokað og síðan var hún „dregin út“, fyrst af hesti
og síðar traktorum þegar þeir komu til sögunnar. Þetta fór þannig
fram að kaðli var snúið um tunnuna og þegar hann var dreginn
út snerist tunnan og steypan hrærðist. Þetta sparaði mikið erfiði
og tíma.
Enn seinna koma vélknúnar hrærivélar til sögunnar.