Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 45
43
Að steypu lokinni var steypan látin standa í mótunum í tvo eða
þrjá daga áður en þau voru rifin utan af. Þegar búið var að rífa
utan af steypunni var fyrst gengið í að naglhreinsa timbrið, og
allir naglarnir dregnir úr mótaviðnum og settir í fötu. Eftir
naglahreinsun var næsta verk að hreinsa steypuleifar af mótaviðn-
um og gera hann kláran fyrir næstu notkun, annað hvort næstu
steypu eða þakklæðningu ef uppsteypu var lokið. Þegar allur
mótaviðurinn hafði verið hreinsaður og honum staflað eftir
lengdum og breiddum, uppistöður sér og mótatimbrið sér, þá
hófst naglaréttingin. Hún var í því fólgin að taka alla naglana sem
dregnir höfðu verið úr mótunum, rétta þá vel og vandlega og
setja þá í aðra fötu. Þetta fór þannig fram að maður hafði planka-
bút í sæmilegri vinnuhæð og tók síðan boginn nagla, hélt um
annan endann á naglanum og sló hann svo beinan með hamri.
Þetta verk var sérstaklega ætlað okkur Hreini, ég minnist þess að
þetta þótti mér vont verk, bæði seinlegt og það sem verra var, að
því fylgdu undantekningarlaust bólgnir fingur og bláar neglur á
vinstri hendi. Maður lét sig samt hafa það möglunarlaust því
nauðsynlegt var að nýta alla hluti eins vel og kostur var og „aftur-
réttingar“ voru góðir til síns brúks ekkert síður en nýir naglar.
Þarna stóðum við úti daglangt í nokkra daga hvernig sem viðraði
og lömdum naglana rétta þangað til öllu var lokið og aftur-
réttingafatan full af þráðbeinum nöglum.
Allir viðir í húsin á Undralandi voru unnir úr rekaviði. Pabbi
fékk marga og stóra rekaviðarrafta út á Broddadalsárreka og
Ágúst Benediktsson bóndi og sjómaður á Hvalsá í Tungusveit dró
þá aftan í trillunni sinni, Gusti, utan af Broddadalsárreka og inn
að Undralandi. Þar voru raftarnir dregnir á land og staflað upp í
heimkeyrslunni.
Og svo hófst sögunin.
Raftarnir voru sagaðir niður með sérstakri stórviðarsög í sperr-
ur, dregara, glugga- og hurðarkarma og annað sem til þurfti. Sög-
in sem pabbi notaði var myndarleg einsmanns stórviðarsög, en til
voru líka tveggja manna stórviðarsagir. Þegar unnið var við sögun-
ina var rafturinn skorðaður fastur á hæfilega háum búkka svo sá
sem sagaði gæti staðið við hliðina á honum og sagað með sæmi-
lega þægilegu móti. Væri aftur á móti unnið með tveggja manna
stórviðarsög þurfti búkkinn að vera svo hár að annar maðurinn