Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 54
52
unni fyrir verkalýðinn og þá sem minna máttu sín í samfélaginu.
Hann kom á Undraland ef hann átti leið um, þar sem hann og
pabbi voru skoðanabræður í pólitík. Ég minnist hans í litlu stof-
unni, þar sem hann hélt þrumandi ræður um lúalega framkomu
auðvaldsins og nauðsynlegar aðgerðir til að halda því í skefjun.
Ég hreifst af þessum málsnjalla manni, sem virtist hafa tök á öllu
sem bar á góma og geta sett hvert umræðuefni eða málefni í sögu-
legt samhengi svo allt varð auðskiljanlegt og trúverðugt.
Að öðrum gestum kvað minna.
Heimilislífið
Heimilislífið á Undralandi var lítið frábrugðið því sem tíðkaðist á
öðrum sveitaheimilum. Endalaus vinna sumarlangt, haust og vor,
en fábreytt tilvera yfir veturinn, ef undan eru skildar fastar
samkomur í samkomuhúsinu á Þorra og Góu. Í fásinni langra
vetrarkvölda situr enn eftir minningin um kvöldlestra föður míns.
Þegar allir voru háttaðir og hver kominn í sitt bæli, las hann oft
upphátt fyrir fjölskylduna drjúga stund fyrir svefninn. Hann las
alltaf góðar bækur eins og Kiljan, Þórberg og ljóðskáldin Stein
Steinarr og Jóhannes úr Kötlum svo eitthvað sé nefnt. Kvöldlestr-
arnir og umræðan sem fylgdi í kjölfarið um persónur bókanna og
boðskap vöktu áhuga minn á bókmenntum og hefur sá áhugi var-
að alla tíð síðan.
Lestrarfélag Fellshrepps átti ágætan bókakost og var mikilvæg
menntastofnun í samfélaginu, sem við nýttum okkur út í æsar,
sérstaklega yfir veturinn þegar minna var að starfa utan dyra.
Fjárhagsleg afkoma var rýr og því þurfti alltaf að halda vel á
spöðunum, nýta hvern hlut eins og hægt var og fara sparlega með
allt. Reynt var að gera eins mikið úr afurðum búsins og mögulegt
var. Þegar kúnum fjölgaði, fyrst úr einni í tvær og síðar þrjár, var
unnið úr mjólkinni smjör, sem lagt var inn í Kaupfélagið á
Hólmavík og búið til skyr til heimabrúks úr undanrennunni.
Í sláturtíðinni voru hausar og lappir sviðnar, ristlar ristir og
hreinsaðir og búnir til lundabaggar, gert slátur, kjöt saltað og
reykt og málum komið svo fyrir að fjölskyldan væri sjálfri sér nóg
um mat. Mjöl, sykur, kol og söltuð þorskþunnildi komu með
kaupfélagsbílnum fyrir fyrstu haustsnjóa, þannig að þegar vetur
brast á var nógur matur í húsi, kol, mór og niðursagaður rekavið-