Strandapósturinn - 01.06.2018, Blaðsíða 64
62
sváfu í tvíbreiðu rúmi eða bedda og borðuðu við kringlótt borð á
miðju stofugólfinu. Þau höfðu einn eða tvo stóla eða kolla og auk
þess svartan skáp við stofuvegg þar sem geymdur var borðbúnað-
ur og eldhúsáhöld og annað nauðsynlegt til eldunar.
Sambýlið virðist hafa gengið prýðilega þótt þröngt væri setið,
ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hnútukast á milli fólksins
nema síður væri því vinátta ríkti á milli okkar meðan líf entist.
Það var ekki nóg með að þau Þórður og Fríða byggju í stofunni
heldur tóku þau til sín vetrarpart Ragnheiði Jónsdóttur frá
Broddanesi, sem þurfti að sækja farskóla sveitarinnar, sem þá var
starfræktur í samkomuhúsinu í Stóra-Fjarðarhorni.
Ég var ákaflega hændur að þessu frændfólki mínu,36 stakk mér
gjarna þangað inn teldi ég von á betri mat hjá Fríðu heldur en hjá
móður minni. Alltaf leit ég á þessi sómahjón sem hálfgerða fóstur-
foreldra.
Á Undralandi búa þau til ársins 1951, en þá losnar Þrúðardalur
úr ábúð.
Afi Sigurður átti Þrúðardal og hvernig sem um hefur talast á
milli þeirra feðga, Þórðar og afa, endar það með því að afi gefur
Þórði Þrúðardalinn með öllu sem honum fylgdi og fylgja bar eins
og segir í gömlum skjölum. Sama ár, 1951, flytja þau Þórður og
Fríða frá Undralandi og setjast að í Þrúðardal þar sem þau búa til
ársins 1955.
Húsakynni í Þrúðardal voru þá orðin afar léleg og fyrir lá, að
ætti að sitja jörðina áfram, þyrfti að byggja upp öll hús að íbúðar-
húsinu meðtöldu.
Alfreð og Sigríður höfðu látið af búskap í Stóra-Fjarðarhorni
1955 og flutt að Kollafjarðarnesi. Í gamla húsinu í Stóra-
Fjarðarhorni var því laus íbúð og laust pláss í útihúsum fyrir bú-
stofn. Í stað þess að byggja upp í Þrúðardal þá taka þau Fríða og
Þórður sig upp og flytja með allt sitt hafurtask í Stóra-Fjarðarhorn
og koma sér þar fyrir með sinn bústofn, en nýta jörðina í Þrúðar-
dal til heyskapar og beitar.
Þessi skipan mála helst fram á haustdaga 1958 að foreldrar
mínir flytja frá Undralandi, en við það opnast nýtt tækifæri fyrir
Þórð og Fríðu.
Þau leigja Undraland af nýja eigandanum, það er að segja öll
hús og heimatún, og flytja þangað vorið 1959.