Strandapósturinn - 01.06.2018, Page 111
109
þykjast ekki vera eins léttir á sér. Það er hellidemba, kindurnar
eru þungar á sér og seinar af stað, öll fötin blotna þrátt fyrir
regnfatnaðinn og verða einstaklega þung, og þegar við erum
komin hálfa smalaleiðina var ég send niður í girðingu að ná í
fé og reka það upp, en rennblautt grasið í girðingunni nær mér
í hné. Ég geri mitt allra besta og næ að hrekja rolluskjáturnar
upp úr girðingunni þangað sem þær áttu að fara, en þarf svo
að drífa mig upp úr girðingunni til þess að halda áfram á eftir
þeim. Þegar ég loksins klöngrast upp úr girðingunni hitti ég
regnfataklæddan afa minn þar sem hann gengur rösklega en
varfærnislega á undan mér upp með girðingunni þar sem hann
hafði rölt heiman að bæ til að koma með okkur síðasta spölinn.
Hann, 83 ára, blæs varla úr nös, en ég, 25 ára sem á að heita
ung og hress, næ rétt svo að halda í við hann. „Þú stingur mig
af“ segi ég við hann lafmóð, „þú ert svo sprækur“. Hann svaraði
glottandi „jæja góða mín, þú heldur það“ og ég hljóp við fót til
að ná honum. Við vorum samferða heim á eftir rollunum, og ég
get svo svarið það að þegar við komum heim á bæ, þá var hann
sá eini sem var ennþá þurr undir regnfötunum.
Í Steinadal er smalamennska frekar skemmtun en kvöð, og
held ég að það sé algengt viðhorf um allt land. Börn Jóns Gústa
og Ásdísar og fjölskyldur þeirra fylkja liði í smalamennsku á
hverju hausti til að hjálpa bóndanum að smala. Þar mæta þeir
sem fara hátt og langt, þeir sem fara lágt og stutt og þeir sem
eru heima og elda góðan mat ofan í smalana. Í Steinadal er
hefð fyrir því að þegar búið er að smala fénu heim, og smalarnir
koma heim á bæ þá ganga á milli þeirra sögur um afrek og erfiði
þess sem fram fór á fjallinu þann daginn, á meðan þeir borða vel
útilátna heita máltíð sem amma Ásdís eldaði á meðan smalarnir
voru á fjalli og þegar þeirri máltíð er lokið er ís í eftirrétt, og
nóg af honum. Þetta gefur fólkinu orku í að halda áfram með
dagsverkin, því eftir matinn fara þeir duglegustu aftur í fjárhúsin
til að draga í sundur fé og hjálpa til eins og þeir mögulega geta.
Að njóta samverunnar
Heimsóknir mínar upp í Steinadal hafa ekki einskorðast við að-
stoð og vinnu við búskapinn, heldur er félagsskapur afa og stór-
fjölskyldunnar úr Steinadal aðalmálið. Á jóladag og gamlársdag