Strandapósturinn - 01.06.2018, Page 134
132
um og heim að Kambi, ferð eftir ferð fram í myrkur. Losa pokana,
fara með þá til baka og taka nýja á klakkinn. Við losun pokanna
kom upp mikið ryk sem fór í augun, sérstaklega þegar vindur var,
sem var oftast. Það var mjög slæmt en ekki þýddi að fást um það.
Mórinn var nauðsynlegt eldsneyti til vetrarins ásamt spýtum.
Þá er komið að leitum og réttum. Oft var farið á sjó nokkra
róðra þarna á milli ef veður leyfði. Það var alltaf eftirvænting
þegar leið að þessum tíma. Einum til tveimur dögum fyrir leitir
var ævinlega slátrað sumarlambi. Venjulega fóru tveir til þrír
menn frá Kambi í leitir. Að mig minnir fóru þeir kvöldið áður inn
í Veiðileysu og eldsnemma að morgni hófst smalamennskan.
Veiðileysumenn höfðu daginn áður smalað frá Veiðileysukleif inn
fyrir Kráku. Haldið var upp frá Kráku og yfir háls í Kúvíkurdal
niður að Kleifará og síðan út með Reykjarfirði, fyrir Kamb og inn
í Veiðileysu þar sem var réttað, við Kráku. Síðan var dregið í dilka
og þegar öllu var lokið var orðið dimmt. En þá áttum við eftir að
reka okkar fé út að Kambi og niður í Nátthaga. Þá var orðið al-
dimmt. Úr Nátthaganum var síðan næsta dag valið úr það fé sem
átti að fara í slátrun en hinu sem skyldi lifa hleypt út á tún.
Sláturtíðin
Fjölskyldan á Kambi átti vissa tvo daga hjá Jensen kaupmanni á
Kúvíkum. Það var þannig að við fórum með sláturféð seinnipart
dags frá Kambi inn í Kúvíkur. Ég man að ég og Alfreð bróðir gist-
um hjá Jensen eitt eða tvö haust. Að morgni komu fleiri frá
Kambi. Sláturféð, sem mest voru falleg vor- og sumarlömb, var
um kvöldið rekið í skúr þar sem það mátti dúsa um nóttina.
Næsta morgun hófst slátrunin. Smá gangur lá frá skúrnum, þar
sem eitt lamb kom inn í einu og í enda gangsins var sandpoki. Út
að pokanum var lambið leitt og hausnum þrýst að pokanum um
leið og skot reið af. Skotmaðurinn vippaði síðan lambinu fram á
pall og greip til hnífsins og skar á hálsæðarnar svo blóðið streymdi
af krafti. Blóðið rann í trog og það varð að hræra mjög ákaft í
troginu meðan blóðið rann og á eftir þar til það kólnaði. Annars
hljóp það í hellu og varð ónothæft. Það var mitt hlutskipti í ein-
hver ár að hræra í blóðinu sem það var kallað. Mér fannst þetta
skelfilegt og gleymi því aldrei, en svona var þetta.