Strandapósturinn - 01.06.2018, Page 135
133
Eftir slátrunina þurfti að ganga frá öllum innmat og því sem
ekki fór til sölu hjá Jensen kaupmanni. Það voru hausarnir af
lömbunum, vambir, ristlar, mör, allur innmatur og blóðið. Þessu
varð að koma út að Kambi, stundum á sjó, stundum á hestum.
Eftir að heim var komið kom til annar þáttur.
Margs konar verkefni tóku nú við er haustaði að. Dytta þurfti
að húsum og búa undir veturinn.
Og farið að huga að sjónum. Oft var farið með lóðir eða hand-
færi út á skerjagrunn eða lengra út og fiskaðist oft vel.
Veturinn
Þá kom að því að taka fé á gjöf. Sumt var sett á beitarhús á Troga-
strönd eða Sandvík eða heima. Á þessum árstíma var komið fram
á jólaföstu. Stundum, en ekki alltaf, var kominn mikill snjór.
Eftir áramótin kom fengitíminn hjá sauðfénu, sem stóð í 2–3
vikur og er eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Eftir þann
tíma, sem var í janúar-febrúar, kom leiðindatími á Kambi að mig
minnir. Samt voru smíðuð skíði úr rekaviði, en á þessum árum
1939–41 er áhuginn á skíðaíþróttinni að kvikna og það voru
spennandi tímar.
Síðan hélt veturinn áfram með byljum og óveðrum og stund-
um miklum snjóum í marga daga, svo ekki var fært út nema til að
gegna því nauðsynlegasta. Þessi tími vetrarins var hvað verstur, að
þrauka þorrann og góuna eins og það heitir.
En vorið kemur alltaf aftur. Í apríl-maí var farið að rofa til. Um
leið og fór að grænka hófst sauðburður. Lífið hefur sig upp að
nýju og nú hefst bjartsýnistíminn. Farfuglarnir koma og lömbin
fæðast. Þetta er lífsins tími og hann er svo skemmtilegur.
Þá er vinnuhringnum lokað.