Fréttablaðið - 02.03.2022, Blaðsíða 13
Oft þarf eitthvað alveg sérstakt að
gerast eða koma til, eitthvað, sem
rífur okkur upp úr svefni vana og
siða – upp úr dásvefni daglegrar
rútínu – til að við áttum okkur
á eðli hluta og stöðu mála okkar
sjálfra og þess umhverfis, sem við
lifum í.
Stundum er talað um, og það með
réttu, að auga gestsins sé glöggt.
Gesturinn kemur að umhverfi og
atburðum með öðrum hætti, með
annarri tilf inningu og sýn, en
heimamenn, sem oftast eru njörv-
aðir í viðjum vanans. Blinda er barn
vanans.
Á undanförnum vikum hefur
mikið verið fjallað um blóðmera-
hald hér á Íslandi, en það byggist,
eins og flestir vita nú, á því, að blóð
er tekið af fylfullum merum, 5 lítrar
í einu, 8 sinnum hvert haust, en hver
blóðtaka virðist jafngilda allt að
20% af blóðmagni hryssu, og það
vikulega.
Þetta hefur verið gert hér, vita-
skuld með fullri vitund þeirra, sem
fyrir blóðtökunni standa og hana
framkvæma, líka þeirra stjórnvalda,
sem eiga að hafa krítískt eftirlit með
svona starfsemi, þrátt fyrir það, að
f lestir eða allir fræði- og vísinda-
menn á þessu sviði telji, að mest
megi taka 10% af blóði hryssu á 30
daga fresti, og þrátt fyrir það, að
blóðtaka af fylfullum merum eða
mjólkandi merum sé stranglega
bönnuð í Þýzkalandi, reyndar í
öllum 27 löndum ESB, svo og í Sviss,
vegna þess viðkvæma ástands, sem
dýrin eru þá í.
Hér á Íslandi er blóð tekið af
hryssum, sem mest eru bæði; fyl-
fullar og mjólkandi!
Við þetta bætist svo of beldi og
meiðingar, sem oft þarf að beita
dýrin, til að ná þeim í blóðtöku-
bás og negla þær þar, og svo þeir
áverkar, sem dýrunum eru reglulega
veittir, vikulega um 8 vikna skeið,
með hálfs sentímetra breiðri blóð-
tökunál, sem rekin er inn í slagæð
dýrsins, og það af eiðsvörðum
„dýralæknum“.
Þetta er búið að vera í gangi hér, í
um 40 ár, hefur blasað við á tugum
bæja, og MAST hefur átt að hafa
eftirlit með þessu – að dýravelferð
væri tryggð – en nánast enginn
hefur tekið eftir þessu, gert eitt-
hvað með þetta, ekki einu sinni
MAST, sem fremur hefur borið blak
af starfseminni, en hitt; þetta hefur
einfaldlega viðgengist af gömlum og
„góðum“ vana.
Svo koma gestir, erlend dýra-
verndunarsamtök, og vekja okkur
upp af svefni andvaraleysis og
afskiptaleysis, svefni vana og blindu
daglegrar rútínu.
Og, hvað gerist þá? Mörgum
bregður nú loks í brún; hver fjand-
inn hefur verið að gerast hér!? Í 40
ár!? Og MAST, sem átti að vita allt
um málið og stýra því og kontróll-
era, biður erlendu dýraverndunar-
samtökin að senda sé rannsóknar-
gögn og niðurstöður, til að þau geti
kynnt sér málið! Eftir 13 ára eftirlit.
Í raun og veru snýst þessi hug-
leiðing mín ekki bara um okkur,
mannfólkið, heldur, miklu fremur,
um dýrin og okkur. Samlífið.
Hestar, blóðmerar, eru auð-
vitað spendýr, en mannfólkið er
líka spendýr. Þó ótrúlegt kunni að
virðast, eru taldar vera um 5.500
tegundir spendýra á jörðinni.
Þessi spendýr eru ólík að formi,
gerð og stærð, en eru í grundvall-
aratriðum öll eins sköpuð; gerð og
byggð.
Þá virðist það loks liggja fyrir að við erum að éta okkur sjálf
Öll spendýr, ekki bara spendýrið
maðurinn, f inna fyrir andlegri
og líkamlegri vanlíðan og þján-
ingu, óttast og hræðast, kveljast af
meiðslum og áverkum, eins og við,
kvíða reyndar líka fyrir, hryggjast,
syrgja, hlakka til og gleðjast, allt
meira og minna eins og við.
Tilraunir eru gerðar á músum,
rottum, kanínum og hundum –
oftast reyndar með hræðilegu
kvalræði fyrir dýrin, sem sjaldnast
lifa tilraunir af – og er árangur og
niðurstöður síðan notaðar fyrir
lyfjaþróun og nýjar lækningalausnir
fyrir mannfólkið.
Þetta sýnir auðvitað og sannar
náin tengsl og feikileg líkindi allra
spendýra, manna meðtalinna.
Nýjasta dæmið um það, hversu lík
öll spendýr og menn eru, er ígræðsla
hjarta úr svíni í mann, sem virkar.
Í 57 ára gamlan Bandaríkjamann,
sem var með lífshættulegan hjarta-
sjúkdóm, var í byrjun ársins grætt
hjarta úr svíni, sem reyndar hafði
verið eitthvað aðlagað, með gena-
breytingum, og lif ir maðurinn
enn, þegar þetta er skrifað. Hjarta-
ígræðsla úr svíni í mann virkar!
Áður hafði það gerzt, að hjarta-
lokur úr svínum höfðu verið grædd-
ar í menn, til að laga eða lækna
hjartagalla, húð af svínum grædd
á brunasár manna, og í einu tilfelli
hafði nýra verið grætt í mann.
Þetta sýnir og sannar að við, spen-
dýrin, erum í grunninn öll sköpuð
eins, nema, hvað maðurinn er auð-
vitað gráðugri, grimmari og mis-
kunnarlausari, en önnur spendýr.
Og, hann einn drepur án þarfar, sér
til skemmtunar og gleði, af lægstu
hvötum; drápslosta. Önnur spendýr,
rándýr, drepa af þörf.
Punkturinn er: Liggur það ekki
loks fyrir, að við, menn og önnur
spendýr, erum ein stór og marg-
breytileg fjölskylda, þannig, að
þegar við erum að halda, slátra og
éta önnur spendýr, erum við, í raun,
að éta okkur sjálf!? n
Ole Anton
Bieltvedt
stofnandi
Jarðarvina
MIÐVIKUDAGUR 2. mars 2022 Skoðun 13FRÉTTABLAÐIÐ