Fréttablaðið - 27.05.2022, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 27.05.2022, Blaðsíða 12
„Ég á þrjár dýrmætar minningar um ís. Ég er fæddur í Vestmanna­ eyjum þar sem hægt var að kaupa ís með dýfu fyrir 20 kall í sjoppunni Tótaturni og man líka þegar Breikpinninn góði kom á markað. Mínar ljúfustu ísminn­ ingar tengjast þó æskujólunum. Í þá daga var ís ekki oft á borðum heima, nema á sjálfum jólunum þegar gamla góða jólauppskriftin var löguð með ristuðum hnetum og karamellu. Það var hátíðleg stund sem lifir í minningunni því líklega hef ég alltaf verið svolítill sælgætisgrís sem þróaðist yfir í að ég lærði kokkinn.“ Þetta segir matreiðslumeistar­ inn Kjartan Gíslason, sem stofnaði súkkulaðigerðina Omnom með æskuvini sínum Óskari Þórðarsyni árið 2013. „Áður en ég fór í súkkulaði­ gerðina vann ég í tuttugu ár sem kokkur, síðast á veitingahúsinu Dill í Norræna húsinu, en þar á undan í Noregi, Svíþjóð og á Mich­ elin­veitingastað í Lúxemborg. Til að vinna á Michelin­stað þarf maður að hafa meira en áhuga á matargerð; maður þarf að hafa löngun til að læra nýtt. Það gerði ég svo sannarlega, ekki bara í vinnubrögðum heldur var mesta upplifunin að vinna með árstíða­ bundið hráefni og af ástríðu. Við Íslendingar erum vanir að fá fersk jarðarber í desember, en þarna var tekinn upp aspas í apríl og fisk­ hrogn í rétti vetrar; allt á matseðl­ inum var árstíðabundið, unnið úr fersku hráefni úr nærsveitum. Það gaf mér nýja sýn á matargerð.“ Auðvelt að verða ástfanginn Á Michelin­staðnum í Lúxemborg vann Kjartan við hlið fransks kökugerðarmeistara sem bakaði daglega dýrindis brauð, kökur og klassíska franska eftirrétti eins og crème brûlée og soufflé. „Það þótti mér ákaflega heillandi og fann að mig langaði mest að starfa í þeim anga matar­ gerðarlistarinnar. Eftirréttagerð krefst mikillar nákvæmni og agaðra vinnubragða. Sennilega situr í mér þetta sæta síðan ég var barn og það er auðvelt að verða ástfanginn af því. Allt þetta snerti í mér streng enda hefur mér alltaf liðið best þegar ég baka, þótt ég hafi auðvitað enn mikinn áhuga á því að elda góðan mat,“ segir Kjartan. Árið 2013 ákvað hann því að söðla um og spreyta sig á súkku­ laðigerð í eldhúsinu heima. „Bæði af nördaskap en líka löngun til að læra að búa til súkkulaði frá grunni. Á þeim tíma voru litlar súkkulaðivinnslur í Bandaríkjunum farnar að vinna eftir aðferðafræðinni bean­to­ bar, þar sem sérvaldar og fínustu kakóbaunir heims voru notaðar í súkkulaðigerðina. Mér þótti það spennandi tilhugsun og eftir að við keyptum lítinn búnað varð fyrsta Omnom­súkkulaðið til,“ segir Kjartan. Hann var drifinn áfram af for­ vitni um hvort hann gæti haft meiri áhrif á bragð súkkulaðis og lék sér með ýmis tilbrigði. „Þegar búið var að opna það Pan­ dórubox var engin leið að loka því. Við vorum heppnir með hæfileika­ ríkan hönnuð, André Úlf Visage, sem tvinnaði saman skemmti­ lega hönnun sem rímaði vel við hugmynd okkar um stemmingu sem passaði því hugarástandi að borða súkkulaði í barnslegri gleði. Við vildum búa til einfalt og gott súkkulaði sem væri í senn heiðar­ legt og kúl. Við höfum reyndar kallað það „ætar ævintýrasögur“ því þegar fólk borðar Omnom­ súkkulaði er engin leið að vita hvert bragðlaukarnir fara með það, því við erum alltaf að prófa okkur áfram með nýjar kakó­ baunir og hráefni sem við veljum út frá gæðum, héðan og þaðan úr heiminum,“ útskýrir Kjartan. Bragðsælkerar í leit að baunum Íslendingar urðu fljótt sólgnir í Omnom­súkkulaði. „Í hinum gríðarstóra súkkulaði­ heimi er flest af því sælgæti sem við sjáum í búðum gert úr þriðja flokks kakóbaunum. Við sér­ veljum kakóbaunir sem eru ekki ræktaðar í miklu magni. Vinnsla kakóbauna, úr ávexti yfir í súkku­ laði, getur líka verið æði misjöfn. Við veljum baunir sem eru í hærri gæðaflokki og greiðum fyrir það hærra verð, og hærra en fair trade­ verð sem er í gangi hverju sinni. Þannig fáum við aðgengi að mun betri hrávöru og sem hugsað hefur verið betur um, sérstaklega þegar kemur að því að gerja kakóbaunir, sem er efnafræðivísindi sem líkja má við víngerð. Ef menn sýna því áhuga og aðhaldssemi fást betri kakóbaunir sem bragðast betur,“ útskýrir Kjartan. Hann kallar þá Óskar bragð­ sælkera. „Við leitum alltaf að kakó­ baunum sem segja til um hversu gott súkkulaðið verður. Fjöl­ breytni bragðs er mikil; bragð getur verið súrt, með ávaxtakeimi eða skógarbragði, en jafnvel þótt við smökkum sama súkkulaðið er upplifun hvers og eins misjöfn, og fyllt tónum sem fólk tengir oft við minningar.“ Omnom­súkkulaði er unnið úr þremur mismunandi kakóbaunum og þrettán grunnuppskriftum. „Mitt Omnom­eftirlæti er eftir uppskrift sem heitir Dark Milk of Tanzania. Það er dökkt, kröftugt mjólkursúkkulaði með 65 prósent kakómagni. Ég líki því við kaffi­ drykkinn macchiato þar sem mjög sterku espresso­kaffi er blandað örlitlum mjólkurdreitli,“ segir Kjartan sem fær sér súkkulaði nán­ ast upp á dag, til að sjá og smakka það sem kemur af færibandinu. „Inn á milli leyfi ég mér líka sektarsælu, sem er Prins Póló. Það tengist fortíðarþrá úr Tótaturni í Eyjum en í hvert sinn sem ég fæ mér Prins Póló í dag rifjast upp að það var bæði þykkara og með meira súkkulaði í denn en nú.“ Ekki bara borðað með augunum Omnom­bræður voru farnir að leggja drög að nýjum ævintýrum nokkru áður en Covid­19 skall á. „Draumurinn var að opna bakarí eða kaffihús með köku­ gerð og ís. Við höfðum fjárfest í gömlum ísvélum en svo fennti yfir drauminn í faraldrinum þegar við þurftum að loka verslun okkar í Hólmaslóð. Í september 2020 opn­ uðum við svo ísbúð, því andlega landslagið hljóðaði upp á að gera eitthvað og þá sá maður ekki fram á að heimsfaraldurinn stæði yfir í tvö ár,“ segir Kjartan. Hugmyndin var að útbúa einhvers konar bragðarefi með Omnom­súkkulaði. „Við vildum opna ævintýra­ heim Omnom enn frekar og erum nú með átta ísrétti, ásamt árs­ tíðabundnum réttum fyrir jól og hrekkjavöku, og nú vonandi fyrir sumarið sem átti að vera í fyrra, en alltaf stoppaði Covid okkur af. Við byggjum ísréttina á súkkulaði sem við framleiðum sjálf og bjuggum til lakkríssúkkulaðifígúru sem við köllum kolkrabbann til skrauts. Þannig höfum við haldið okkur við ævintýraþemað og dýrin sem hafa orðið einkennandi fyrir Omnom. Leðurblakan er dýr kaffisúkku­ laðisins og því er til kaffikenndur ísréttur. Allar sósur, skraut og kurl gerum við sjálf; allt nema ísinn sem er hvítur vanilluís frá Kjörís,“ upplýsir Kjartan. Hann segir skemmtilegt að hafa náð í skottið á því þegar lands­ menn keyptu enn take away í heimsfaraldrinum. „Það hefur líka verið gaman að fá erlenda ferðamenn sem hafa tyllt sér úti í skafl með ís um hávetur og undrast að Íslendingar fari í sérstaka ísbíltúra, sama hvernig viðrar. Grandinn er líka dásamlegt svæði að heimsækja, eins og nýr miðbær á jaðrinum, og við sem hér erum með rekstur erum eins og ein stór fjölskylda.“ Á næsta ári stendur mikið til hjá Omnom sem fagnar tíu ára afmæli. „Við erum bjartsýn á framtíðina og fögnum afmælinu með ein­ hverju gómsætu og gleðivaldandi. Ef fólk vill lenda í skemmtilegu ævintýri og prófa nýtt í ís mæli ég með að koma til okkar og taka fólkið sitt með. Bragðið verður þó alltaf númer eitt, því útlitið er eitt og ekki borðar maður með augunum. Draumurinn er svo að taka skrefið og laga heimagerðan Omnom­ís frá grunni, en þangað til er gott að vera með einfaldan, hvítan ís sem er þægilegur strigi fyrir okkar listaverk.“ n Omnom er á Hólmaslóð 4. Opið alla daga frá klukkan 13 til 22. Sjá nánar á omnom.is Kjartan Gísla- son, matreiðslu- og súkku- laðimeistari, er sólginn í Omnom-súkku- laði en leyfir sér líka stundum sektarsælu æskunnar, sem er Prins Póló. FRÉTTABLAÐIÐ/ ERNIR Ævintýralegir ísréttir Omnom skarta skrautlegum og gómsætum fígúrum. Við höfum kallað þetta ætar ævin- týrasögur því þegar fólk borðar Omnom-súkku- laði er engin leið að vita hvert bragðlaukarnir fara með það. 2 kynningarblað A L LT 27. maí 2022 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.