Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2018, Síða 8
Siglfirðingablaðið8
Ómetanleg gjöf
Hvað er svona merkilegt við það
að vera Siglfirðingur!
Hvað er það í genum okkar
Siglfirðinga sem gerir okkur svona
trygga heimabyggðinni. Eru það
fjöllin? Er það skammdegið eða
er það sú mikla samkennd, tryggð
og kærleikur sem allir hafa að
leiðarljósi í samskiptum sínum
og einkennir Siglfirðinga nær
og fjær. Um aldamótin 1900 var
einvörðungu ein gata á Siglufirði,
Gránugatan. 10 15 árum síðar
eru skráðar 24 götur í bænum.
Afi minn var í fyrstu bæjarstjórn
Siglufjarðar 1919, faðir minn sat
einnig í bæjarstjórn um 1950,
Grána, Rauðkutórarnir, Stóriboli,
Skarðsmótin, Malarvöllurinn,
Æskulýðsheimilið, Júlli Júll og
gólfið í sundlauginni. Öll eigum
við slíkar minningar úr fortíðinni.
Í erindi í ljóðinu „Úti er ævintýri“
eftir Ólaf Ragnarsson, fyrrverandi
formann Siglfirðingafélagsins,
bregður hann upp sýn á
augnablik úr sinni æsku:
Hafir þú barnsskónum slitið
í blómstrandi síldarbæ
og unnið á iðandi plönum
áttu þitt ævintýri um ókomna tíð,
átt merlandi minningasafn
í sálu þinni og sinni.
Vildarvinir Siglufjarðar
Siglfirðingafélagið ásamt
um 30 bakhjörlum stofnaði
Vildarvini Siglufjarðar, takið
eftir þann 20. maí 2008 eða
fyrir nákvæmlega tíu árum
síðan. Tilgangur Vildarvina
er að vinna að áhugaverðum
menningar – og félagslegum
verkefnum á Siglufirði og stuðla
að eflingu byggðarinnar á sviði
ferðaþjónustu og annarrar
atvinnu starfsemi. Þegar kom
að því að hefja undirbúning
að gjöf handa afmælisbarninu
fyrir fimm árum beindist hugur
okkar fljótt að þeim miklu
menningarverðmætum sem fólust
í því kvikmyndaefni sem félagar í
Kvikmyndaklúbbnum Linsunni
tóku um miðja síðustu öld. Má
þar nefna myndir frá starfsemi
Prentsmiðju Siglufjarðar,
starfsemi Tunnuverksmiðjunnar
og starfseminni í Æskulýðs
heimilinu. Síðast en ekki síst
er það þó „fólkið sem byggði
bæinn“.
Myndefni úr sögu Siglufjarðar
En hvernig var hægt að nýta það?
Fram kom hugmynd um að gera
kvikmynd um sögu Siglufjarðar
og nýta til þess framangreint efni.
Þessi hugmynd þróaðist síðar yfir
í gerð sjónvarpsþátta í samvinnu
við RÚV. Gengið hefur verið frá
samstarfssamningi um framleiðslu
5 sjónvarpsþátta, Siglufjörður
í 100 ár, og er vinna við gerð
þeirra langt komin. Þættirnir
verða á dagskrá RÚV næsta
vetur. Annar hluti gjafarinnar
er svo stafrænt afrit af öllu
því myndefni sem við höfum
safnað. Þar má nefna myndir
margra Siglfirðinga s.s Njarðar
Jóhannssonar, Tomma Hallgríms,
Gumma Jóns., Óla Ragnars o.fl.
Einnig höfum við fengið efni
úr safni RÚV og þætti frá Ingva
Hrafni á ÍNN um Siglufjörð. Þá
má geta þess að í samvinnu við
Utanríkisráðuneytið höfðum við
upp á myndefni í Noregi sem
tengist síldarsögunni og hefur það
verið afritað. Að lokum má nefna
að við höfum undirritað samning
við Kvikmyndasafn Íslands sem
tryggir aðgengi að skoðunarhæfu
efni tengdu sögu Siglufjarðar. Er
þar um 63 filmur að ræða.
Horft í eina og hálfa viku
Síðustu fimm ár höfum við
leitað og knúið dyra til að afla
þessa efnis. Þetta hefur kostað
blóð, svita og tár og nokkuð af
fjármunum sem styrktaraðilar
okkar og bakhjarlar hafa verið svo
frábærir að leggja fram. Fyrir það
erum við afar þakklát. Gaman
er að geta þess að alls tekur um
eina og hálfa vinnuviku að horfa
á efnið í heild sinni. Við lítum
svo á að þessu verki sé ekki lokið
og tryggja þurfi farveg fyrir
eigendur myndefnis, sem ekki
náðist að safna hér, til að koma
því í varðveislu á stafrænu formi
hér á Siglufirði. Við vonum
að efnið geti nýst komandi
kynslóðum til dægrastyttingar
og til vinnslu heimildamynda
og er okkur þá hugsað til
nemenda í framhaldsskólanum
á Tröllaskaga. Í upphafi vitnaði
ég í „minningasafn“ í ljóði
fyrirmyndar okkar krakkanna
í barnaskóla Siglufjarðar, Ólafs
Ragnarssonar. Hann stofnaði
kvikmyndaklúbbinn Linsuna
ásamt nokkrum félögum
1963 eða 64. Við vonum og
trúum að þetta minningasafn
sem við afhendum hér í formi
væntanlegra sjónvarpsþátta og
þessum fjölda kvikmyndabúta
sem varðveittir eru á rafrænu
formi í þessari tunnu, verði sem
flestum Siglfirðingum og íbúum
Fjallabyggðar skemmtilegar
minningarperlur.
Við vonum að þetta myndefni
sem við gefum hér verði notað af
virðingu við upphaflega rétthafa
þess.
Við viljum biðja bæjarstjóra
Gunnar Birgisson að koma
og taka við þessari gjöf
frá Siglfirðingafélaginu og
Vildarvinum Siglufjarðar.
Útdráttur úr ræðu Guðmundar Stefáns
Jónssonar, formanns Vildarvina Siglu-
fjarðar, við af hendingu gjafar.