Morgunblaðið - 02.04.2022, Síða 44
44 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. APRÍL 2022
S
kjálfti segir frá móðurinni Sögu (Aníta
Briem) sem reynir að raða lífi sínu saman
eftir heiftarlegt flogakast á Klambratúni.
Flogakastinu fylgir minnisleysi og getur
Saga ómögulega munað hvað gerðist í aðdraganda
þess. Til þess að skilja af hverju hún er að fá aftur
flogaköst, líkt og hún gerði í bernsku, þarf hún að
skilja sig sjálfa. „Ertu að borða og sofa nógu vel?“
spyr læknirinn (Sigurður Sigurjónsson). Engar
augljósar ástæður er að finna og neyðist Saga til að
ganga lengra í leit sinni að skýringu. Í kjölfarið
fara áður bældar og erfiðar minningar um hana og
fjölskylduna að koma upp á yfirborðið.
Skjálfti er byggð á skáldsögunni Stóri skjálfti
eftir Auði Jónsdóttur og er vel heppnuð frumraun
Tinnu Hrafnsdóttur að kvikmynd í fullri lengd.
Tinna leikstýrir ekki aðeins kvikmyndinni, hún
framleiðir ásamt Hlín Jóhannesdóttur, skrifar
handritið og leikur eitt af aðalhlutverkunum. Tinna
Hrafnsdóttir er þar af leiðandi algjör höfundur
þessarar átakanlegu kvikmyndar.
Kvikmyndin er byggð upp eins og rannsóknar-
lögreglumynd. Í Skjálfta vita áhorfendur hins veg-
ar ekki hvað er verið að leysa. Enginn glæpamaður
leikur lausum hala heldur er rannsóknarefnið
leyndarmálið sjálft sem býr innra með Sögu. Það
má því segja að rannsóknarefnið sé sjálfið hennar
Sögu. Hægt og rólega í gegnum myndina tekst
henni að púsla saman brotnum minningum og
skapa skýra mynd af því sem átti sér stað í æsku.
Tinna viðheldur spennunni með því að gefa áhorf-
endum aldrei meiri upplýsingar en Sögu sem eru
því jafn ráðvilltir og hún þangað til ráðgátan er
leyst.
Erfitt er að flokka Skjálfta undir eina kvik-
myndagrein. Eins áður kemur fram á myndin
margt líkt með rannsóknarlögreglumyndum en ef-
laust væri best að flokka hana sem fjölskyldu-
drama. Hins vegar eru margir eiginleikar í henni
sem falla undir hryllingsmyndagreinina eins og t.d.
hvernig Tinna heldur áhorfendum alltaf á tánum.
Skjálfti minnir að mörgu leyti á íslensku hrollvekj-
una Húsið (1983) eftir Egil Eðvarðsson sem Jó-
hann Sigurðsson lék einnig í. Í þeirri kvikmynd er
verðandi móðir, Björg (Lilja Þórisdóttir), ásótt af
draugum fortíðarinnar sem (hér ættu lesendur að
hætta að lesa setninguna á enda ef þeir hafa ekki
séð Húsið og vilja ekki láta spilla henni fyrir sér)
síðar kemur í ljós að eru aðeins bældar minningar.
Ólíkt Húsinu er ljóst frá upphafi að í Skjálfta er
ekki um að ræða eiginlega drauga heldur minn-
ingar en endurlitin (e. flashbacks) eru þó ekki síð-
ur hrollvekjandi.
Ljóst er að Tinna þekkir kvikmyndaformið vel
og nýtir það til fullnustu í mynd sinni. Í Skjálfta er
t.d. hægt að finna ýmis tákn sem virðast merking-
arlaus þar til áhorfendur vita alla söguna. Þar má
nefna málverkið af öldunum og hundinn Kjark.
Tinna notar spegla til þess að styrkja söguna en
speglar eru oft merkingarbærir í kvikmyndum.
Þeir geta til dæmis átt að afhjúpa innra sjálf eða
undirmeðvitundina. Í einu atriðinu horfir Saga
stíft á sig í baðherbergisspeglinum og reynir svo
að grípa í andlitið á spegilmynd sinni en slær að-
eins spegilinn. Þetta atriði er mjög þýðingarmikið
og má túlka á ýmsa vegu. Eflaust er Saga að horfa
á sig sjálfa í speglinum af því að hún veit að hún
sjálf er svarið við öllum spurningum hennar. Svar-
ið stendur frammi fyrir henni en þegar hún reynir
að ná í það tekst henni það ekki af því leyndarmálið
er enn of djúpt innra með henni. Áhorfendur fá að-
eins að kynnast Sögu eftir flogakastið þar sem hún
er nánast endurborin og fá því aldrei að kynnast
þeirri Sögu sem áður var, þeirri Sögu sem skildi
við eiginmann sinn (Sveinn Geirsson) eða saka-
málahöfundinn Sögu. Það er stundum líkt og hún
þekki sjálfa sig ekki í speglinum, hún sjái þá útgáfu
af Sögu sem hún man ekki eftir eða er gleymd.
Kvikmyndatakan minnti iðulega á töku sjón-
varpsmynda sem truflaði rýni nokkuð, enda lítið
fyrir sjónvarpsmyndatöku. Atriðin eins og á spít-
alanum og af lögregluþjóninum eru flöt og ofur
einföld. Litirnir í myndheildinni eru þó vel úthugs-
aðir og sniðug leið hjá Tinnu til þess að miðla upp-
lýsingum óbeint til áhorfenda. Rauða kápan sem
Saga klæðist er ef til vill skýrasta dæmið en lit-
urinn rauður hefur gjarnan verið tengdur við til-
finninguna ást sem er viðeigandi í þessari mynd.
Það sem drífur Sögu áfram í leit sinni er ást henn-
ar til sonar síns, Ívars (Benjamín Árni Daðason)
og má segja að móðurástin sé eins konar miðja
sögunnar. Saga veit að Ívar á aðeins skilið hennar
bestu útgáfu af sjálfri sér og til þess að geta boðið
honum það verður hún að leyfa sárum fortíðar að
gróa.
Sögu leikur Aníta Briem og tekst listilega að
fanga móður í þráhyggjufullri leit að sjálfri sér í
von um bjartari framtíð. Edda Björgvins er einnig
eftirminnileg í hlutverki móður í sorg, uppfull af
sektarkennd. Leikaravalið er í heildina litið gott og
styrkir myndina. Bergur Ebbi Benediktsson, sem
leikur Óskar, nágranna Sögu, skapar til að mynda
mikilvægan léttleika í allri fjölskyldudramatíkinni.
Hans lélegu tilraunir til þess að fanga lög Bubba
eru nauðsynlegar fyrir áhorfendur sem annars
hefðu gengið út úr bíósalnum í einni taugahrúgu.
Samræður fjölskyldunnar um hina klassísku kjöt-
súpu slá einnig á létta strengi hjá áhorfendum en
eins og faðir Sögu (Jóhann Sigurðsson) segir þá
lagar kjötsúpan allt.
Með kvikmyndaformið að vopni
Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir
Móðurást „Það sem drífur Sögu áfram í leit sinni er ást hennar til sonar síns,“ segir í rýni um Skjálfta.
Háskólabíó, Smárabíó og Bíó Paradís
Skjálfti bbbbn
Leikstjórn: Tinna Hrafnsdóttir. Handrit: Tinna Hrafns-
dóttir. Aðalleikarar: Aníta Briem, Edda Björgvinsdóttir,
Jóhann Sigurðsson, Sveinn Geirsson, Benjamín Árni
Daðason, Tinna Hrafnsdóttir og Bergur Ebbi Bene-
diktsson. Ísland, 2022. 106 mín.
JÓNA GRÉTA
HILMARSDÓTTIR
KVIKMYNDIR
Hleðsla – Draumur I er yfirskrift
sýningar sem Eygló Harðardóttir
myndlistarkona opnar í dag,
laugardag, kl. 16 í Gallerí Undir-
göngum við Hverfisgötu 76 í
Reykjavík.
Sýningin samanstendur af röð
málverka sem mynda eina innsetn-
ingu sem unnin er sérstaklega fyrir
sýningarrýmið. Litir verksins, sem
birtast í þremur sextettum, voru
valdir á grundvelli sambands
þeirra hver við annan og út frá
staðsetningu verksins og umhverfi
þess. Eygló hlaut Íslensku mynd-
listarverðlaunin 2019 fyrir einka-
sýningu í Nýlistasafninu.
Sextettar Eygló Harðardóttir vinnur að
myndverkum sem eru á sýningunni.
Eygló sýnir í Gall-
erí Undirgöngum
Vytautas Narbu-
tas opnar sýn-
ingu í Gallerí
Göngum við Há-
teigskirkju í dag,
laugardag, kl.
17. Sýninguna
kallar hann To-
morrow, and to-
morrow, and to-
morrow.“ Á
henni eru ýmis
verk sem hann hefur skapað gegn-
um tíðina. Vytas er frá Litháen en
hefur verið búsettur á Íslandi í 24
ár og er þetta hans sjötta sýning
hér. Í verkum sínum leitast Vytas
við að spyrja hvað búi innra með
okkur – þau vekja spurningar en
jafnframt krefja okkur svara um
tilvist og tilgang lífsins.
Vytautas Narbutas
sýnir í Göngum
Vytautas
Narbutas
Stöðufundur er yfirskrift sýningar
sem verður opnuð í Gerðarsafni í
Kópavogi í dag, laugardag, kl. 15.
Stöðufundi er lýst sem verkefni
sem „veitir innsýn í hugarheim og
væntingar tíu listamanna sem eru í
fararbroddi sinnar kynslóðar“. Um
er að ræða fimm myndlistarmenn
og fimm rithöfunda „sem eru ólíkir
innbyrðis en eiga það sameiginlegt
að hafa í verkum sínum fjallað um
samtímann og stöðu ungs fólks í nú-
tímasamfélagi. Stöðufundur er þó
hvorki samtímaspegill né sögulegt
yfirlit heldur kannski frekar eins
og GIF-skrá sem spilast aftur og
aftur og aftur til eilífðarnóns.“
Myndlistarmennirnir eru Auður
Ómarsdóttir, Björk Viggósdóttir,
Fritz Hendrik IV, Guðlaug Mía Ey-
þórsdóttir og Páll Haukur. Rithöf-
undarnir fimm eru Bergur Ebbi,
Fríða Ísberg, Halldór Armand,
Jakub Stachowiak og Kristín Ei-
ríksdóttir. Sýningarstjórar eru
Kristína Aðalsteinsdóttir og Þor-
valdur S. Helgason. Samhliða kem-
ur út bókverk í takmörkuðu upp-
lagi með verkum þátttakendanna.
Stöðufundur tíu listamanna
Staðan? Verk sem er á sýningu tíumenn-
inganna sem opnuð er í Gerðarsafni í dag.
Á tónleikum í
röðinni „Sígildir
sunnudagar“ í
Norðurljósasal
Hörpu á morgun,
sunnudag, kl. 16
verður boðið upp
á kammertón-
leika með nokk-
uð óvenjulegri
hljóðfæraskipan
og söngkonunni
dáðu Sigrúnu Hjálmtýsdóttur –
Diddú. Fram koma Bryndís Páls-
dóttir og Hildigunnur Halldórs-
dóttir á fiðlur, Herdís Anna Jóns-
dóttir á víólu, Sigurður Halldórsson
á selló og Steef van Oosterhout á
marimbu. Auk Diddúar er gestur
sveitarinnar Sigurður Flosason
saxófónleikari.
Efnisskráin er sögð fjölbreytt og
forvitnileg og ætti að snerta bæði
klassískar taugar og djassaðar. Um
er að ræða kammerverk af ýmsum
toga, flest samin á síðustu fimmtíu
árum. Það eru tónverk og sönglög
eftir Elenu Kats-Chernin, Chick Co-
rea, Jóhann G. Jóhannsson, Stra-
vinsky og Nino Rota.
Fjölbreytileg kammerverk
Sigrún Hjálmtýs-
dóttir - Diddú
ítölsk hönnun – ítölsk framleiðsla
Skeifunni 8 | Sími 588 0640 | casa.is
CASA býður upp á vaxtalausar raðgreiðslur (með Visa / Euro) í allt að 6 mánuði.
ESTRO Model 3042
L 164 cm Leður ct. 25 Verð 439.000,-
L 198 cm Leður ct. 25 Verð 489.000,-