Morgunblaðið - 21.04.2022, Page 58
58 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. APRÍL 2022
SMÁRALIND – KRINGLAN – DUKA.IS
Ø 12 cm 1.690,-
Ø 15 cm 2.490,-
Ø 19 cm 3.590,-
Ø 24 cm 5.490,-
Ø 30 cm 6.990,-
BLÓMAPOTTAR
Endurunnið plast
Framleiddir í Danmörku
„Þetta er rosalega metnaðarfull og
ævintýraleg hátíð,“ segir Harpa Rut
Hilmarsdóttir, verkefnastjóri barna-
menningar hjá Reykjavíkurborg,
um hátíðina Big Bang Festival sem
haldin verður í Hörpu í dag, 21. apr-
íl. Um er að ræða evrópska tónlist-
arhátíð fyrir unga áheyrendur.
Efnisskráin er sögð fjölbreytt og
metnaðarfull og samanstendur af
tónleikum, innsetningum og tónlist-
artengdum smiðjum undir hand-
leiðslu fagfólks í tónlist.
Markmið hátíðarinnar er að auka
aðgengi barna að tónlist. „Þetta eru
tónlistarviðburðir sem eru sér-
staklega hugsaðir fyrir börn. Við er-
um að reyna að gera upplifunina
þannig að þau fái að vera þátttak-
endur. Það er ókeypis inn á allt og
hluti af markmiðinu er að öll börn
geti fengið að upplifa svona metn-
aðarfulla tónlistarviðburði óháð fjár-
hag. Börn eru 25% af þjóðinni og það
er full ástæða til þess að næra þau
sérstaklega og þau er oft miklu opn-
ari en fullorðnir,“ segir Harpa.
Í tilkynningu um hátíðina segir
jafnframt: „Sérstök áhersla er lögð á
tónlistarfólk og tónskáld sem sjá æv-
intýrið í tónlistarsköpun sinni og
vilja leita frjórra leiða til að kynna
tónlist fyrir börnum og deila með
þeim sviðinu.“
Sem dæmi má nefna að hinn
íslenskættaði Dani Rune Thor-
steinsson ætlar að búa til 120 barna
trommuhljómsveit í Grafarholti og
Úlfarsárdal. Hann hélt tónleika við
vatnstankana hjá Ingunnarskóla í
gær og heldur aðra í Hörpu í dag.
„Við nýtum ýmis rými í Hörpu
sem fólk fær venjulega ekki að fara
í, við erum til dæmis inni í búninga-
geymslu óperunnar og einhvers
staðar baksviðs, en líka í stóru al-
mennu rýmunum,“ segir Harpa.
Tónlistarhátíðin var stofnuð árið
2010 af sex evrópskum samstarfs-
aðilum. Árið 2015 hlaut hátíðin hin
virtu EFFE-verðlaun sem veitt eru
framúrskarandi evrópskum menn-
ingarhátíðum. Árið 2018 hlotnaðist
Big Bang fjögurra ára stuðningur á
vegum Creative Europe-áætlunar
Evrópusambandsins. Hátíðin er
haldin í 17 mismunandi borgum í
Evrópu og var Barnamenning-
arhátíð Reykjavíkur boðin þátttaka í
verkefninu 2019. Hátíðin átti að fara
fram á Barnamenningarhátíð 2020
en fer nú loksins fram tveim árum
síðar. Hátíðin verður árleg hér eftir.
ragnheidurb@mbl.is
Spenningur Nokkrir skipuleggjenda barnatónlistarhátíðarinnar Bing Bang
ásamt hópi barna sem eru í hlutverki sérstakra erindreka hátíðarinnar.
Að sjá ævintýrið
í tónsköpuninni
- Barnatónlistarhátíðin Big Bang
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Barnabókaverðlaun Reykjavík-
urborgar voru afhent í Höfða um há-
degi í gær, síðasta vetrardag 20. apr-
íl. Þau eru veitt í þremur flokkum.
Linda Ólafsdóttir hlaut verlaunin í
flokki myndlýsinga fyrir bókina
Reykjavík barnanna. Sverrir Nor-
land hlaut þau í flokki þýðinga fyrir
þýðingu sína á bókinni Eldhugar:
Konurnar sem gerðu aðeins það sem
þær vildu eftir Pénélope Bagieu.
Kristín Helga Gunnarsdóttir var
verðlaunuð í flokki frumsaminna
bóka fyrir bók sína Ótemjur.
Í umsögn dómnefndar um
Reykjavík barnanna eftir Lindu
Ólafsdóttur og Margréti Tryggva-
dóttur segir meðal annars:
„Myndlýsingar Lindu hafa mjög
klassískt yfirbragð, feta vel einstigið
á milli raunsæis og stíliseringar og
dempaðir litirnir gefa heildarverk-
inu fallegan tón. Það er ljóst að til
grundvallar liggur mikil heim-
ildavinna; til að endurspegla sem
best anda hvers tímabils þarf að
huga að öllum smáatriðum, hvort
sem það er í byggingum eða klæðn-
aði fólks.
Linda hefur unnið fagurlega úr
efnivið sínum, mjólkurflöskur úr
gleri í nestistíma, kennari að
skenkja börnum lýsi úr lýsiskönnu
og panell á veggjum skólastofu
fanga vel tíðarandann og segja
merkilega sögu samhliða þeirri sem
kemur fram í textanum. Reykjavík
barnanna er metnaðarfullt sagn-
fræðirit með grípandi og fræðandi
myndum sem höfðar til barna á öll-
um aldri.“
Þetta er í annað sinn sem Margrét
og Linda vinna saman að bók en
Linda hlaut þessi sömu verðlaun fyr-
ir myndlýsingar í fyrri bók þeirra Ís-
landsbók barnanna.
Hlýlegt og lestarhvetjandi
Um þýðingu Sverris Norland á
Eldhugar: Konurnar sem gerðu að-
eins það sem þær vildu segir:
„Á myndasöguformi eru sagðar
þrjátíu sögur af konum sem settu,
hver með sínum hætti, mark sitt á
mannkynssöguna. Konurnar sem
Bagieu kýs að fjalla um eru æði ólík-
ar og Eldhugar er ekki dæmigerð af-
rekskvennabók í þeim skilningi. En
sögur þeirra eru samt sem áður ein-
stakar, þær fjalla um mannlega
reisn og eru sagðar frá hispurslausu
sjónarhorni kvenna og saman
mynda konurnar þrjátíu í Eldhugum
fjölskrúðugan hóp af kvenhetjum frá
ólíkum tímabilum í mannkynssög-
unni, af ólíkum stéttum og frá öllum
heimshornum.
Þýðing Sverris Norland er vand-
lega unnin. Tónninn er bæði hlýleg-
ur og lestrarhvetjandi og fallegur,
handskrifaður textinn eykur þau
áhrif. Stíllinn er hnitmiðaður, mál-
farið fágað og gagnsætt og þýðingin
fellur í alla staði vel að myndasögu-
forminu. Hér er á ferðinni sígilt og
vandað verk sem mun gleðja unga
lesendur um ókomin ár.“
Brýn málefni í víðu samhengi
Um Ótemjur eftir Kristínu Helgu
Gunnarsdóttur segir dómnefnd:
„Ótemjur eftir Kristínu Helgu
Gunnarsdóttur er spennandi saga
þar sem fjallað er um aðkallandi
samfélagsmál. Í forgrunni eru fé-
lagsleg réttindi barna og þörfin fyrir
öryggi, ástúð og umhyggju. Þrátt
fyrir alvarlegt umfjöllunarefni er
frásögnin bæði hröð og leikandi og
Kristín Helga tekst í bók sinni á við
efnið af næmni og frásagnargleði.
Myndin sem teiknuð er upp er langt
frá því að vera svarthvít, persón-
urnar eru hvorki algóðar né alvond-
ar – ekki einu sinni þær sem ítrekað
bregðast skyldum sínum. Um leið er
afstaða höfundar skýr: Öll börn eiga
að njóta bæði verndar og frelsis.
Í bókinni eru þessi brýnu málefni
sett í víðara samhengi, því réttindi
barna snúa ekki síst að rétti þeirra
til að tengjast ósnortinni náttúrunni
og söguna má einum þræði lesa sem
áminningu um að standa jafnframt
vörð um hana.“
Dómnefnd verðlaunanna fékk yfir
hundrað bækur til skoðunar í ár og
voru fimm bækur tilnefndar í hverj-
um flokkanna þriggja. Dómnefndina
skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir,
sem var formaður, Ásmundur Krist-
berg Örnólfsson, Guðrún Lára Pét-
ursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og
Valgerður Sigurðardóttir.
„Sígilt og vandað“
- Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar afhent í gær
- Linda, Sverrir og Kristín Helga voru verðlaunuð
Morgunblaðið/Eggert
Verðlaunahafar Kristín Helga Gunnarsdóttir, Sverrir Norland og Linda
Ólafsdóttir voru kampakát fyrir framan Höfða að lokinni athöfn.
Búgívúgí- og blúspíanó-
leikarinn og -söngvarinn
Ben Waters heldur tón-
leika í Húsi Máls og
menningar, Laugavegi
18, annað kvöld kl. 20 og
fer miðasala fram á vefn-
um Tix.is. Waters hefur
haldið um 250 tónleika á
ári um allan heim og er
um þessar mundir í
hljómsveit Ronnies
Woods (and his Wild
Five), að því er fram
kemur í tilkynningu.
Waters hefur gefið út
plötur og komið fram með liðsmönnum Rolling Stones og er þessa dagana
að vinna að verkefni með Jeff Beck. Hann var einnig um árabil í hljóm-
sveitinni A,B,C, & D of Boogie-Woogie með Charlie Watts heitnum og lék
mikið með Chuck Berry og Jerry Lee Lewis.
Waters til halds og trausts verða Beggi Smári & Bex Band.
Hress Ben Waters leikur á um 250 tónleikum á ári.
Blús og búgívúgí með Ben Waters
Ákveðið var fyrr í vikunni að setja upp á Feneyja-
tvíæringnum í myndlist sérstaka sýningu til stuðn-
ings úkraínsku þjóðinni sem Rússar hafa ráðist á.
Var sýningin sett upp á torgi á aðalsýningarsvæð-
inu, Giardini, en tvíæringurinn verður opnaður í
dag.
Sýningin er meðal annars skipulögð af sýning-
arstjórum úkraínska skálans á tvíæringnum, þar
sem Pavlo Kakov sýnir, en þess má geta að engin
sýning verður í rússneska skálanum og hann lok-
aður.
Listakonan og arkitektinn Dana Kosmina skipulagði sýningarsvæðið á
torginu þar sem fyrirhugað er að skipta reglulega um listaverk meðan á
tvíæringnum stendur. Sýningarstjórar segja listaverkin verða að vitn-
isburði um þrautir og kjark Úkraínumanna.
Sýning til stuðnings Úkraínu
Pavlo Makov, fulltrúi
Úkraínu á tvíæringnum.