Morgunblaðið - 06.05.2022, Síða 13
FRÉTTIR 13Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. MAÍ 2022
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
WHO áætlar að á bilinu 13,3 til 16,6
milljónir manna hafi farist af völdum
kórónuveirufaraldursins á árunum
2020-2021. Er það um þrefalt hærri
tala en opinberar dánartölur hafa
gefið til kynna.
Tedros Adhanom Ghebreyesus,
framkvæmdastjóri WHO, sagði að
gögnin sýndu ekki bara áhrif heims-
faraldursins, heldur einnig þörfina
fyrir öll ríki heims til að fjárfesta í
heilbrigðiskerfum sem gætu staðið
betur af sér slík högg.
Áætlun WHO byggir á dauðs-
föllum umfram það sem vænta hefði
mátt í eðlilegu árferði, ef enginn far-
aldur hefði orðið. Talan inniheldur
því bæði þá, sem létust beint af völd-
um Covid-19-sjúkdómsins, sem og
þá sem létust óbeint vegna áhrifa
faraldursins á heilbrigðiskerfið og
samfélagið. Þá er einnig reiknað
með dauðsföllum sem ekki urðu,
meðal annars vegna þess að minni
líkur voru á að fólk létist í vinnu-
staðaslysum eða umferðarslysum.
Umdeildar tölur
Ef marka má tölurnar felldi
heimsfaraldurinn um einn af hverj-
um 500 manns, en faraldrinum er
ekki enn lokið. Tölurnar þykja hins
vegar viðkvæmar, þar sem lesa má
út úr þeim gagnrýni á það hvernig
stjórnvöld í sumum ríkjum brugðust
við heimsfaraldrinum.
Hafa stjórnvöld á Indlandi til
dæmis gagnrýnt mjög áætlun WHO,
þar sem stofnunin segir að á bilinu
3,3-6,5 milljónir manns hafi farist á
Indlandi, en stjórnvöld þar segja að
481.000 manns hafi farist.
Morgunblaðið/Eggert
Bólusetningar Heimsfaraldurinn
hefur valdið miklum búsifjum.
Dauðsföllin sögð
þrefalt fleiri
- Indverjar ósáttir við aðferðir WHO
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu,
bauð í gær Frank-Walter Stein-
meier, forseta Þýskalands, og Olaf
Scholz Þýskalandskanslara í opin-
bera heimsókn til Kænugarðs. Kom
boðið í kjölfar símtals á milli forset-
anna, sem ætlað var að hreinsa loft-
ið í samskiptum Úkraínu og Þýska-
lands.
Tregða þýskra stjórnvalda til
þess að senda þungavopn hafði
valdið pirringi meðal Úkraínu-
manna, sem töldu Þjóðverja ganga
fulllangt til þess að reita ekki Rússa
til reiði. Hafði sá pirringur meðal
annars leitt til þess að boð Stein-
meiers um að heimsækja Kænugarð
var afþakkað, sem aftur leiddi til
kergju meðal forystumanna í þýska
Sósíaldemókrataflokknum SPD.
Steinmeier hefur hlotið nokkra
gagnrýni frá því að innrásin hófst í
lok febrúar, en hann var utanrík-
isráðherra þegar Rússar innlimuðu
Krímskagann, og hafði meðal ann-
ars lagt til að erjurnar í Donetsk-
og Lúhansk-héruðunum yrðu leyst-
ar með þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt
og þeirri sem haldin var á Krím-
skaga. Þá beitti Steinmeier sér
einnig fyrir lagningu Nord Stream
2-jarðgasleiðslunnar.
Steinmeier hefur viðurkennt að
hann hafi gert mistök með stefnu
sinni gagnvart Rússlandi, og í sím-
talinu í gær lýsti hann yfir „sam-
stöðu, virðingu og stuðningi“ við
Úkraínu. Þá sagði hann að Þjóð-
verjar stæðu einhuga við hlið Úkra-
ínumanna.
„Móðguð lifrarkæfa“
Sættir Steinmeiers og Selenskís
opnuðu einnig leiðina fyrir Scholz til
að heimsækja Kænugarð, en hann
var gagnrýndur í vikunni fyrir að
hafa ekki lagt leið sína til höfuð-
borgar Úkraínu til að sýna sam-
stöðu sína.
Þótti það ekki síst neyðarlegt í
ljósi þess að Friedrich Merz, leið-
togi kristilegra demókrata og
stjórnarandstöðunnar, heimsótti
Kænugarð fyrr í vikunni, en Scholz
sagði þá að hann vildi ekki heim-
sækja Úkraínu fyrr en búið væri að
greiða úr deilum Úkraínumanna við
Steinmeier vegna heimboðsins af-
þakkaða.
Sú afstaða var einnig gagnrýnd
og sagði Andrí Melník, sendiherra
Úkraínu, að það væri ekki merki
um að stjórnskörungur væri á ferð-
inni þegar hann hegðaði sér eins og
„móðguð lifrarkæfa“, (þ. beleidigte
Leberwurst), en það er þýskt
tungutak yfir einstakling sem
móðgast auðveldlega.
„Þetta er grimmilegasta útrým-
ingarstríð sem háð hefur verið frá
innrás Nasista í Úkraínu. Þetta er
ekki leikskóli,“ sagði Melník enn
fremur og hvatti þýsk stjórnvöld til
þess að uppfylla sem fyrst ákvæði
þingsályktunar sem samþykkt var í
síðustu viku, um að Þýskaland
myndi flýta sendingum á þunga-
vopnum til Úkraínu.
Í síðustu viku var greint frá því
að Þjóðverjar myndu senda Gep-
ard-loftvarnadreka til Úkraínu, auk
þess sem ríkisstjórnin íhugar að
senda sjö Panzerhaubitze 2000-
bryndreka til landsins. Þeir eru
búnir öflugum hábyssum (e. Howit-
zer) sem geta hitt skotmörk allt að
60 kílómetra í burtu, og eru auk
þess á beltum, sem gefa byssunum
mikinn hreyfanleika.
Hábyssurnar yrðu því öflug við-
bót í vopnabúr Úkraínumanna, sér í
lagi þar sem þeir leggja nú áherslur
á að fá öflugar fall- og hábyssur til
þess að berjast á móti stórskotaliði
Rússa í Donbass-héruðunum.
Reyna brottflutning aftur
Úkraínumenn sökuðu í gær
Rússa um að hafa gengið á bak orða
sinna um þriggja daga vopnahlé við
Asovstal-stálverksmiðjuna í Maríu-
pol, en tilgangur þess var að
tryggja að óbreyttir borgarar gætu
flúið þaðan.
Sameinuðu þjóðirnar og Rauði
krossinn sendu fólksflutningabíla til
borgarinnar í gær, og var vonast til
að bílalestin myndi flytja þá
óbreyttu borgara sem enn væru
staddir í verksmiðjunni á brott í
dag. Borgaryfirvöld í Maríupol
áætla að enn séu um 200 óbreyttir
borgarar í verksmiðjunni, en 101
var fluttur þaðan á þriðjudaginn.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti
sagði í gær að rússneski herinn
væri enn til reiðu búinn að leyfa al-
menningi að yfirgefa stálverksmiðj-
una. Sagði Pútín í símtali við Naftali
Bennett, forsætisráðherra Ísraels
að óbreyttir borgarar myndu fá að
fara, en þeir hermenn sem enn
væru til staðar yrðu að gefast upp.
Ísraelska forsætisráðuneytið
greindi frá því eftir samtal leiðtog-
anna að Pútín hefði beðið Bennett
afsökunar á ummælum Sergei
Lavrov, utanríkisráðherra Rúss-
lands, sem lýsti því yfir í byrjun
vikunnar að Adolf Hitler kynni að
hafa haft „gyðingablóð“, og að gyð-
ingar væru oft sjálfir mestu gyð-
ingahatararnir.
Ræddu leiðtogarnir minningu
Helfararinnar gegn gyðingum og
lýstu yfir áhuga á að þróa áfram
„nytsamleg“ samskipti milli leiðtog-
anna.
Stríðið hafi dregist á langinn
Alexander Lúkasjenkó, forseti
Hvíta-Rússlands og einn helsti
bandamaður Pútíns, viðurkenndi í
gær að stríðið hefði „dregist á lang-
inn“, en hann ræddi þá við AP-
fréttastofuna. Lúkasjenkó varði
hins vegar Pútín og sagði hann ekki
hafa átt annarra kosta völ en að
ráðast inn í Úkraínu vegna „ögr-
ana“ Úkraínumanna.
Sagði Lúkasjenkó að hann væri
að gera allt sem hann gæti til að
stöðva átökin og þvertók fyrir að
heræfingar sem hvítrússneski her-
inn hóf í vikunni væru yfirskin fyrir
þátttöku Hvít-Rússa í innrásinni.
„Við ógnum engum og við munum
ekki ógna neinum,“ sagði Lúkasj-
enkó og bætti við að það væri ekki í
hag hvítrússneska ríkisins að hefja
átök. „Þannig að vesturveldin geta
sofið rótt.“
Fá heimboð til Kænugarðs
- Sögulegar sættir milli Steinmeiers og Selenskís - Scholz og Steinmeier boðið í opinbera heimsókn
- Pútín bað Ísraelsmenn afsökunar á ummælum Lavrovs - Segir Hvít-Rússa ekki hyggja á innrás
AFP/Sergei Supinsky
Flak Úkraínskur hermaður virðir fyrir sér flak flutningavélarinnar Mríja á flugvellinum í Hostomel. Mríja var af
gerðinni Antonov An-225, og var á sínum tíma stærsta flugvél í heimi miðað við vænghaf, en það var 88 metrar.
FORNUBÚÐIR 12, HAFNARFIRÐI | S: 555 0800 | SIGN@SIGN.IS
WWW. S IGN . I S