Morgunblaðið - 06.05.2022, Síða 16
16 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. MAÍ 2022
Lítið hefur verið
fjallað um skipulags-
stöðu borgarlínu sem
er ekki góð og áhrif
hennar óviss. Svæð-
isskipulag höfuðborg-
arsvæðisins sýnir ekki
legu hennar, aðeins
hluti hennar er sýndur í
aðalskipulagi Reykja-
víkur, í aðalskipulagi
Kópavogs og Garða-
bæjar er hún aðeins
sýnd eftir Hafnarfjarð-
arvegi og hvergi í að-
alskipulagi Hafnar-
fjarðar eða Mosfells-
bæjar. Afgangurinn er
aðeins línur á blaði í
skýrslum um borg-
arlínuna. Skipulag
borgarlínu uppfyllir
ekki kröfur til aðal-
skipulags að liggja fyr-
ir í heild sinni sem
áætlun þar sem fjöl-
margir samfélags-
þættir eru lagðir til
grundvallar. Aðal-
skipulag skal auglýsa, taka afstöðu til
athugasemda og hvort gera skuli
breytingar á því. Eftir staðfestingu
Skipulagsstofnunar er það lögbind-
andi. Skipulag borgarlínu hefur ekki
hlotið lögboðna meðferð sem heild.
Í umhverfismati svæðisskipulags
höfuðborgarsvæðisins og aðal-
skipulags Reykjavíkur er nokkuð
fjallað um áhrif borgarlínu, en minna
í aðalskipulagi Kópavogs og Garða-
bæjar. Nær eingöngu er fjallað um
áhrif bílaumferðar á loftmengun, en
samkvæmt lögum um umhverfismat
skal meta áhrif skipulags í heild, m.a.
á íbúa, heilbrigði, landslag, jarðveg,
loftslag og efnisleg verðmæti. Í þessu
felst náttúrulegt og byggt umhverfi,
ásýnd, félagslegt umhverfi, fjárhags-
legt og hagrænt umhverfi. Flest af
þessu vantar í umhverfismat borg-
arlínu og hvergi er fjallað um heildar-
áhrif af henni.
Áhrif á loftslag
Í umhverfismatinu er talið að bíla-
umferð og loftmengun muni minnka.
Loftmengun mun þó hvort eð er
minnka með aukinni notkun rafbíla.
Allir armar borgarlínu liggja að mið-
borginni og líklegt er að notkun henn-
ar miðist mest við ferðir þangað til og
frá vinnu og skóla kringum kl. 9 og
16. Skrifstofustörfum og þjónustu- og
afgreiðslustörfum í miðborginni mun
enn fækka með aukinni tölvuvæðingu
og fjarvinnu og undirlag fyrir borg-
arlínuna minnka.
Umferðarkerfi eru þjónustukerfi
sem flytja fólk til og frá vinnu, til inn-
kaupa, þjónustu, náms og fleira.
Borgarlínan hentar ekki vel fyrir all-
ar þessar ferðir. Reynslan sýnir að
fólk gengur almennt ekki lengra en
200 metra að biðstöðvum og finnst
neikvætt að skipta um vagn. Það tek-
ur því tæplega strætó til að komast í
borgarlínuna. Auk þess er ekki auð-
velt að fara milli strætisvagna og
borgarlínu með innkaupapoka og
börn í leiðinni og ekki verður allt leyst
með verslun á netinu. Fyrirtæki
flytja hráefni, vörur og fleira og borg-
arlína hentar ekki heldur fyrir þær
ferðir. Í forsendum borgarlínu er
reiknað með að 12%
samgangna á höf-
uðborgarsvæðinu fari
um hana. Það er ofmet-
ið, langmestur hluti
ferða með henni verður
til og frá sjálfri mið-
borginni, sem er aðeins
lítill hluti allra ferða á
höfuðborgarsvæðinu.
Samgönguskipulag á
að miða að því að skapa
rýmd í kerfinu, forðast
þrengsli og umferðar-
teppur og bæta aðgengi.
Borgarlína mun aftur á
móti þrengja að götum
og auka umferðarteppur
með aukinni mengun.
Það kemur ekki fram í
umhverfismatinu. Óvíst
er hvort umferð bíla
muni minnka og áhrif
borgarlínu á loftslag eru
óviss.
Við umhverfismat á
samgönguleiðum þarf
einnig að skoða áhrif á
þá sem ferðast eftir
þeim. Með borgarlín-
unni á að setja Miklu-
braut í stokk eða jarð-
göng á 1,5 km kafla. Þar eru meiri
líkur á mengun, ökumenn og farþeg-
ar horfa aðeins á veggi og áhrifin
yrðu þau sömu og að aka Hvalfjarð-
argöngin, sem engum finnst víst já-
kvæð upplifun.
Rask af framkvæmdum
Mikið rask verður þar sem byggð á
að víkja. Í Ártúnshöfðanum þarf t.d.
að kaupa og rífa iðnaðarhúsnæði sem
margt er heilt og í fullri notkun. Af
niðurrifi húsanna hlýst loftmengun
og kolefnislosun, farga þarf bygging-
arefninu, sem er líklega mengað,
hreinsa mengaðan jarðveg og farga.
Skipta þarf um jarðveg í breyttu
gatnakerfi og flytja allar lagnir með
tilheyrandi kolefnislosun. Umhverfis-
áhrifin eru hér verulega neikvæð.
Fjárhagslegur ávinningur af nýbygg-
ingum lendir á höndum verktaka og
fjárfesta og ólíklegt er að þeir fari í
slík verkefni án verulegs hagnaðar.
Íbúðarverðið verður tæplega í lægri
kantinum og ekki er víst að tekjulítið
fólk hafi efni á húsnæðinu. Félagsleg
áhrif verða því hugsanlega neikvæð.
Niðurstaða
Skipulag borgarlínu í heild sinni er
án lögbundinnar stöðu, það uppfyllir
ekki skilyrði þess að kallast aðal-
skipulag og hefur ekki hlotið lög-
boðna meðferð. Það er sett fram í
bútum í aðalskipulagi sveitarfélag-
anna án þess að allir hlutar þess séu
sýndir í neinu þeirra og íbúum hefur
aldrei gefist kostur á að tjá sig um
það í heild sinni né afleiðingar þess.
Notkun þess, arðsemi og áhrif þess
að draga úr notkun einkabílsins virð-
ast mjög ofmetin. Ekki hafa öll áhrif á
samfélagið verið metin eða sýnt fram
á jákvæð umhverfisáhrif og það þarf
verulega auknar rannsóknir á heild-
aráhrifum borgarlínunnar. Skipulag
má ekki setja fram í bútum með óljós-
um áhrifum, heldur þarf það að vera
birt íbúum í heild sinni með fullunnu
umhverfismati. Borgarlínuskipulagið
uppfyllir það ekki og er því aðeins
hálfklárað í núverandi mynd.
Hálfklárað skipulag
borgarlínu
Eftir Bjarka
Jóhannesson
» Skipulag
borgarlínu í
heild sinni er án
lögbundinnar
stöðu, það upp-
fyllir ekki skil-
yrði þess að kall-
ast aðalskipulag
og hefur ekki
hlotið lögboðna
meðferð.
Bjarki Jóhannesson
Höfundur er skipulagsfræðingur.
Rússar viður-
kenndu sjálfstjórn
Luhansk og Donetsk í
byrjun þessa árs. Árið
1999 stóðu Serbar í
sporum Úkraínu-
manna, þegar Albanir
í Kósóvó-hjeraði lýstu
yfir sjálfstæði. Serb-
nesk stjórnvöld
brugðust við til að
varðveita einingu rík-
isins. Af hlutust
hrottaleg átök og morðvíg. Þrátt
fyrir fátkennd afskipti Evrópusam-
bandsins lauk þeim ekki fyrr en
Bandaríkin beittu sjer fyrir hern-
aðaríhlutun NATO. Samkvæmt þá-
gildandi samþykktum bandalagsins
var aðgerðin ekki heimil. Fram að
þessu hafði bandalagið verið
varnarbandalag vestrænna þjóða,
en breyttist nú í hreinræktað
hernaðarbandalag. Að loknum
kosningum í Kósóvó í boði banda-
lagsins varð hjeraðið sjálfstætt ríki.
Síðan hefur NATO verið beitt til
árása á Afganistan og Líbíu og „hin
viljugu“ ríki herjað í Írak, allt lönd-
um utan Evrópu. BNA og NATO
hafa borið hróður Vesturveldanna á
vettvangi þjóðanna í afkastamikilli
eyðileggingu þessara landa og
tæknivæddum morðvígum sem
raunar tekur fram framferði Rússa
í Tjetseníu og Sýrlandi og nú í
Úkraínu.
Fljótlega eftir fall Sovjetríkjanna
leystist Varsjárbandalagið upp.
Friðarsinninn Gorbasjof bannaði
valdbeitingu til að halda saman
hrynjandi Sovjetríkjum, treysti fyr-
irheitum um, að NATO kæmi ekki
upp herstöðvum í ríkjum Varsjár-
bandalagsins, enda hafði hann fall-
izt á sameiningu Þýzkalands upp á
þau fyrirheit.
Einar forsetakosningar vestan
hafs þurfti til að þetta liði hjá. Árið
1999 gengu Pólland, Tjekkneska
sambandsríkið og Ungverjaland í
NATO. Eistland, Lett-
land og Lithaugaland,
Rúmenía og Búlgaría
gengu í hernaðar-
samtökin árið 2004 í
boði Bandaríkjanna.
Rússar ljetu þetta yfir
sig ganga, enda við ær-
in verkefni að etja
heima fyrir.
Á fundi NATO-
ríkjanna í Búkarest
hinn 3. apríl árið 2008
bauð Bandaríkjaforseti
Albaníu og Króatíu að-
ild og fagnaði áhuga Úkraínu og
Georgíu á að eignast hlutdeild í
Vesturevrópska ríkjabandalaginu
og inngöngu í NATO. Frakkar og
Þjóðverjar mölduðu í móinn, en
þrátt fyrir það var þeim boðuð að-
ild.
Viðbrögð Rússa voru skýr: Pútín
kallaði þessa aðgerð NATO beina
ögrun við öryggi Rússlands.
Örvaðir af hinu nýja vinfengi af-
námu Georgíumenn heimastjórn
Suður-Ossetíu, sjálfstjórnarhjeraðs
þjóðarminnihluta innan Georgíu, og
rjeðust á þá. Rússar brugðust við
með því að viðurkenna sjálfstæði
Suður-Ossetíu og Abkasíu. Úkraína
fór sjer hægt að sinni.
Bylting var gerð í Úkraínu í
febrúar árið 2014. Aðdragandinn
var sá, að Evrópusambandið bauð
fúlgur fjár til endurreistar landsins.
Rússar lögðu til alþjóðlegt átak í
þessu skyni með aðkomu sjálfra sín
og hjetu háum lánum. Hinn 21.
nóvember 2013 afþakkaði Janúkó-
vits Úkraínuforseti lán Evrópusam-
bandsins. 1. desember hófust upp-
þot gegn ríkisstjórn landsins. 17.
desember bauð Pútín 15 milljarða
dollara lán.
22. janúar 2014 urðu uppþot í
Kænugarði. Mannfall varð. Í febr-
úarmánuði drápu leyniskyttur um
sjö tugi manna í Kænugarði. Rúss-
um var kennt um manndrápin. Í
ljós kom síðar, að úkraínskir
aðgerðasinnar myndu hafa staðið
að þeim. Þetta mun utanríkis-
ráðherra Eista hafa staðfest. Varð
þá hljótt um ásakanir um hríð. Á
sama ári brenndu úkraínskir aðger-
ðasinnar, kenndir við Azov, tugi
manna inni í Odessa. Enginn hefur
fylgt þeim glæp eftir. Hins vegar
bauð forsetinn, að flýtt yrði for-
setakosningum. Yrðu þær haldnar í
maí. Valdarán varð í landinu og
forsetinn flúði land hinn 22. febr-
úar.
Bráðabirgðastjórn, sem þingið
kaus, tók við stjórn landsins. Var
skammt að bíða þess, að látið var
til skarar skríða gegn Rússum í
austurhjeruðum landsins sem notið
höfðu heimastjórnar um ýmis mál-
efni svo sem sveitarstjórn og skóla-
mál. Stjórnarskrá landsins var
breytt og heimastjórn þeirra af-
numin. Þetta gerðist í maí. Síðan
2014 hafa Azov-liðar barið á Rúss-
um í Luhansk og Donetsk. Rúss-
neskir aðgerðasinnar með stuðningi
Rússa hafa svarað í sömu mynt.
Stríð hefur staðið þarna æ síðan.
Friðarsamningunum frá Minsk var
aldrei fylgt eftir.
Hinn 7. marz höfðu íbúar Krím-
skaga kosið um það, hvort þeir
vildu heldur vera hluti Rússlands
eða Úkraínu. Þorri kjósenda vildi
vera Rússar. Daginn eftir samein-
aðist Krím Rússlandi á ný.
Íslendingar studdu sjálfsákvörð-
unarrjett Eista, Letta og Litháa til
sjálfstæðis; höfðu vitaskuld áður
stutt Albanina í Kósóvó til hins
sama.
Eru Rússarnir á Krím og í
austurhjeruðum Úkraínu óverðugri
til þess að ráða sjer sjálfir en þeir?
Til upprifjunar
Eftir Geir Waage
Geir Waage
» Viðbrögð Rússa voru
skýr: Pútín kallaði
þessa aðgerð NATO
beina ögrun við öryggi
Rússlands.
Höfundur er pastor emeritus.
Eitt af stærstu sam-
félagslegu verkefnum
næstu ára er að búa
vel að eldra fólki.
Málefni eldri borg-
ara í Fjarðabyggð eru
mikilvægur grunnur
að sterku og blómlegu
samfélagi. Á kjörtíma-
bilinu hófst stefnu-
mótun um málefni
aldraðra, enda teljum
við nauðsynlegt að móta skýra
framtíðarsýn í málaflokknum og
vinna markvisst að framþróun á
breiðum vettvangi sem snýr að því
að auka lífsgæði eldri borgara.
Stefnan verður að vera lifandi og
taka mið af samfélagslegri þróun og
þörfum íbúa hverju sinni. Mikil-
vægt er að vinna stefnumótunina í
samvinnu við eldri borgara, þannig
að áhersla í þjónustu sé í takt við
þarfir og óskir þeirra sem hana
nota.
Þjóðin er að eldast og brýnt að
stefnumótun og undirbúningsvinna
taki mið af því. Samkvæmt tölum frá
Hagstofu Íslands árið 2020 var hlut-
fall landsmanna 65 ára og eldri
14,4%. Hlutfall eldra fólks í Fjarða-
byggð er í takt við landið allt. Hag-
stofa Íslands hefur gefið út miðspá
um mannfjölda Íslendinga til fram-
tíðar og ef spár ganga eftir verður
hlutfall landsmanna 65 ára og eldri
orðið 25% árið 2064.
Á síðasta ári sagði Fjarðabyggð
upp samningi við SÍ um rekstur
hjúkrunarheimilanna Uppsala og
Hulduhlíðar. Það var gert
í kjölfar árangurslausra
viðræðna við ríkisvaldið
vegna viðvarandi halla-
reksturs hjúkrunar-
heimila sem sveitarfélag-
ið sat uppi með. Við þessi
skil stendur eftir að
Fjarðabyggð hefur greitt
um 270 milljónir með
þeim rekstri. Bæjaryfir-
völdum í Fjarðabyggð
þótti miður að þurfa að
fara í þessar aðgerðir, en
skýringin er sú að dag-
gjöldin sem standa eiga
undir rekstrinum endurspegluðu
ekki raunverulegan kostnað og ekki
var vilji hjá ríkisvaldinu til að koma
á móts við Fjarðabyggð vegna
þessa, en heilbrigðismál eru á forsjá
ríkisins. Í Fjarðabyggð er engu að
síður enn þörf á hjúkrunarrýmum
og þörfin á bara eftir að aukast.
Fjarðalistinn hefur barist fyrir því
að ríkið uppfylli þá þörf og það mun-
um við halda áfram að gera þar til
öllum eldri borgurum í Fjarðabyggð
býðst sú þjónusta sem ríkinu er ætl-
að að veita. Fólk á að hafa val um
búsetu óháð aldri og þjónustuþörf-
um og það er mikilvægt að ríkis-
valdið dragi ekki úr tækifærum
fólks til að eldast í heimabyggð.
Til þess að búa vel að öldruðum
þarf að bjóða upp á búsetuform við
hæfi hvers og eins með einstaklings-
miðaðri þjónustu. Aukin uppbygg-
ing á húsnæði hefur sjaldan verið
mikilvægari og þá sérstaklega þeg-
ar litið er til framboðs á húsnæði
sem hentar eldri kynslóðum. Lögð
verður áhersla á að fjölga litlum og
meðalstórum íbúðum. Auka þarf úr-
ræði sem stuðla að því að eldra fólk
geti búið sem lengst heima og það
er gert til dæmis með rekstri á
dagdvalar/dagþjónustu í samvinnu
við ríkið. Dagdvöl er stuðnings-
úrræði fyrir eldra fólk sem býr í
heimahúsum en þarf á meiri þjón-
ustu og stuðningi að halda. Við telj-
um einnig brýnt að auka aðgengi að
velferðartækni, bæði í þjónustu og
inni á heimilum eldri borgara.
Tekjuviðmið og afsláttur eldri
borgara og öryrkja af fasteigna-
skatti var hækkaður svo um munar
á kjörtímabilinu. Einnig er nú í
fyrsta sinn boðið upp á garðslátt og
snjómokstur fyrir þann hóp og er
sú þjónusta gjaldfrjáls fyrir tekju-
lág heimili.
Við eigum og verðum að byggja
upp samfélag þar sem er gott að
eldast. Við í Fjarðabyggð erum svo
lánsöm að hér býr fjölbreyttur hóp-
ur eldri borgara og mikilvægt að
við sníðum þjónustuna með það fyr-
ir augum. Við ætlum áfram að
skapa öldruðum fjölbreytt tækifæri
til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Eftir Hjördísi
H. Seljan
Þóroddsdóttur
»Mikilvægt er að
vinna stefnumót-
unina í samvinnu við
eldri borgara, þannig að
áhersla í þjónustu sé í
takt við þarfir og óskir
þeirra sem hana nota.
Hjördís H. Seljan
Þóroddsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrúi og skipar
2. sæti Fjarðalistans – lista félags-
hyggjufólks í Fjarðabyggð.
hjordisseljan@gmail.com
Það á að vera gott
að eldast í Fjarðabyggð
ÞÚ FINNUR ALLT Á FINNA.IS
VANTAR ÞIG
PÍPARA?