SÍBS blaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 13

SÍBS blaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 13
13 2. tbl. 2022 „Þegar ég byrjaði að vinna með offituna fór ég smám saman að sjá hvernig sá vandi spannar í rauninni allt sviðið,“ segir Erla Gerður um aðferðafræðina. „Á þeim tíma snerist meðferð offitu mest um mataræðið og hreyfinguna. Fólk var hvatt til að borða minna og hreyfa sig meira. Það væri ekki mikið flóknara en það. En augu okkar hafa verið að opnast fyrir því að dæmið er þvertámóti afar flókið. Það eru svo gríðarlega öflug kerfi sem stýra orkubúskap líkamans og svo margt sem hefur áhrif á hann. Erfðir, hormónin, svefninn, líkamsklukkan, þarmaflóran, uppeldisáhrif, venjur – já, allt það sem mótar okkur á lífsleiðinni. Auðvitað þurfum við að hafa jafnvægi í næringunni og borða fjölbreyttan hreinan mat sem næst upprunanum. Það er allt þetta gervifæði sem er svo slæmt ef þess er neytt í óhófi og því miður er það uppistaðan í matar- æði margra. En ef við borðum náttúrlegt fæði og sleppum „draslinu“, þá getum við haft það nokkurn veginn alveg eins og við viljum, lágkolvetna, grænmetisfæði eða hvað hentar okkur best. Vísindasamfélagið hefur skoðað heilmikið hvað er í matnum sem við setjum ofan í okkur og við höfum líka skoðað hvernig líkaminn vinnur úr næringar- og orkuefnum á mismunandi hátt en svo kemur alveg heill kafli þarna á milli sem er þarmaflóran og getur breytt þessari mynd á marga vegu og það er spennandi kafli út af fyrir sig. Ef við horfum svo á hreyfinguna og þá hugmynd að við þurfum bara að hreyfa okkur nógu mikið til að léttast, þá reynist það alls ekki vera þannig. Vissulega er hreyfing okkur nauðsynleg til þess að efla styrk og þol og stuðlar að betra jafnvægi í líkamanum á marga vegu, en við erum ekki að hreyfa okkur í þeim tilgangi að léttast. Líkaminn grípur til mótvægisaðgerða ef mikið ósamræmi kemur upp og þannig eru það ekki hitaeiningar inn og út sem hægt er að mæla. Mikilvægt er að við finnum hreyfingu sem hentar okkur á hverjum tíma og hreyfingu sem er það skemmtileg að við getum hugsað okkur að iðka hana til langtíma. Svo má ekki gleyma öllum litlu tækifærunum til hreyfingar í daglegu lífi, nota stigana, teygja reglulega úr sér og fjölga skrefunum í daglegu amstri. Það munar um öll þessi aukaskref og svo fer auðvitað hreyfing í náttúrunni sérstaklega vel með okkur.“ *** Þar sem áhrif mataræðis og hreyfingar dugðu ekki til að með- höndla offitu leitaði Erla Gerður að öðrum þáttum og athyglin beindist fljótt að svefninum. „Ég fór að skoða hvað svefninn er okkur mikilvægur og hvað margt er að gerast í líkamanum á meðan við sofum; hverju við erum að missa af ef við virðum ekki svefninn okkar. Þar skiptir miklu að við séum í takti við líkamsklukkuna. Ef við vinnum á móti henni þá er hætt við að við lendum í basli með heilsuna. Ef við vinnum með henni þannig að hún lætur öll kerfin vinna í samræmi þá erum við á miklu betri stað með allt saman. En líkamsklukkan tifar ekki fullkomlega eins hjá öllum og hún er misviðkvæm. En það eru ákveðin viðmið sem gilda fyrir flesta. Það er sem sé aðeins misjafnt hvenær hentar fólki að fara að sofa og hve lengi hver einstaklingur þarf að sofa en svefngæðin þurfa alltaf að vera góð. Líkt og með mataræðið og hreyfinguna þarf jafnvægi og meðalhóf varðandi svefninn. Bólgukerfin ræsast til dæmis ef við sofum of lítið og líka ef við sofum of mikið. Það getur vissulega verið kúnst að finna út úr þessum hlutum fyrir okkur sjálf en ef við erum ekkert að hugsa um þessi atriði getur það gert okkur erfitt fyrir– ekki síst þegar árin færast yfir.“ Þú talar mikið um alls konar kerfi; hvað eru mörg kerfi í gangi í líkamanum? „Það veit ég ekki,“ segir Erla Gerður og hlær. „Og ég held að það séu alltaf að finnast fleiri og fleiri, allavega er alltaf að koma fram ný vitneskja um hvernig þau vinna saman. Varð- andi offituna þá eru heilinn og taugakerfið, meltingarkerfið og efnaskiptakerfið í aðalhlutverki en svo koma önnur líka við sögu til dæmis ónæmiskerfið. En það má segja að grunn- kerfið sé ósjálfráða taugakerfið, það ræður gífurlega miklu og þekkingin á því fer hratt vaxandi. Hvað það er sem að truflar kerfið og hvað getur sefað það og haldið því í jafnvægi. Þar er sífellt að koma meira inn austræna læknisfræðin og alls konar aðferðir sem verða betur viðurkenndar þegar þær hafa verið rannsakaðar með okkar vestræna vísindalega hætti. Þetta er svo merkilega samtvinnað, til dæmis er öndunin það sem er sameiginlegt með viljastýrðu og ósjálfráðu kerfunum. Við öndum sjálfkrafa, þurfum ekki að hugsa um hvern andardrátt, en við getum líka stýrt önduninni. Þar koma til þessar gömlu austrænu öndunaræfingar tengdar jógafræðunum. Þær má nota með góðum árangri fyrir heilsuna. Og þar með komum við inn á fjórða hornsteininn, hugarró sem hefur þó ekki ekki fengið nógu mikla athygli að mínu mati. En það er þörf okkar fyrir öryggi, ró, traust og tengsl við aðrar manneskjur. Það er allt það sem tengist andlegri líðan, eða streitunni sem getur bæði verið jákvæð og neikvæð. Í því kerfi er neikvæða streitan birtingarmynd ójafnvægis. Varð- andi offituna er til dæmis ljóst að þegar búið er að raska þeim kerfum þá getur líkaminn stillt sig inn á fitusöfnun til varnar, líklega vegna þess að hungur hefur ávallt verið ein af helstu hættum sem að okkur mannverunum hafa steðjað. En þegar offita er orðin sjúkdómur þá er ekki góð hugmynd að bara borða minna og hreyfa sig meira vegna þess að það ræsir streitukerfin enn frekar og veldur meiri fitusöfnun. Það stækkaði síðan sjóndeildarhringinn þegar við fórum að skilja hvað áföll hafa mikil áhrif á heilsuna og geta valdið röskun og breytingum í grunnkerfunum sem geta síðan komið fram í margskonar myndum. Til dæmis lægri verkjaþröskuldi sem er einn af þáttunum í tilurð á vefjagigt. Þar getum við sagt að sé eins og magnari hafi verið stilltur of hátt í heil- anum og valdi verkjum við áreiti sem við ættum ekki að nema. Þarna geta líka orðið breytingar sem fá líkamann til að safna fitu. Þannig að gömul áföll geta átt þátt í offitu og ótal öðrum langvinnum sjúkdómum. Það er engin tilviljun að margir þessara sjúkdóma vilja gjarnan fylgjast að. Mér fannst mjög merkilegt á sínum tíma þegar ég lærði að það væri samhengi á milli áfalla í æsku og heilsubrests síðar á ævinni. Ef fólk lendir í alvarlegum lífsbreytandi atburðum, hvort sem það eru slys, kynferðisleg misnotkun, hamfarir og annað slíkt. En það sem var svo enn meiri uppgötvun fyrir mig var að það sem gæti valdið slíkum röskunum væri það sem gerðist ekki. Það er vanrækslan, skortur á öryggi, stuðn- ingi, trausti, já, öllu þessu sem myndar fjórða hornsteininn okkar. Ef þessu er ekki sinnt og vantar þá breytist hreinlega lífeðlisfræði heilans og alls kerfisins. Það skiptir sem sé afar miklu máli í meðferð við offitu að taka þetta með í allri okkar nálgun. Fyrsta skrefið í meðferð offitu er að koma jafnvægi á kerfi líkamans, láta þau vinna í eins miklu jafnvægi og hægt er og finna hvaða aðstoð þau þurfa. Þegar þetta jafnvægi er komið er hægt að nýta þau sértæku úrræði sem í boði eru svo sem lyfjameðferð eða skurðaðgerð.“ ***

x

SÍBS blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SÍBS blaðið
https://timarit.is/publication/1222

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.