SÍBS blaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 14
14
SÍBS-blaðið
Hvernig hafa allar þessar pælingar virkað á þig sjálfa? Hefur
þú ekki þurft að prófa hlutina á sjálfri þér?
„Jú, það er alveg nauðsynlegt. Ég reyni að passa vel upp
á sjálfa mig, en auðvitað er ég ekki til fyrirmyndar í öllu. Ég
reyni að borða hollan hreinan mat sem næst upprunanum. Ég
var alin upp í sveit í nánum tengslum við náttúruna og tel mig
búa að því. Mér þykir mikilvægt að halda góðri reglu á matar-
æðinu, það er það fyrsta sem maður gerir ef vinna þarf með
mataræðið að koma reglu á það. Það er mjög erfitt að tjónka
við heilann ef það er í rugli. Og ég reyni að passa vel svefn-
inn minn og þar er reglufestan einnig mjög mikilvæg. Hvað
varðar hreyfinguna er ég þannig gerð að þurfa alltaf að hafa
einhvern tilgang með henni. Þá er gott að eiga hund og stóran
garð að hugsa um, en ég fer einnig í gönguferðir í góðra vina
hópi. Ég hef aldrei fundið mig í líkamsræktarsölunum eða
einhverju slíku.
Streitupakkinn hefur reynst mér erfiðastur og ég hef þurft
að reka mig á alls konar atriði hvað hann varðar. Það sem ég
hef einkum þurft að læra er að slaka á. Ég er alin upp í því
að vinna sé dyggð og ég er líklegast það sem einhverjir kalla
vinnualki. Ég vinn iðulega eins mikið og ég get, enda er ég svo
heppin að heilsutengd málefni eru mitt helsta áhugamál. Ég
hef ekki verið nógu dugleg að taka pásur inn á milli, hreinlega
ekki gert það fyrr en ég hef neyðst til þess. Í seinni tíð er ég
þó farin að passa meira upp á að hafa jafnvægi
Ég á góða vinkonu sem hefur leiðbeint mér og eitt af
þeim verkfærum sem ég hef notað og hefur strítt gegn mínu
grunngildi í vinnuseminni er að púsla. Það þýðir í mínum huga
að gera ekkert gagnlegt og að eyða tíma mínum í eitthvað
algjörlega þarflaust. Þetta reyndist mikil áskorun fyrir mig.
Það fylgdi því mikil streita í upphafi og ég þurfti virkilega að
læra að gera þetta. Núna er ég samt komin upp á lag með
þetta og í dag er púslið mitt jóga. Ég finn hvernig það endur-
nærir kerfið mitt og á orðið mörg púsl inni í skáp sem ég dreg
fram þegar á þarf að halda. Ég er líka mikið í garðrækt, fæ
mikla slökun í henni, meira að segja við það að reyta arfa sem
svo mörgum þykir hundleiðinlegt. Ég elska að reyta arfa og
hlúa að plöntunum. Ég tel okkur sem þjóð hafa vanrækt mjög
þessa andlegu hlið. Við þurfum að vinna betur í því að læra
að slaka á og njóta stundarinnar og rækta tengsl við okkar
nánustu. Það er fjórða stoðin fyrir góðri heilsu sem væri svo
gott að fengi meiri áherslu nú um stundir. Við sjáum enda
glöggt hvert við stefnum. Við erum alveg að keyra okkur í kaf
í neikvæðri streitu, ekki síst innri streitu með miklum kröfum
sem við gerum á okkur sjálf. En við getum snúið þessu við.“
***
Sem fyrr segir hefur Erla Gerður um langt árabil einkum
starfað sem sérfræðilæknir í offitumeðferð og auk einstak-
lingsmeðferða staðið fyrir fjölda námskeiða og flutt ótal
fyrirlestra um það efni. Núna hefur hún svo verið ráðin í nýtt
kvenheilsuteymi á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis-
ins. „Þetta er ákaflega spennandi tækifæri til að efla heilsu
kvenna og vinna með þá sjúkdóma sem herja sérstaklega á
konur. Það þarf ekki að koma á óvart að þar mun ég leggja
áherslu á heildræna nálgun og mun nýta reynsluna við offitu-
meðferðina sem ég hef þróað á síðastliðnum árum. Vissulega
eru ákveðnir þættir sameiginlegir fyrir bæði kynin og það er
ekkert verið að minnka þjónustu við karla, en konur eru með
alveg heilt kerfi sem karlar hafa ekki, sem er afar víðtækt og
breitt og hefur áhrif á svo margt en hefur verið dálítið skilið út
undan til þessa.
Kynhormón hafa mikil áhrif á alla líkamsstarfsemina og
það er meira að segja mismunandi hvaða mataræði og hreyf-
ing hentar eftir því hvar konur eru staddar í tíðahringnum.
Aldur kvenna hefur líka sitt að segja, það eru til að mynda
ólíkir hlutir í gangi fyrir og eftir breytingaskeiðið.
Ef við horfum bara á það hvar offita og kvenheilsa skar-
ast, þá er það öll þessi hormónatengda þyngdaraukning,
hvort sem um er að ræða kynþroskaskeiðið og frjósemi eða
tengsl við meðgöngu, en einnig sjúkdómar eins og fjölblöðru-
eggjastokkaheilkenni og fitubjúgur sem er sjúkdómur sem er
nær eingöngu hjá konum og lítill gaumur hefur verið gefinn,
allt það sem tengist breytingaskeiðinu og margt fleira.
Það er margt sem spilar inn í hvort þyngdaraukning verði
að sjúkdómnum offitu eða ekki, en þegar komin er röskun í
kerfin sem stjórna líkamsþyngdinni þá þarf grípa til sértækra
úrræða til að koma þeim aftur í jafnvægi svo þau gangi í takt.
Starf mitt á undanförnum árum hefur snúist fyrst og fremst
um að koma á þessu jafnvægi og samstillingu kerfanna. Offita
er krónískur sjúkdómur og sem slíkur er hann ekki metinn
út frá líkamsþyngdarstöðlum. Líkamsþyngdin segir okkur
afskaplega lítið um hvort að sjúkdómurinn sé kominn eða
ekki. Ef það er gríðarlega mikið magn af fituvef þá er hann
svo mikið efnaskiptalíffæri og svo atkvæðamikið í heildar-
kerfinu okkar að hann er farinn að hafa víðtæk áhrif þótt
hann sé heilbrigt starfandi – en það segir aldrei alla söguna
um heilsufar einstaklingsins. Ég veit að mörgum þykir þetta
ruglingslegt og það er að hluta til vegna þess að við notum oft
sömu orðin yfir offitu sem skilgreind er með líkamsþyngdar-
stuðli og sjúkdóminn offitu, en það er þó ekki sami hluturinn.
Offitusjúkdómurinn lýtur sínum eigin lögmálum eins og
aðrar alvarlegar raskanir á starfsemi líkamans. En ég ætla að
nýta þá reynslu sem ég hef aflað mér á þessu sviði á undan-
förnum árum – ekki síst með heildarnálgun þessara fjögurra
hornsteina heilsunnar sem ég hef unnið eftir og það sem ég
hef lært á leiðinni hefur bara styrkt mig í þessari nálgun. Mig
langar sem sagt að skapa þessu sjónarhorni aukinn sess
innan heilsugæslunnar. Þetta er ekkert nýtt undir sólinni. Ég
er ekki að koma fram með einhvern nýjan sannleika heldur
setja hann þannig fram að hægt sé að vinna markvisst eftir
honum.“