SÍBS blaðið - 01.06.2022, Blaðsíða 22
22
SÍBS-blaðið
þroska dragi úr samkennd og auki hættu á kulnun. Við fáum
einnig fréttir af því að börn og unglingar hafi nú oftar en áður
einkenni um streitu, kvíða og depurð eða líkamleg óþægindi og
hegðunar- og einbeitingarvandamál. Minni tími er til hvíldar og
endurhleðslu í skólanum, á heimilinu eða á vinnustaðnum.
Margt bendir til að trúariðkun sé á undanhaldi í vestrænum
löndum en í trúnni eru fólgin mörg úrræði sem verja gegn álagi
og kulnun. Áhersla á íhugun, sjálfsskoðun og kyrringu hugans
eru í boðskap trúarinnar. Mildi í samskiptum, skilningur, fyrir-
gefning og umhyggja fyrir náunganum sömuleiðis, en mörgum
finnst vera aukin harka í samskiptum nú til dags. Einnig er
sterkur boðskapur í trúnni um nauðsyn hvíldar.
Stundum teljum við mennskuna í hættu á kostnað vél-
rænna vitsmuna og ef til vill erum við þegar komin lengra
í því ferli en við gerum okkur grein fyrir. Þó ekki þannig að
vélmenni með gervigreind hafi tekið yfir, heldur að við sjálf
hugsum og hegðum okkur í auknum mæli vélrænt.
Bent hefur verið á að of mikil peningahyggja á kostnað
mannlegra og menningalegra eða listrænna gilda hafi of
mikil áhrif og fullnægi ekki mannlegum þörfum nema á
takmarkaðan hátt.
Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa félagslegt öryggi,
trú á framtíðina og traust á þá sem leiða veginn og stjórna í
samfélaginu. Í opnu samfélagi, með stöðugu upplýsingaflæði
og flutningi frétta, fáum við að fylgjast nákvæmar en áður
með framgangi og hrasi stjórnmálaleiðtoga og það hefur áhrif
á skoðun okkar á þeim og tiltrú til þeirra.
Áhrif Kórónuveirufaraldursins á andlega líðan
Álagið vegna faraldursins hófst skyndilega og var okkur
í fyrstu mikið áfall sem vinna þurfti úr og tók orku frá
okkur. Þekkt er að fyrsta stig áfalla einkennist af doða og
skilningsleysi. Það tekur tíma að átta sig á hvað hefur gerst
og hvaða afleiðingar það getur haft.
Næst stig hinna sálrænu viðbragða er tilfinningastigið. Þá
hverfur doðinn og í staðinn rýkja tilfinningar og fram kemur
kraftur og kjarkur til að aðlagast, breyta yfir í fjarvinnu, koma
aðstandendum heim frá útlöndum og slík verkefni. Það fannst
mörgum gott að hafa nóg að gera. Á þessu stigi koma alltaf
fram sterkar tilfinningar eins og reiði og erfiðleikar við að
stilla skap. Margir óttuðust aukningu í heimilisofbeldi. Víða í
öðrum löndum kom fram mikil vantrú og gagnrýni í garð yfir-
valda og jafnvel samsæriskenningar en slíkt hefur ekki verið
áberandi hérlendis. Mennirnir bregðast ósjálfrátt við álagi og
með mismunandi hætti. Sumir láta sem ekkert sé í meðvirkni:
„Það kemur ekkert fyrir mig“. Aðrir fara í hjálparsveitargírinn.
Enn aðrir eru í stjórnarandstöðustellingunum og gagnrýna
allt og alla. Og sumir flýja með því að verða fjarlægir, lokaðir
og einangra sig. Ekki má gleyma „ég veit það best“ aðferðinni
sem er dálítið íslensk.
Allir þessir hálf-sjálfvirku varnarhættir eru nauðsynlegur
hluti af andlegum vörnum okkar gegn vá og gera okkur mögu-
legt að þola það að vera í slíkri stöðu. En þeir geta mótað
hegðun okkar meira en gott er, t.d. með því að við verðum
of kærulaus og horfumst ekki í augu við hættuna af raun-
hæfni, hættum að hlýða fyrirmælum eða sýnum ekki lengur
tilhlýðilega gætni. Mikilvægt er að vera meðvitaður um eigin
viðbrögð. Auðvitað hafa allir haft áhyggjur af eigin heilsu en
ekki síður af heilsu annarra. Í rannsókn sem framkvæmd var
á vegum Streituskólans kom fram að fleiri hafa haft áhyggjur
af heilsu barnanna og þeirra sem eldri eru, eða í áhættuhópi,
en af eigin heilsu.
Þriðja stigið í álags- og áfallaferlinu er nú hafið og mætti
kalla það aðlögunartímabilið. Nú erum við að takast á við
breytingarnar og nýjar áskoranir. Á þessu stigi aðlögunar-
innar má e.t.v. ganga svo langt að segja að sumar breytingar
séu jákvæðar. Margir heyrast segja: Forgangsröðun mín í
lífinu er önnur nú og hefur breyst frá því sem áður var. Aðrir
finna enn frekar fyrir mikilvægi vináttu. Samstaða er mjög
rík. Einstaklingum, stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja
og stofnanna hefur gefist tækifæri til að sýna aukna getu
og aðlögunarhæfileika. Mikilvægi þess að yfirmaðurinn sé
nálægur starfsseminni hefur komið skýrar fram. Þakklæti og
jákvæðni ríkir í garð heilbrigðisstarfsfólks. Tiltrú almennings
til stjórnvalda styrktist. Máttur og gagnsemi þekkingar og
vísinda hefur komið skýrt fram í ferlinu. Samstaða, gæska
og umhyggja fyrir náunganum hefur verið meira áberandi en
frekja, yfirgangur og eiginhagmunastjórnun.
Við höfum borið gæfu til að vilja hvetja og styðja hvert
annað. Dæmi um slíkt er seigla og útsjónarsemi kennara og
skólastjórnenda að halda skólastarfi áfram. Annað dæmi
er sveigjanleiki presta og starfsfólks kirkjunnar til að veita
þjónustu eins og t.d. hljóð og myndstreymi frá útförum. Þriðja
dæmið sem mætti taka er framtak íslensks tónlistarfólks sem
hefur af örlæti veitt okkur hvatningu, hugarró og kjark með
list sinni. Fátt er eins græðandi og slakandi og tónlist og um
leið ber hún með sér eflandi og hvetjandi kraft. Vísindalegar
rannsóknir benda til þess að tónlist hafi góð áhrif á efnskipti
og vellíðunarboðefni heilans um leið og hún eflir gróningar-
mátt (neuroplasticity) heilavefsins.
Varnir gegn streitu og kulnun
Mörg áhrifarík úrræði eru til sem við getum nýtt okkur
til að verjast neikvæðum áhrifum streitu. Við ráðgjöf í
Streituskólanum undanfarna tvo áratugi höfum við leitast við
að fræða um þau streituráð sem hafa sannarlega áhrif skv.
vísindalegum rannsóknum eða að við höfum reynslu af að eru
holl. Til einföldunar og til þess að ráðin festist betur í minni
og verði þannig nýtileg verkfæri hugans, þá höfum við skipt
þessu í þrjú stig fyrir hvern og einn að hugsa um: Greiningu,
viðbrögð og varnir.
1. Greining
Í fyrsta lagi er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hverjir
eru helstu álagsþættirnir sem hafa áhrif á okkur á hverjum
tíma. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem álagsþættirnir
geta verið lúmskir eða faldir, þeir geta verið til staðar í
starfi en einnig heima fyrir. Sumir álagsþættir eru alls ekki
neikvæðir í eðli sínu en taka samt frá okkur orku. Enn aðrir
þættir eru þess eðlis að við getum ekki haft áhrif á þá. Oft eru
samskipti þess eðlis að þau taka frá okkur mikla orku ef við
gætum þess ekki að verja okkur og setja mörk.
2. Viðbrögð
Í öðru lagi er mikilvægt að hver og einn geri sér grein fyrir
hvernig hán bregst við álagi. Þá er sjálfsskoðun nauðsynleg
til að fylgjast með eigin viðbrögðum við álagi eða áreiti.
Verð ég pirraður? Hef ég tilhneigingu til að fresta? Fer ég í
ofurdugnaðargírinn? Ekkert af þessu auðveldar tök okkar
á álagi eða áreiti til lengri tíma. Þannig geta röng viðbrögð
gegn álagsþáttunum stuðlað að vítahringjum sem útiloka
hvíld og endurnæringu og neikvætt hegðunarmynstur eða
hugsanagangur verður til, með auknum líkum á kulnun og
jafnvel sjúklegri streitu.
3. Varnir
Þegar maður hefur áttað sig á hverjir áhrifamestu
álagsþættirnir eru á hverjum tíma og skilið betur hver fyrstu