Sjómannablaðið Víkingur

Volume

Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2019, Page 32

Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2019, Page 32
32 – Sjómannablaðið Víkingur Saga Siglufjarðar er saga útgerðar. Á 19. öld var það hákarl- inn sem mest og best auðgaði Siglfirðinga. Hákarlalýsið var selt til útlanda og verkaður hákarl frá Siglufirði og Siglunesi varð víðfrægur um allt land. Um stutt skeið gerðu bæjarbúar sér líka mat úr hval án þess þó að veiða hann nokkru sinni sjálfir. Þegar allmjög var liðið á 19. öldina vildu Siglfirðingar hefja þorskveiðar en lentu í óvæntum ógöngum. Um þetta andstreymi skal nú fjallað. Veldi sporðanna Á síðasta áratug 19. aldar hóf erlend menning að ryðja sér til rúms á Siglufirði. Norskir hvalfangarar tóku þá að drepa hvali í stórum stíl út af Norðurlandi. Þessar risastóru skepnur voru dregnar inn á Siglufjörð þar sem þær biðu þess, bundnar við festardufl, að verða hengdar aftan í sérstakt dráttarskip sem sigldi með hvalseilarnar til vinnslustöðva á Vestfjörðum. Hvalirnir í Siglufjarðarhöfn voru oft taldir í tugum. Strákarn- ir reru út að þeim á á litlum skektum, festu bátana í sting eða annað sem þeir ráku á kaf í dauðar skepnurnar og áður en varði voru þeir byrjaðir að mokfiska enda reynslan kennt drengjunum að fiskurinn sótti mjög í lýsisbrákina er flaut af hvölunum. Þetta voru þó engan veginn einu búdrýgindin er Siglfirðingar höfðu af hvalveiðum Norðmanna. Áður en hvalskrokkarnir lögðu upp í sína hinstu för voru sporðar og bægsli skorin af og var þá glatt á hjalla í Siglufirði og miklir kappróðrar þegar menn kepptust við að tryggja sér sporð eða bægsli í matinn. Heimamenn voru líka fljótir að gera sér verslunarvöru úr sundfærum hvalanna og myndaðist af þessu mikil sporðasala við Eyjafjörð, alveg inn á innstu bæi. Svo mikið kvað að þessum viðskiptum að um skeið köstuðu sporðarnir jafnvel skugga á Siglufjarðarhákarlinn. En veldi sporðanna stóð stutt, hvalirnir flýðu Norðurland og um alda- mótin 1900 var kæsti hákarlinn aftur að ná töluverðu af sínu fyrra áliti. Reyndar héldu gamlar hákarlakempur því blákalt fram að hákarlinn hefði unnið í næringarstríði; það hefði nefni- lega runnið upp fyrir Eyfirðingum að sporðarnir væru nær- ingarlítil eða jafnvel næringarlaus fæða og ekkert á þá að treysta þegar í harðbakkann sló í vinnu eða á ferðalögum. Þriðja stórveldið Um svipað leyti og sporðarnir féllu fyrir hákarlinum kom þriðja stórveldið til skjalanna í útgerðarsögu Siglfirðinga og varpaði stórum skugga á bæði hákarlinn og hvalinn. Árin 1903 og 1904 tók herpinótin að ryðja sér til rúms hér við land sem heppilegt veiðarfæri til síldveiða og um leið upphófst slíkt fádæma síldar- æði að Eyfirðingar höfðu aldrei kynnst öðru eins og kölluðu þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum enda þá liðlega tveir áratugir síðan Norðmenn byrjuðu fyrir alvöru að veiða síld á Eyjafirði. Siglufjörður varð nú sá fjörður landsins þar sem flest skip sigldu út og inn yfir sumarmánuðina – og allt fylltist af syngj- andi glöðum Norðmönnum. Árið 1905 fullyrti greinarhöfundur í blaðinu Gjallarhorni: „Þótt töluvert gull hefði fundist á Siglufjarðareyri hefði það eigi haft meiri áhrif á sumarlífið í firðinum en þessi Norðmanna aðsókn.“ Jón Hjaltason Bannað að veiða þorsk Fyrri hluti Hvalstöðin á Stekkeyri í Hesteyrarfirði sem er við norðanvert Ísafjarðardjúp. Þangað hurfu sumir hvalanna af Siglufirði. Á Stekkeyri áttu Kveldúlfsbræður eftir að bræða síld - en það var löngu seinna. Ekkert skal fullyrt um þjóðerni skútanna eða erindi á Íslandsmið. Kannski eru þetta Færeyingar, hver veit? Eitt skal þó fullyrt og það ber myndin með sér – öld seglanna stóð aldrei með meiri glæsibrag en á þeirri nítjándu. Mynd: Landmælingar Íslands

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.