Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2016, Blaðsíða 6

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2016, Blaðsíða 6
stjörnubjartur himinn og spegilsléttur sjór og framundan tíðindalaus vakt, að við héldum. Allt í einu er stjórnborðs brúarhurðinni svift upp og inn snarast skipsmaður nánar tiltekið dagmaður úr vélinni og hrópar: „Það er maður fyrir borð.” Stýrimaðurinn sem ég leit svo upp til og virtist rólegur og yfirvegaður hvers- dagslega tók stökk að manngreyinu þreif fyrir bringspalir hans og öskraði: „Hvað ertu að segja?“ Manngreyið stamaði út úr sér: „Ég held að einn farþeginn hafi kastað sér fyrir borð.“ Það hnussaði eitthvað í „stýrsa.“ Síðan sneri hann sér að mér og öskraði: „Hart í stjór.“ „Hart í stjór,“ endurtók ég og síðan beindi hann orðum sínum til dagmanns- ins aftur og sagði: „Heldur þú hvað?“ Eftir nokkrar sekúndur aftur til mín: „Hart í bak“ og síðan spurði hann: „Hvað stýrðir þú í upphafi?“ Ég sagði honum það og hann sagði: „Stýrðu omventa stefnu við það.“ Sem betur fer vissi ég hvað omvent var á dönsku og kom M/s Gullffossi á omventa stefnu, síðan kom stýrimaður- inn til mín og þreif af mér stýrið og sagði mér að ræsa kallinn (skipstjórann). Ég sagði honum hvaða stefnu ég stýrði, en hann endurtók það ekki og ég vissi að samkvæmt starfsskyldum þá hleypur enginn frá stýrinu án þess að sá sem leysir þig af við stýrið endurtaki það sem við hann er sagt. Ég stóð því kyrr og beið eftir að hann endurtæki stefnuna sem ég hafði sagt honum, en hann öskr- aði: „Ætlar þú ekki að drattast úr spor- unum drengur?“ og eftir svipbrigðum hans og augnatilliti vissi ég að ekki var til setunnar boðið og dreif mig því næst að ræsa skipstjórann. Aldrei séð önnur eins loftköst Eftir að hafa hlustað á allar hetjusögurn- ar þeirra í hásetamessanum hélt ég, sem Vestfirðingur og með öllu ókunnugur farmannslífinu, að tilkynning um að það væri maður fyrir borð væri næstum því daglegur viðburður. Ég snaraðist því inn til skipstjórans og bankaði varlega á svefnherbergisdyrnar, en svo hagaði til að setustofa og svefnherbergi skipstjór- ans var fyrir aftan brúna. Eitthvað uml- aði í karli og hann sagði: „Hvað er það?“ Minnugur þess hvað stýrsi hafði kennt mér um „mannleg samskipti“ við skipstjórann, sagði ég: „Góða kvöldið skipstjóri þetta er hásetinn á vakt, klukkan er tuttugu og þrjú fimmtán, skyggnið gott, hægur vindur og það er óskað eftir nærveru þinni á stjórnpall, því það kom tilkynning upp í brú að það væri maður fyrir borð.“ Önnur eins loftköst úr einu rúmi hef ég ekki séð, hann hreinlega sveif framhjá mér og fram í brú. Er ég kom þangað gekk mikið á, skipanir glumdu og skipið var komið á hæga ferð. Stýrsi hljóp frá stýrinu er hann sá mig koma inn í brúna og skipaði mér að taka við stýrinu án þess að gefa mér upp hvað stefnu ég ætti að stýra. Skipstjórinn var orðinn rólegri og gaf skipanir á víxl eftir atvikum. Eftir nokkrar mínútur kom svo tilkynning aft- ur upp í brú, að um misskilning hefði verið að ræða. Enginn maður hefði fallið fyrir borð. Mönnum létti og sérstaklega skipstjóra og stýrsa og þeir ræddu um þetta atvik úti á brúarvæng, en ég heyrði orð á stangli og eitthvað heyrðist mér þeir minnast á mig en ég lagði ekki svo mikinn skilning í það. Skipstjórinn yfir- gaf svo brúna eftir að hann hafði gefið „stýrsa“ fyrirmæli um sérstaka færslu í dagbók skipsins. Er hann gekk framhjá mér horfði hann á mig í nokkur andar- tök en gekk svo út úr brúnni. Hinn há- setinn var nú kominn og var búinn að leysa mig af við stýrið. „Stýrsi“ gaf mér merki um að fylgja sér eftir út á brúar- væng og er þangað var komið, dró hann hurðina fyrir svo nú vorum við einir á brúarvængnum. Við snérum báðir fram og horfðum fram eftir skipinu og út á sjóndeildarhringinn. Stýrsi horfði á mig og það vottaði fyrir uppgjöf í andliti hans. Hann sagði „Þú verður að athuga að við svona uppákomur er margt sem fer úrskeiðis og að beinar athafnir sem ég hef kennt þér geta því farið úr böndunum. En ég ætla ekki að reyna að breyta þeim gagnvart þér, reynslan verð- ur að kenna þér rétt viðbrögð við ólíkum uppákomum. Skipstjórinn spurði mig hvað gengi að stráksa? En ég sagði að ég hefði tekið strákinn í gegn fyrir þó nokkru og hann hefði tekið því sem al- gerum „herag a á flaggskipi Íslands“ og reyndi að fara að öllu í réttri röð. Það er gott sagði skipstjórinn, en segðu honum að sé hann sendur inn til mín, þá eigi hann að koma sér beint að efninu.“ Sögumaður við stýrið á M/s Gullfossi 1964. 6 – Sjómannablaðið Víkingur Hvaleyrarbraut 27 220 Hafnarfirði Sími: 564 3338

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.