Fréttablaðið - 14.10.2022, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 14.10.2022, Blaðsíða 14
„Ég samdi fyrst lag þegar ég var sjö ára. Það hét Ég hjólaði á staur, og fjallaði um þegar ég sá pabba keyra fram hjá mér á bíl og ég hjólaði óvart á staur. Það gerðist ekki í alvörunni þannig að ímyndunar­ aflið var ekki síður vel virkt þá og aldrei að vita nema það komi út á plötu einn daginn.“ Þetta segir Sunna Guðlaugsdótt­ ir í hljómsveitinni Tsunnami sem í dag gefur út fyrstu stuttskífuna af fjórum sem bera nöfn árstíðanna; sumar, vetur, vor og haust, en Haust ríður á vaðið. „Við erum einn Íslendingur, tveir Færeyingar og Dani í bandinu. Við kynntumst við nám í Royal Academy of Music í Árósum. Ég hef alltaf laðast að Færeyingum og á mikið af færeyskum vinum og við í bandinu smullum bara saman. Eini Daninn í hljómsveitinni er meira að segja hálfur Færeyingur og þó að hann hafi bara komið þangað einu sinni lítum við á færeyska blóðið sem mikinn gæðastimpil,“ segir Sunna um sitt norræna band. Spurð hvort Norðurlandabúar séu í raun allir eins og vinni sem einn hugur, svarar Sunna: „Nei, alls ekki. Mér finnst Íslendingar og Færeyingar eiga meira sameiginlegt, og held að einangrunin sem felst í því að búa sitt á hvorri eyjunni í Atlants­ hafinu geri það að verkum. Íslendingar æða meira út í hlutina og láta vaða á meðan Danir þurfa að íhuga allt frá öllum hliðum. Það væri ákjósanlegt ef maður gæti lent einhvers staðar þarna í miðjunni.“ En hvað einkennir tónlistar­ sköpun nútíma víkinga, eins og upprunalegu víkinganna í Tsunn­ ami? „Ég fæ oft að heyra að laga­ smíðarnar og útsetningarnar séu „stórbrotnar“, en held að fólk sé að meina að þær séu dramatískar á jákvæðan hátt. Á dönsku segir maður að það sé „hátt til lofts“ í tónlist og það heyrist í náttúrunni og víðáttunni. Ég veit ekki hvort það sé satt, en hef lúmskt gaman af þessu. Maður getur varla verið frá Íslandi með sína öfgafengnu veðráttu og náttúru án þess að vera svolítið öfgafullur sjálfur,“ segir Sunna glettin. Konur geta líka verið reiðar Nafngiftin Tsunnami vísar í nafn Sunnu og stórrar flóðbylgju. „Það byrjaði sem grín en svo fór ég að nota nafnið af alvöru því mig langar að skapa tónlist sem skellur svolítið á fólki, meina það sem ég segi og vera með svolítinn upp­ steyt. Svo er nafnið líka tilvísun í náttúruöflin sem ég sæki inn­ blástur í,“ útskýrir Sunna. Hún semur öll lögin og textana á árstíðaplötunum. „Hugmyndin kviknaði haustið 2020 þegar ég flúði til Íslands í nokkra mánuði þegar allt lokaði í Danmörku vegna Covid. Þá ákvað ég að reyna að semja lög við ljóð sem ég hafði samið á dönsku og lögin bara flæddu út. Við tókum svo upp tíu lög á plötu en mér fannst samhengið ekki nógu gott og sagan sem sögð var ekki nógu sterk. Því settist ég niður og skoðaði öll lög sem ég hafði samið á einu ári og tók eftir miklum mun í textunum og lagasmíðunum, eftir því á hvaða árstíð þau voru samin. Þar með fór ég að gæla við hug­ myndina að tvöfalda verkefnið og gefa í staðinn út fjórar smáskífur með samtals tuttugu lögum og láta útsetningarnar endurspegla til­ finningarnar í lögunum og tilfinn­ ingar sem ég tengi við árstíðirnar, og úr varð verkið ­ Et års tid ­,“ upplýsir Sunna. Lagasmíðar Sunnu á Hausti Frá vinstri eru Færeyingarnir Árni Jóhannesson og Rasmus Vigant Samuelson, Sunna og Daninn Mikkel Mikkelsen. MYND/VIKTOR BIRGISSON Þórdís Lilja Gunnarsdóttir thordisg @frettabladid.is eru sterkar, töff, ásæknar og elta hlustandann. Þær kostuðu líka mikil átök. „Öll haustplatan er reið og grimm. Ég hef oft átt í baráttu við sjálfa mig og mitt skap. Ég hef alltaf verið mjög ákveðin og fundist ég sem kona þurfa að dempa það til að vera ekki stimpluð frek eða of framhleypin. Á haustplötunni ákvað ég að leyfa mér að vera allt þetta og vera stolt af því. Draumur­ inn er að normalísera að fólk sé alls konar og að persónuleikar tengist ekki kyni. Að konur geti líka verið reiðar og það sé bara allt í lagi.“ Sunna segir tónsmíðarnar á árstíðaplötunum vera tilraun til að sýna allar tilfinningar og hliðar þess að vera manneskja. „Plöturnar lýsa einu ári í lífi manneskju sem hefur náð botn­ inum eða klesst á vegg og þarf að byggja sig upp aftur. Það er meiri háttar ferli og í þessu tilviki gerist þróunin í takt við árstíðaskiptin. Innblásturinn kemur að sumu leyti úr eigin lífi en ég hef einnig mikinn áhuga á fólki og hvernig það upplifir hlutina. Ég held að mörgum líði eins og þeir séu einir í heiminum að upplifa tilfallandi tilfinningar en sannleikurinn er sá að við erum ekkert svo sérstök þegar kemur að því og tilfinningar eru allra manna eign.“ Hún fer yfir viðfangsefni sköp­ unarverks síns: „Haustplatan er óvægin með fókusinn út á við, á allt það sem allir aðrir eru að gera vitlaust til að þurfa ekki að horfa inn á við. Eins og stormur að hausti reyni ég að lýsa þeirri tilfinningu að vera á endalausum hlaupum til að þurfa ekki að staldra við og horfast í augu við sjálfa mig. Á vetrar­ plötunni er komin meiri stilla, mikil sjálfsskoðun og sorg. Á vor­ plötunni byrjar allt að gróa og hún lýsir einfeldnislegri gleði þegar byrjar að hlýna á ný og það vaknar svolítil von. Sumarplatan er bara hrein gleði og áhyggjuleysi.“ Svolítil gredda alltaf heillað Sunna útskrifaðist í sumar með háskólagráðu í söng við popp­ og nútímadeild Royal Academy of Music í Árósum. „Ég hef alltaf sungið og samið, en í náminu lærði ég ótrúlega mikla tækni. Ég var svo heppin að aðalkennarinn minn skildi mig og skynjaði að ég yrði ekki söngkona sem syngi djass­standarda. Hann reyndi því ekki að þröngva slíku upp á mig heldur unnum við allt út frá mínum lögum og einblíndum á að finna minn eigin stíl þegar kom að rödd og túlkun,“ útskýrir Sunna. Hún kemur úr hæfileikaríkri tónlistarfjölskyldu en faðir hennar er Guðlaugur Hjaltason í hljóm­ sveitinni Nýríki Nonni, móðir hennar syngur í kór og bróðir hennar er tónlistarmaðurinn Huginn. „Heima fékk ég einstaklega gott tónlistaruppeldi. Ég elska Elly og Vilhjálm, Ingimar Eydal og margt af þessu íslenska, en þegar ég heyrði Björk syngja á Gling Gló­ plötunni, og söngkonur eins og Janis Joplin og Kate Bush, hugsaði ég að mig langaði að syngja eins og þær. Ég hlustaði líka á Ísbjarnar­ blúsinn hans Bubba í ræmur og öll tónlist sem er svolítið óhamin, ófullkomin, tekur sig ekki of hátíðlega og sem svolítil gredda er í hefur alltaf heillað mig,“ segir Sunna sem fær mikinn stuðning frá fjölskyldunni. „Þau hafa hjálpað mér að koma heim þegar ég hef þurft á Íslands­ skammti að halda, hýstu okkur hljómsveitina þegar við komum til Íslands til að taka upp í vita á Akranesi, hvetja mig áfram þegar ég hef orðið efins með þetta stóra verkefni, mæta á tónleika hér úti og dýrka strákana í hljómsveitinni minni. Það er mikil gjöf og dýr­ mætt að eiga vini og fjölskyldu sem hafa trú á manni og því sem maður fæst við, því trúin á sjálfa mig er stundum hvikul.“ Vann á bókasafninu tíu ára Árstíðaplöturnar hafa tekið tíma Sunnu í tvö ár og skrifaði hún lokaritgerð við Royal Academy of Music um árstíðirnar og náttúruna sem aðalviðfangsefni. Á plötunum semur Sunna og syngur eigin texta á dönsku, sem fallið hefur vel í kramið hjá frændum vorum í Danaveldi. „Danir elska allt sem tengist Íslandi og ég segi oft að ódýrasta trixið í bransanum sé að vera frá Íslandi. Ég er oft beðin um að syngja eitthvað á íslensku og segi þeim þá að bíða þar til vetrar­ platan kemur út, því hugsanlega er smá glaðningur á þeirri plötu.“ Hún hefur gríðargott vald á dönsku og íslensku tungutaki og orðaforða. „Ég hef alltaf lesið mikið og byrjaði að vinna á bókasafninu á Skagaströnd þegar ég var tíu ára. Ég hef oftar en einu sinni heyrt að sem krakki hafi ég talað eins og gömul kona, og það kemur pott­ þétt úr öllum bókunum sem ég las. Ég er tungumálanörd og elska að spá í hvernig samfélagið mótar tungumálið og öfugt. Svo heyri ég oft að ég sé skýrmælt, bæði á íslensku og dönsku, og að fólk skilji hvert orð sem ég syng. Ég held það stafi af því að ég hef alltaf haft svo mikið að segja að ég þurfti að bera allt skýrt fram til að þurfa ekki að endurtaka mig og missa þannig dýrmætan tíma sem ég gæti ann­ ars eytt í að tala meira. Ég reyni að lesa eins mikið og ég get og les mest íslenskar bókmenntir þessa dagana,“ greinir Sunna frá. Hún segist vita að Íslendingar þoli fæstir dönsku og finnst það synd því eftir allt saman sé danskan svöl. „Ég upplifi oft að bæði Íslend­ ingar og Danir skilji ekki að ég vilji semja á dönsku en ég elska hvað danskan er einföld og á ekki til jafn mörg orð yfir hlutina og íslenskan. Ég fæ hálfgert víðáttu­ brjálæði þegar ég ætla að semja á íslensku og finnst dönsku text­ arnir mínir oft verða einlægari og hreinskilnari því ég get ekki lyft þeim upp á jafn hátt og abstrakt plan og á íslensku. Ég nota samt oft íslensk orð í textunum mínum, sem til eru á dönsku en orðin úreld og ekki notuð í daglegu máli. Það gefur dönskunni skemmtilegan blæ og gerir textana enn persónu­ legri. Mér finnst danskan æðisleg og vildi óska þess að Íslendingar gæfu henni aðeins meiri séns, vegna þess að því fleiri tungumál sem maður lærir, því betur skilur maður þau sem maður kann fyrir.“ Fær af og til gríðarlega heimþrá Sunna bjó sem unglingur í Dan­ mörku en flutti heim orðin nítján ára og svo aftur út fyrir sex árum. Hún býr nú í Kaupmannahöfn og segist ástfangin af borginni og lífinu þar. „Ég elska hvað veðráttan í Danmörku er mild og fólk spáir lítið í hvað öðrum finnst um það. Danir borða bara nestið sitt á bekk í miðri stórborg og hafa það „hyggeligt“. Að sama skapi elska ég kraftinn í Íslendingum og íslenskri náttúru, og hversu mikið af skapandi fólki er að gera spenn­ andi og tilraunakennda hluti,“ segir Sunna. Henni líður iðulega eins og hún sé klofin á milli tveggja landa. „Mig langar ekki að búa á Íslandi því ég fíla stemninguna í dönsku samfélagi svo vel. En við og við fæ ég gríðarlega heimþrá og þarf mjög reglulega að komast til Íslands. Draumurinn er að eiga lítið hús heima, þar sem ég get samið og skrifað, því ég fyllist alltaf rosalegri andagift þegar ég kem til Íslands,“ segir Sunna. Hún er alltaf á heimleið en veit ekki hvenær það verður næst. „Mig langar rosalega að koma heim og spila en þarf að sjá hvort Íslendingar séu opnir fyrir tónlist á dönsku. Ég er líka byrjuð að skrifa íslenska skáldsögu og þegar ég er búin að gefa út allar þessar plötur langar mig að einbeita mér að henni. Vetrarplatan kemur út í febrúar og fyrsta lagið af þeirri plötu í janúar, en það er tvö­ föld útgáfa, sungin á íslensku og dönsku. Svo koma vor­ og sumar­ plöturnar í lokin. Mig langar líka að gefa út ljóðabók ásamt plöt­ unum fjórum á vínyl. Það er frekar dýrt og stórt verkefni, en það er draumurinn.“ Hlustið á Tsunnami og Haust á Spotify og fleiri streymisveitum og fylgist með Sunnu á Instagram og Facebook #tsunnami n Allt er kynningarblað sem býður auglýsendum að kynna vörur og þjónustu í formi viðtala og umfjallana. Í blaðinu er einnig hefðbundið rit- stjórnarefni. Blaðið fylgir Fréttablaðinu daglega. Umsjónarmenn efnis: Elín Albertsdóttir, elin@frettabladid.is, s. 550 5761 | Guðmundur Hilmarsson, gummih@frettabladid.is s. 550 5766 | Sandra Guðrún Guðmundsdóttir, sandragudrun@frettabladid.is, s. 550 5762 | Starri Freyr Jónsson starri@frettabladid.is, s. 550 5767 | Þórdís Lilja Gunnarsdóttir, thordisg@frettabladid.is, s. 550 5768 Útgefandi: Torg ehf. Ábyrgðarmaður: Jón Þórisson Sölumenn: Arnar Magnússon, arnarm@frettabladid.is, s. 550 5652, Jón Ívar Vilhelmsson, jonivar@frettabladid.is, s. 550 5654, Ruth Bergsdóttir, ruth@frettabladid.is, s. 694 4103. Tónlist sem er svolítið óhamin, ófullkomin, tekur sig ekki of hátíðlega og er svolítil gredda í hefur alltaf heillað mig. 2 kynningarblað A L LT 14. október 2022 FÖSTUDAGUR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.