Morgunblaðið - 07.11.2022, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 07.11.2022, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. NÓVEMBER 2022 skíðaferð til Liechtenstein, en sá staður var í miklu uppáhaldi hjá okkur. Veikindin höfðu tekið sig upp um svipað leyti svo að það var gott að hugsa um eitthvað skemmtilegt, en sú ferð var aldr- ei farin. Ég er svo endalaust þakklát að hafa fengið að umgangast þig á þessum erfiðu þrem árum, sem voru líka covid-ár, og það hjálp- aði sko ekki til. En ég var mikið heima vegna lokunar vinnunnar og við áttum margar yndislegar gæðastundir. Það er með ein- dæmum hvernig þú tókst þetta verkefni alveg eins og önnur og leystir þær hindranir sem upp komu, nema endirinn varð annar en þú planaðir. Elsku hjartans Munda mín, ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið og ég hugsa endalaust hvað lífið getur verið ósann- gjarnt, ég vil bara segja takk fyrir allt, allar frábæru minning- arnar sem við eigum saman. Ég veit þú ert komin með fullt af nýjum verkefnum í sumarland- inu góða og ég hlakka til að hitta þig aftur. Fjölskyldu og ættingjum Mundu votta ég mína dýpstu samúð og bið guð að styrkja þau í sorginni. Þín Guðrún (Gunna). Komið er að kveðjustund. Munda var kraftmikil og fé- lagslynd íþróttastelpa að norðan. Hún hafði mikinn metnað í sjúkraþjálfaranáminu sem lá vel fyrir henni eftir ævintýradvöl í Ölpunum við vinnu og skíða- mennsku. Hún var skynsöm með skoðanir á hlutunum en ávallt var stutt í hlátur enda mikið grín og gaman í samheldnum bekk. Eftir útskrift tók við áratugur í starfi á Reykjalundi þar sem Munda naut sín í þverfaglegu teymisstarfi enda fagkona fram í fingurgóma. Styrkleikar hennar voru margir; við stjórnun, grein- ingu og meðferð flókinna tilfella og hún sýndi skjólstæðingum sínum viðmót sem einkenndist af virðingu, samkennd, stuðningi og hlýju. Hún var fljót að til- einka sér tæknilegar nýjungar og var öðrum til ráðgjafar. Sam- hliða Reykjalundi og síðar Gáska starfaði hún sem yfirsjúkraþjálf- ari á HL-stöðinni. Var henni annt um starfsemina og lagði sig fram við uppbyggingu. Munda starfaði fyrir Félag sjúkraþjálfara þar sem fag- mennska og réttindamál voru henni hugleikin. Leiðtogahæfi- leikar komu einnig fram við nefndarstörf í blak- og skíða- hreyfingunni. Hún vann frábært starf sem sjúkraþjálfari á vegum ÍSÍ, BLÍ, SKÍ og Aftureldingar á alþjóðlegum mótum. Hún gaf mikið af sér til þess íþróttafólks sem hún sinnti, var næm á líðan og getu og greip inn í aðstæður er þurfti. Eldmóður fyrir faginu og íþróttir leiddu okkur saman. Við styrktum hvora aðra í starfi og leik, ræddum endalaust um hvernig ætti að breyta til batn- aðar í heilbrigðis-, mennta- og íþróttamálum. Við áttum skemmtilegar stundir með bekkjarfélögum, saumó, lundín- um og dætrum Dóra þar sem mikið var talað, gantast, dansað og hlegið á ferðalögum hérlendis og erlendis. Þrátt fyrir langvinn veikindi fylgdist Munda vel með sínu fólki, var hreinskilin og var gott að leita ráða hjá henni við ákvarðanir. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Henni var um- hugað um fólk, var yfirveguð, þolinmóð og hafði gott keppn- isskap. Þessa eiginleika nýtti hún vel ekki síst í veikindum sín- um og á tímabilum krefjandi meðferða. Baráttuþrek og and- legur styrkur keppniskonunnar virtust óendanleg þrátt fyrir sveiflur í sjúkdómnum. Húmor- inn var aldrei fjarri og notaður til að rífa upp andann, ná fram brosi á vör og gleði í hjarta er á reyndi. Hún háði hetjulega bar- áttu við illvígan sjúkdóm og var það aðdáunarvert hve hún var dugleg að upplýsa aðstandendur á uppbyggjandi hátt um stöðu mála, hvað hún væri að ganga í gegnum þar sem hún hvatti okk- ur hin enn meira til dáða við að njóta líðandi stundar. Munda hafði raunhæfar væntingar, tók hvatningu vel og var mjög þakk- lát þeim sem veittu henni stuðn- ing. Munda hafði miklu að miðla, elskaði náttúruna, hreyfingu og útivist. Hún hvatti okkur fjöl- skylduna til skíðamennsku í Ölp- unum og skipulagði í fyrra eft- irminnilega ferð á sínar slóðir og mun andi hennar ríkja yfir í þeirri næstu. Hvíldu í friði kæra vinkona og takk fyrir dýrmætar stundir. Fjölskyldu, vinum og öðrum aðstandendum færi ég innilegar samúðarkveðjur. Minningar um einstaka, góða, duglega og skemmtilega konu munu lifa í hjarta okkar. Hlín Bjarnadóttir. Í dag kveðjum við kæra vin- konu sem féll frá í blóma lífsins. Munda var einstök kona, orku- mikil, ákveðin og fylgin sér, afar bóngóð og full af kærleika. Það var alltaf gott að leita til hennar hvort sem það tengdist vinnu eða hverju því sem lífið hefur upp á að bjóða. Munda af sinni alkunnu snilld og röggsemi einhenti sér í málin, leitaði lausna og fylgdi þeim eftir. Leiðir okkar lágu saman í gegnum starf okkar á HL-stöð- inni í Reykjavík fyrir rúmum 20 árum. Vinnudagarnir voru iðu- lega langir og því dýrmætt að hafa góða vinnufélaga. Með ár- unum dýpkaði vináttan og kynn- in urðu svo djúpstæð að orð voru óþörf. Við vinnu okkar saman var hugurinn samstilltur sem gerði vinnuna ljúfa og áreynslu- litla. Oft var kátt í höllinni, mikið gantast og margt brallað. Aðdáunarvert var að fylgjast með æðruleysi Mundu og bar- áttu í veikindum hennar. Þar nýtti hún styrkleika sína til fulls og lagði rækt við listagyðjuna. Handverk hennar var einstak- lega fallegt og vel unnið. Í veik- indunum fann dugnaðarfork- urinn Munda orku sinni farveg ekki aðeins í handaverki heldur einnig í alls konar skipulagningu fyrir vini og vandamenn, fast- eignakaupum og skemmtilegu brasi eins og henni einni var lag- ið. Elsku Munda okkar, kærar þakkir fyrir einstaka vináttu, þín er sárt saknað. Þínar vinkonur, Birna Aubertsdóttir, Kristín E. Hólmgeirsdóttir. Í dag kveðjum við elsku Mundu okkar sem við minnumst með ævarandi þakklæti og hlýju. Það var í ársbyrjun 1994 sem hópur 1. árs nema í sjúkraþjálf- un kom saman á Vitastíg að und- angenginni lærdómsönn fyrir inntökupróf. Þar með var bekk- urinn myndaður sem fylgdist að næstu fjögur ár í námsbrautinni og sterk vináttubönd mynduð- ust. Fljótt stofnuðum við stelp- urnar saumaklúbb og eins og Mundu var einni lagið þá hélt hún vel utan um sinn hóp þar eins og alls staðar þar sem henn- ar naut við. Hún var traust og sönn í öllu sem hún gerði og bjó yfir einstaklega fallegri sam- kennd. Það var augljóst frá fyrstu tíð hvað sjúkraþjálfara- starfið átti vel við hana. Á henn- ar starfsferli nutu skjólstæðing- ar og samstarfsfólk dugnaðar hennar, hlýlegs og einlægs við- móts og ekki síst sterkrar rétt- lætiskenndar. Hún vann ötullega að því að efla fagstétt sína í gegnum árin og við sem störf- uðum með henni í stjórnum og nefndarstörfum dáðumst að dugnaði hennar og fórnfýsi. Munda var líka mikill fjörkálfur og smitaði lífsgleði sinni til okk- ar, ekki síst þegar farið var í göngur, útilegur, skíðaferðir og sumarbústaðaferðir enda mikill náttúruunnandi og náttúrubarn. Þá var sungið, hlegið, dansað og trallað eins og enginn væri morgundagurinn. Það hefur tek- ið á að fylgjast með svo kraft- mikilli og lífsglaðri konu þurfa að berjast við illvígan sjúkdóm og horfa á eftir henni kveðja jarð- lífið langt fyrir aldur fram. Við biðjum almættið að vaka yfir fjölskyldu elsku Mundu í sorg- inni. Sá ótrúlegi styrkur og þol- gæði sem hún sýndi síðustu árin verður okkur ævinlega innblást- ur og við munum varðveita allar dýrmætu minningarnar sem við eigum um einstaka vinkonu um ókomna tíð. Elsku Munda, við munum horfa til himins og syngja Gullvagninn í minningu þinni með gleði og þakklæti í hjarta. Bekkjarsystur úr sjúkraþjálf- un, Áslaug, Guðrún Þura, Heiða, Herdís, Hlín, Ingibjörg, Margrét, Sara, Þórhalla og Þórhildur. Við heilsumst og kveðjumst. Kynnumst nýju fólki á lífsins vegi. Sumu af þessu fólki finnur maður strax að maður á samleið með, líður vel í nálægð þess og traust og dýrmæt vinátta mynd- ast. Þannig var það þegar ég kynntist Mundu minni á blak- æfingu hjá Aftureldingu. Við æfðum saman, kepptum saman, fórum saman á blakmót, fórum saman í skemmtiferð til Spánar, horfðum saman á blak og áttum saman góðar stundir. Munda lét sig fólk varða og var annt um fólkið í kringum sig. Hún var úrræðagóð, eldklár, harðdugleg og mikill fagmaður á sínu sviði sem sjúkraþjálfari. Henni var ekkert óviðkomandi og maður kom aldrei að tómum kofunum hjá henni. Enda var það svo að ef eitthvað var óljóst eða þarfnaðist útskýringa þá var leitað til Mundu og hún leysti fljótt og vel úr öllum vanda- málum og kom með skýra sýn á hlutina. Hún snerti við mörgum og var vinmörg sem kom ber- sýnilega í ljós í veikindum henn- ar og nú eftir andlát hennar þeg- ar horft er yfir þann fjölda sem saknar og syrgir góða vinkonu. Munda var mikill náttúruunn- andi og íþróttakona og hugsaði vel um fjölskyldu sína og ætt- ingja. Hún vissi nákvæmlega hvernig hún vildi hafa hlutina og hafði einstakan drifkraft til þess að koma sínum áætlunum í fram- kvæmd. Baráttuþrekið í veikind- unum var slíkt að einstakt var að fylgjast með því hvernig hún nálgaðist það erfiða verkefni sem henni var falið. Ég er þakklát fyrir vináttu okkar og allar minningarnar og er búin að velja mér stjörnu sem mun alltaf minna mig á hana. Fjölskyldunni votta ég samúð mína. Farðu í friði, elsku vinkona, og við munum halda áfram að passa upp á hvert annað. Veldu stjörnu, fyrir ofan þig. Eina stjörnu, til að minna mig. Veldu stjörnu, það er nóg af þeim. Aðeins ein, aðeins ein, mun þó fylgja þér heim. (Bragi Valdimar Skúlason) Droplaug Nanna Magnúsdóttir. Við í Gáska vorum svo heppin að fá Mundu til starfa hjá okkur fyrir rúmum 14 árum þegar hana langaði að breyta til í vinnu. Hún small inn í hópinn okkar og varð fljótlega leiðtogi í hópnum. Við- skiptavinir hennar báru mikið traust til og virðingu fyrir henni og hennar störfum enda gerði hún allt fyrir sitt fólk. Þetta fann ég og heyrði þegar ég tók við nokkrum af hennar viðskiptavin- um eftir að hún veiktist. Hún bar hag fyrirtækisins mjög fyrir brjósti. Hún var límið í starfs- stöðinni í Mjódd, vissi hvar allt var, hvernig átti að gera hlutina og lagði til breytingar á því sem betur mátti fara. Mér leið eins og hún væri eigandi í Gáska. Hún var glaðvær, skemmtileg og dríf- andi. Þannig var Munda. Hún lagði hjarta sitt í allt sem hún gerði. Hún var framúrskarandi sjúkraþjálfari og samstarfskona en fyrst og fremst yndisleg manneskja og vinur. Munda var sterk manneskja og sást það ekki síst í baráttu hennar við sjúkdóminn. Hún sendi reglu- lega pistla til að halda okkur upplýstum um ástandið en vegna covid voru samskiptin í lág- marki. Þar var ekkert nema bjartsýni og barátta í kortunum þó hún væri líka raunsæ. Hún ætlaði ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Mundu verður sárt saknað. Fjölskyldu og vin- um vottum við innilega samúð. Fyrir hönd Gáska, Kristín Gísladóttir. Kveðja frá FFHS Munda er farin og eftir sitja vinkonur uppfullar af söknuði í sál og sinni. Fyrir þremur árum fékk hún aftur það verkefni í hendur að takast á við illvígan sjúkdóm og lagði af stað þessa grýttu slóð. Fjölmargir ákváðu að fylgja henni og hjálpast að með byrðarnar. Að lokum komst hún ekki lengra í þessari torfæru og lagði af stað inn í sumarland- ið. Hún tókst á við þetta risa- vaxna verkefni af æðruleysi, þol- inmæði, þrautseigju, með slatta af þrjósku og síðast en ekki síst jákvæðni. Hún átti sér mottó: „Einn daginn dey ég en alla hina dagana ætla ég að lifa“. Hún átti gæðastundir með sínum bestu alveg fram í andlátið, slíkur var styrkur hennar. Vinskapur okkar við Mundu tengist upphaflega í gegnum vinnu og félagsstörf sjúkraþjálf- ara. En árið 2014, þegar Munda og þær sem þetta skrifa þurftu allar að takast á við það verkefni að vera stórnotendur heilbrigð- iskerfisins um stund, og hreyfi- getan datt niður fyrir velsæm- ismörk, þá var ákveðið að takast á við endurhæfinguna saman. Fyrsta nafn félagsins var Félag hægfara sjúkraþjálfara en breyttist með vaxandi færni hópsins í Félag fyrrverandi hæg- fara sjúkraþjálfara (FFHS). Munda átti nafnið og nafnið var gott og því var ekki breytt þó ferðahraðinn hefði aftur farið niður á við síðastliðin þrjú ár í takti við fleiri torfærur á leið Mundu. Markmið félagsins var alla tíð að „ganga á góða spá“ og nota skyldi hreyfingu í heilnæmu lofti og gefandi félagsskap sem leið til betri heilsu og líðanar. Munda dreif hópinn áfram með jákvæðni, seiglu, þrjósku, skyn- semi og léttleikandi kímni. Farn- ar voru margar ferðir og nest- ispásan með prímusi varð ómissandi hluti af góðri göngu- ferð. Þá voru málin krufin til mergjar og Munda hafði næmni til að sjá málefnin frá öðru sjón- arhorni, var sérstaklega góður hlustandi og átti oftast góð ráð til að gefa. Þetta þriggja manna bandalag fór víða og gleðin var ómælanleg þegar allt gekk vel. Það er ógleymanleg hamingju- stundin við Grænavatn, þegar Munda dró kampavín og glös á fæti upp úr bakpokanum. Þegar brekkan var brött var farið hæg- ar, íhugað, staldrað við og tesopi sötraður í takti við alvarleika líð- andi stundar. Hraðinn skipti ekki máli, heldur var það sam- veran og útivistin sem skipti máli. Síðasta ferð FFHS var til Þingvalla um Uxahryggi og Kaldadal núna í byrjun október. Munda vildi sjá fjöll og það var í samhljómi við lífsviðhorf hennar að innsigla takmarkalausa vin- áttu í faðmi íslenskrar náttúru. Hún var alltaf að gefa af sér. Hún prjónaði húfur og heklaði smekki og laumaði að sínum. Hún sparaði ekki hrósið og hún hvatti okkur til að láta drauma okkar rætast en sagði okkur líka til syndanna ef við unnum of mikið og gleymdum að gæta að eigin velferð. Hún þakkaði fyrir lífið. Núna þökkum við Mundu fyrir samfylgdina og óskum henni góðrar ferðar. Auður Ólafsdóttir Íris Marelsdóttir. Kveðja frá HL-stöðinni, end- urhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga: HL-stöðin varð þeirrar gæfu aðnjótandi að njóta starfskrafta Mundu til margra ára. Haustið 1999 réð Munda sig til starfa á HL-stöðinni og starfaði þar óslit- ið til loka árs 2019. Þrátt fyrir að vera ung að aldri og tiltölulega nýútskrifuð lét hún strax til sín taka á stöðinni. Þannig var Munda, kraftmikil, rösk, athugul og útsjónarsöm. Í gegnum tíðina gegndi hún ýmsum störfum inn- an stöðvarinnar og síðastliðin ár starfaði hún sem yfirsjúkraþjálf- ari HL-stöðvarinnar og starfaði sem slík á meðan heilsan leyfði. Þrátt fyrir að vera hætt störfum á stöðinni fylgdist Munda áfram vel með starfinu og var ávallt boðin og búin að aðstoða þegar til hennar var leitað. Starfsfólk og stjórn stöðvar- innar vilja þakka Mundu fyrir óeigingjarnt starf, tryggð og hollustu við HL-stöðina. Minningin um framúrskarandi fagmann og samstarfsfélaga en umfram allt góða og trygga vin- konu lifir. F.h. HL-stöðvarinnar, Birna Aubertsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir. Kveðja frá Blaksambandi Ís- lands Við kveðjum Mundínu Ásdísi Kristinsdóttur í dag og kveðjum hana alltof fljótt og hafa síðustu dagar verið okkur í blakhreyf- ingunni þungbærir. Munda var sá aðili innan blakfjölskyldunnar sem allir gátu leitað til sama í hvaða liði þeir voru og ávallt voru dyrnar opnar hvort sem að- ilar þurftu á aðhlynningu að halda vegna líkamlegra verkja en ekki síður til að fá andlegan stuðning. Munda var vinur í sterkustu lýsingu þess orðs, ávallt til staðar, tilbúin að hlusta, hlúa að og styðja við einstakling- inn og liðið. Munda var ekki bara liðsmaður, hún var sú sem hélt liðinu saman, barðist fyrir það og leiðbeindi þegar á þurfti að halda. Hennar verður sárt sakn- að og missirinn er mikill. Munda hafði sterkar skoðanir á því sem viðkom blaki á Íslandi og þá ekki síst á afreksstarfi Blaksambandsins. Hún var í landsliðsnefnd ásamt því að taka sæti sem varamaður í stjórn Blaksambands Íslands. Blak- sambandið naut þess í ríkum mæli að hafa Mundu sem fag- aðila í kringum landsliðin og þar barðist hún fyrir faglegu starfi, bæði utan og innan vallar. Fag- leg, heiðarleg, réttsýn og hrein- skilin eru nokkur af þeim orðum sem lýsa henni og hún var ávallt tilbúin að leggja lið, aðstoða og hjálpa. Munda var baráttukona og kom það ekki síst í ljós í þeim veikindum sem að lokum drógu úr henni þrek og þor. Með óbil- andi hugrekki og elju ásamt þeim lífskrafti sem einkenndi hana tókst hún á við sitt stærsta verkefni, skipulögð og tilbúin að leggja sitt á vogarskálarnar til að ná settu marki. Æðruleysi og hugrekki einkenndu hana og hún sýndi okkur öllum að það er hægt að vera sigurvegari þó að leikurinn hafi tapast. Blakfjölskyldan hefur misst mikið við andlát Mundu og það sýnir sig í þeim samhug sem hef- ur ríkt meðal okkar síðustu daga. Munda snerti alla sem hún kom nálægt og skildi eftir sig minningar hjá hverjum og einum sem í dag eru verðmætar og hjálpa okkur í sorginni. Ég varð þess heiðurs aðnjót- andi að fá að vinna með Mundu í mörg ár í sjálfboðaliðastarfi fyrir blak á Íslandi og því er ég ekki einungis að kveðja góðan félaga heldur kæra vinkonu sem ávallt var til staðar fyrir þá sem á þurftu að halda. Ég mun sakna þess að geta ekki átt samtölin og skoðanaskiptin við hana eða vera fær um að leita til hennar um hin ýmsu mál, stór og smá. Virðing mín fyrir Mundu er óendanleg og þau tár sem hafa fallið síðustu daga lýsa einungis litlum hluta af þeim söknuði sem felst í því að hafa þig ekki hjá okkur lengur. Missirinn er stærstur og sár- astur hjá fjölskyldu Mundu. Hugur okkar er hjá ykkur og fyrir hönd blakfjölskyldunnar sendum við ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur og þakkir fyrir allt það starf sem Munda tók að sér fyrir blak á Íslandi. Guð blessi og varðveiti minningu Mundínu Á. Kristinsdóttur og hún mun lifa áfram í huga okkar og verkum. Fyrir hönd stjórnar og starfs- manna BLÍ, Grétar Eggertsson formaður. Mundína Ásdís Kristinsdóttir Yndisleg dóttir okkar, systir, barnabarn, barnabarnabarn og frænka, MÍNA ÓLÍVIA ÓSKARSDÓTTIR, Marnarveien 81, 4516 Mandal, Noregi, fædd 14. október 2021, lést af slysförum á Ríkisspítalanum í Osló í faðmi fjölskyldunnar laugardaginn 29. október. Útförin fer fram fimmtudaginn 10. nóvember klukkan 11:30 í Oddernes-kapellu í Kristiansand. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki Ríkisspítalans fyrir einstaka umönnun. Hvetjum við þá sem mæta við jarðarförina til að klæðast litríkum klæðnaði. Óskar Freyr Óskarsson Alina Adrianah Lohne Adrian Emil Lohne Max Emilian Lohne Ólína K. Gulbrandsen Roger Adler Gulbrandsen Christin Elisabeth Lohne Ibrahim M. Mohammed Berit Bråland og aðrir aðstandendur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.