Morgunblaðið - 07.11.2022, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 07.11.2022, Blaðsíða 28
MENNING28 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 7. NÓVEMBER 2022 Svipull er sjávarafli. Á kreppuár- unum fyrir stríð voru uppgrip í síldveiðum á Íslandi og sömuleiðis flest styrjaldarárin. Frá stríðslok- um höfðu Íslendingar hins vegar þurft að þola síldarbrest ár eftir ár. Sumarið 1959 var loksins hægt að fagna alvöru síldarvertíð á ný. Tveimur árum síðar veiddist Norðurlandssíldin – norsk-íslenski stofninn – í miklum mæli og áfram næstu ár. Uppgripin voru einstök. Sumarið 1963 fékk Höskuldur Skarphéðinsson sér nýtt skipsrúm um stund, fór á síld og þénaði aldrei eins mikið á ævinni og þá fáu mánuði. Síldarævintýrið mikla var hafið. „Svartur sjór af síld,“ var sagt fyrr á öldinni þegar síldartorfur óðu um allan hafflötinn undan Norð- urlandi. Nú komu tækninýjungar til góða, kraftblökkin og ekki síður asdikkið, bergmálsdýptarmælirinn sem notaður var í stríðinu til að þefa uppi kafbáta. Sú uppfinn- ing gagnaðist eins vel við leit að síld undir yfirborðinu. Á sjöunda áratugnum þurfti yfirleitt að sækja síldina lengra en áður, djúpt norð- austur, austur og suðaustur af landinu, og mestur aflinn fór í bræðslu. Árið 1964 sló heildaraflinn öll fyrri met. Meira lýsi og mjöl fékkst úr hverju máli en áætlað hafði verið og heims- markaðsverð var í hæstu hæðum. Og ekki sveik síldin næstu tvö ár. Þá var brætt meira af síld í landinu en samanlagt frá stríðslokum til 1960. Allir, sem vettlingi gátu valdið, fóru á síld. Hinir voru eftir á síðutogurunum. Þeir voru flestir komnir til ára sinna, óttalegir ryðkláfar sumir hverjir. Brynjólfur Halldórsson, sem átti farsælan feril á ýmsum togurum, rifjaði síðar upp að þetta hefðu verið hörm- ungarár í þeim útvegi: „Allur betri mannskapur sótti í síldina þar sem von gat verið á uppgripum en við togaraskipstjórarnir sátum uppi með það sem ég get alveg kallað fyllibyttur.“ Viðhorf til áfengis- drykkju var annað þá en nú og fátt um ráð fyrir þá sem voru veikir fyrir víni. Fyrir kom að menn voru „sjanghæjaðir“ um borð. Í Reykja- vík var þá gjarnan byrjað í Skeif- unni, greiðasölunni niðri við höfn, síðan haldið í Hafnarstrætið og tínt saman í áhöfn. Svo var kannski siglt undir Jökul og þess beðið að rynni af mannskapnum. Oft reyndust þetta hörku sjómenn þegar þeir voru komnir í stand. Ekki var nóg með að síldin heillaði. Við útfærsluna í fjórar mílur með grunnlínum umhverf- is allt landið árið 1952 lokuðust gjöful mið fyrir togveiðum. Tryggvi Ófeigsson var með skeleggustu útgerðarmönnum á sinni tíð, lá aldrei á skoðunum sínum og allra síst í ævisögu sinni sem Ásgeir Jakobsson skráði eftir honum af al- kunnu listfengi. „Það rekur enginn togara ef hvergi má kasta vörpu fyrr en niður á botnleysu,“ sagði Tryggvi og sá frá sínum sjónarhóli eintóma fávisku og afturför: „Það er hörmulegt að gömlu úrvalsmið- in á Selvogsbanka, í Faxaflóa og við Jökul skuli hafa verið tekin af botnvörpunni og lögð undir net sem eyðileggja þau.“ Fiskverndarsjónarmið réðu af- stöðu stjórnvalda. Sömuleiðis vildu menn verjast ásökunum Breta og annarra útlendinga um tvöfeldni, að Íslendingar fengju að halda togveið- um áfram um leið og þeir héldu því fram að þær skröpuðu hafsbotninn og eyðilegðu hrygningarstöðvar þorsksins. Forystumönnum togara- útgerðarinnar skildist að þeir yrðu að fara varlega með allar kröfur um tilslakanir. Þeir minntu þó reglu- lega á þann andbyr sem þjakaði þá. Lausn fengist ekki nema togararnir mættu aftur sækja á gamalkunn- ug mið, sagði Loftur Bjarnason, formaður Félags íslenskra botn- vörpuskipaeigenda og varaformað- ur LÍÚ, Landssambands íslenskra útvegsmanna.198 Loftur var einnig formaður og framkvæmdastjóri Hvals og tók Kristján sonur hans síðar við stjórn þar, auk annarra umsvifa í útvegi. Ekkert breyttist. Togaraút- gerðinni hnignaði áfram, skuldum var safnað og gilti einu hvorir áttu í hlut, einkafyrirtæki eða bæjar- útgerðir. Forsætisráðherra vildi koma á einhvern hátt til móts við togaraeigendur en Alþýðuflokks- menn streittust á móti með Eggert G. Þorsteinsson sjávarútvegsráð- herra fremstan í flokki. „Látum ekki það slys henda okkur,“ sagði Alþýðublaðið til að mynda, „að sérhagsmunahópar í einstökum verstöðvum fái framgengt kröfum, sem ómögulegt er að sjá hvern dilk draga.“ Í árslok 1966 fregnaði Matthías Johannessen og skráði hjá sér að Bjarni Benediktsson hefði hótað að segja af sér og rjúfa þing ef ekki yrði liðkað eitthvað fyrir togaraútgerðinni. Hann tæki ekki ábyrgð á því hvernig annars færi. Ekki er víst að Bjarni hafi í raun tekið svo djúpt í árinni og almenn- ingur tók ekki undir áhyggjur af þessu tagi. „Togaraútgerðin, þetta fyrrum óskabarn landsbyggðarinn- ar og margra landsmanna, átti sér nú formælendur fáa.“ Þannig kemst Þorleifur Óskarsson að orði í yfirliti sínu um sögu þess rekstrar fyrstu áratugina eftir seinni heimsstyrj- öld. En vandinn var enn til staðar og bann við veiðum í botnvörpu bitnaði mikið til á minni bátum. Oftar en ekki voru vélbátar gerðir út á línu eða net á vetrarvertíð og stunduðu togveiðar þess á milli. Á hinn bóginn réðu þessir bátar ekki vel við það dýpi sem lá utan lokaðra svæða. Eyjamenn fundu sérstaklega fyrir því að þeir gætu ekki stundað þennan veiðiskap nema í landhelgi og þá var bara að taka því. „Þetta ástand varð til þess að töluverð þráhyggja myndaðist og fiskveiðibrot urðu að áráttu hjá sumum skipstjórum,“ skrifaði Ólafur Valur Sigurðsson síðar í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja, sestur í helgan stein eftir áratuga þjónustu hjá Landhelgisgæslunni. Hitt mundi Óli Valur líka að þeir sem fóru eftir lögum og reglum áttu bágt með að sætta sig við að hinir brotlegu kæmust einatt upp með að stelast inn fyrir línu. Gæslumenn voru milli steins og sleggju, sagði hann áfram, „því að erfitt er að þræða hinn mjóa veg milli laga og mannlegra viðhorfa“. Félagi hans Höskuldur Skarphéðinsson var ekki eins skilningsríkur og fannst honum á efri árum lítið koma til íslenskra skálka sem stunduðu landhelgis- brot ótt og títt: Þeir beittu makalausum aðferð- um við iðju sína til þess að komast undan refsingu. Þeir breiddu yfir nafn og einkennisstafi, reyndu að hylja sig með reyk eða þeir útbjuggu veiðarfærin á þann átt að þeir gátu sleppt þeim niður með mjög litlum fyrirvara. … Fjölmargar sögur mætti segja af íslenskum landhelgisbrjótum fyrr og síðar en þær verða ekki tíundaðar hér. Alls kyns „kódar“ voru einnig not- aðir til að vara við þeim gráu, rétt eins og „ömmuskeytin“ frægu voru send fyrir stríð (þegar skipstjórum var sagt að „amma“ væri farin eða henni batnað þegar varðskip lét úr höfn). Þekkt var úti í Eyjum og engin leynd yfir því síðar að þeir voru saman í kódafélagi, Binni í Gröf – Benóný Friðriksson – Sævar sonur hans, tengdasonurinn Gísli Sigmarsson og Bjarnhéðinn Elías- son. Hvert varðskip hafði tölu og hafsvæðin sömuleiðis þannig að auðvelt var að gefa upp nafn skips og staðsetningu. Vandinn var hins vegar sá að reglulega var skipt um kerfi og þá gat gerst að menn rugl- uðust í ríminu. Þannig lifði sú saga lengi að eitt sinn hefði Sævar kallað í talstöðina, alveg búinn að gleyma réttum „kóda“: „Bjarnhéðinn, hún amma þín er að koma og vertu fljótur að hífa!“ Í spjalli við heimamenn í heita pottinum í Sundlaug Vestmanna- eyja í fyrrasumar fékk ég svona sögur staðfestar og heyrði fleiri til. Virðing fyrir lögum sem þóttu rang- lát var minni en löngun í drjúgan afla. Þessi hlið veiðiskaparins er ekki rakin hér gömlum aflaklóm til hnjóðs. Þannig var Binni í Gröf auðvitað landsþekktur fyrir dugnað og kapp, sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 1971, ári fyrir andlát sitt. En ætli fólk að segja sögu landhelgismálsins af einurð og hreinskilni dugar ekki að kenna útlendingum einum um rányrkju og fiskveiðibrot en gera Íslendinga að hvítþvegnum englum. Mörgum rann einmitt til rifja að sjá landa sína laumast inn fyrir línu. Vitaverðir og veðurathugunar- menn voru gjarnan á verði og síðar minntist Guðmundur Kjærnested sérstaklega Helga Arasonar á Fagurhólsmýri. Freistingin var svo mikil við Ingólfshöfða og í Meðal- landsbugtinni. Sú var einnig raunin í Kolluál út af Snæfellsnesi. Þar voru þekkt og góð togmið og erfitt að kenna gömlum hundi að sitja fyrir utan þau. Guðmundur var lengi í fluggæslu. Katalínuflugbáturinn Rán var tekinn í notkun um miðjan sjötta áratuginn og sannaði þegar gildi sitt. Rán flaug til ársins 1963 en ári fyrr hafði Skymastervél bæst við flotann, TF-SIF. Þremur árum síðar tók Landhelgisgæslan einnig þyrlu í notkun, Bell-gripinn TF-EIR í sam- vinnu við Slysavarnafélag Íslands. Skymasterinn var í eigu Gæslunnar til ársins 1971 og sama ár brotlenti þyrlan í Rjúpnafelli, blessunarlega án manntjóns. Úr lofti var unnt að liðsinna varðskipunum og fæla menn frá því að dýfa vörpu í sjó innan línu. Pétur forstjóri Sigurðsson benti hins vegar á að litlu og hæggengu varðskipin hentuðu ekki vel til gæslu nú þegar lögsagan væri orðin svo miklu víðfeðmari og fiskiskip stöðugt hraðskreiðari. Því væri orðið brýnt að hefja smíði nýs varðskips sem yrði svipað Óðni að stærð og gerð. Hér hafði Pétur svo sannarlega lög að mæla. Gæsla landhelginnar var í ólestri. Þótt hinir seku næðust hvergi nærri alltaf á þessum árum var dómskerfið auk þess við það að sligast undan kærum. Um páska 1965 voru öllum ákærðum skipstjór- um gefnar upp sakir. Fljótlega sótti þó í sama horf. Bókarkafli Í bókinni Stund milli stríða rekur Guðni Th. Jóhannesson sögu landhelgismálsins frá febrúar 1961 til sumarsins 1971. Guðni tók að viða að sér efni um landhelgismál og þorskastríðin fyrir um aldarfjórðungi og byggir á rannsóknum í fjölmörgum skjalasöfnum innanlands og utan, viðtölum og bréfaskriftum við aragrúa heimildarmanna. Síldin kemur, „kódar“ og togarar í kreppu Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Johannes Langenbacher Meira salt! Síldarsöltun á bryggju á Siglufirði 1960. Mikil uppgrip voru í síld frá sumarvertíðinni 1959 og þar til veiðarnar hrundu 1968. Morgunblaðið/Eggert Höfundur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og höfundur bókarinnar Stund milli stríða sem rekur sögu landhelgismálsins frá 1961 til 1971.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.