Verktækni - 2021, Page 6

Verktækni - 2021, Page 6
 Icelandic Journal of Engineering // Verktækni (2021) 27 1 Verkfræðingafélag Íslands // Association of Chartered Engineers in Iceland - https://www.ije.is 6 Inngangur Árangur liða er margþætt hugtak og því getur verið erfitt að greina frammistöðuvandamál innan teymanna. Þetta á sérstaklega við um flókin námskeið sem byggjast á verkefnum þar sem nemendateymið samanstendur af 30 einstaklingum eða fleiri og mest af vinnu teymisins fer fram utan kennslustundanna. Dæmi um slíkt verkefni – og hvatinn að þessu starfi – er verkfræðilegt verkefnabundið námskeið sem hefur verið í boði hjá Háskóla Íslands í 10 ár, þar af 8 ár undir umsjón annars höfunda. Í námskeiðinu hanna nemendur og framleiða eins sætis rafknúinn kappakstursbíl fyrir Formula Student / Formula SAE keppnirnar. Nemendateymið samanstendur árlega af um það bil 40 nemendum, aðallega véla-, iðnaðar- og rafmagnsverkfræðinemum. Nemendur úr öðrum greinum hafa einnig tekið þátt; t.d. úr tölvunarfræði, eðlisfræði, viðskiptafræði og jafnvel stjórnmálafræði. Meirihluti nemenda er á fyrsta eða öðru ári í grunnnámi. Tilgangur þessarar vinnu er að búa til ramma fyrir mat á mögulegum umbótasvæðum í frammistöðu teymis í námi. Aðalatriðið er að búa til ramma er gefur yfirsýn en fer ekki í smáatriði fyrir hvern þátt, né gefur ramminn ráð til að leysa þau mál sem greind eru. Þessi grein miðar að því að finna viðeigandi þætti sem hafa áhrif á frammistöðu teymanna og að smíða umræddan ramma á þann hátt að hann eigi auðveldlega við um teymisvinnu í námi og það þurfi ekki mikla fyrirhöfn né mjög sérhæfða þjálfun til að nota hann. Aðferðafræðin sem við kynnum hér tekur saman helstu þætti sem þarf til að meta frammistöðu þannig að gagnasöfnun verður markvissari í gegnum athuganir og viðtöl. Hún hjálpar einnig við úrvinnslu gagnanna. Þessi grein sýnir hvernig þættirnir voru ákvarðaðir og gefur tillögu að úrvinnslu. Beitingu aðferðarinnar má sjá í (Unnthorsson & Oddsson, 2020). Þar er aðferðinni beitt á Formula Student þátttöku Háskóla Íslands. Aðferðafræði Rannsókn þessi er heimildarýni þar sem stuðst var við Web of Science gagnagrunninn, sem hefur sérstaka stöðu í vísindasamfélaginu og er viðhaldið af Clarivate Analytics. Leitað var að fyrri rannsóknum um þætti er hafa áhrif á liðavinnu nemenda. Leitað var að greinum með eftirfarandi leitarskilyrðum: TI = (team NEAR/2 performance) AND SU=("EDUCATION SCIENTIFIC DISCIPLINES" OR "EDUCATION EDUCATIONAL RESEARCH" OR Engineering). Leitin skilaði 147 niðurstöðum (31. Maí 2019). Útdrættir þessara greina voru lesnir með það að markmiði að finna greinar sem tengdust efni þessarar rannsóknar. Grein var valin í rýni ef hún lagði til eða taldi upp þætti sem höfðu áhrif á frammistöðu liðsins. Eftir lesturinn fækkaði greinunum niður í 46 sem fóru í heildarlestur. Lesturinn leiddi í ljós að 45 af þessum greinum innihéldu upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á árangur. Við lestur greinanna var leitað eftir þáttum sem sagðir voru hafa áhrif á frammistöðu. Allir þættir voru skrifaðir niður. Síðan voru allir þættir rýndir með tilliti til verkfræðinemendavinnu og þeir valdir sem voru viðeigandi. Þáttur var talinn viðeigandi ef hann tengdist verkefni, verkfræðivinnu, fólki, skipuheild og viðhorfum. Þáttur var ekki valinn ef hann var of sértækur eða tengdist beint ákveðinni aðferð (t.d. Belbin Self-perception inventory). Þættir sem voru svipaðir voru sameinaðir í einn þátt. Lesturinn sýndi tvö meginþemu, greiningu á þáttum sem hafa áhrif á frammistöðu og hvernig árangur er mældur. Flokkarnir sem notaðir voru til að flokka þættina voru innblásnir af heimildum, svo og því hvernig þættirnir voru settir fram. Flokkarnir eru ekki niðurstaða sem slík heldur aðeins hjálpartæki til að búa til hugarkort yfir það sem hefur áhrif á frammistöðu liðsins. Þættirnir voru flokkaðir í: Teymisskipan, liðsmenn, teymisstjórnun, innri starfshóp liðs, umhverfi teymis, verkefni og samskipti. Kerfin sem mæla árangur reyndust fá, sértæk og frekar flókin. Ekkert þeirra tók á öllum þáttum. Þau eru ekki kynnt hér en allir þættir sem þau taka á eru með í eftirfarandi samantekt. Þáttum og hópum sem fundust í heimildarannsókninni var raðað til að mynda ramma og tillögur að framsetningu voru gerðar, báðar töflur með möguleika á að reikna út eitt stig og sjónrænt sem ratsjárlínurit. Icelandic Journal of Engineering // Verktækni Verkfræðing félag Íslands // Asso iation of Chartered Engineers in Iceland - https://www.ije.is 6 RITRÝNDAR FRÆÐIGREINAR2021- 27- (1)

x

Verktækni

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Verktækni
https://timarit.is/publication/957

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.