Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Qupperneq 38
Guðsgjafir í Goðdal
Norðanverðir Vestfirðir eða Strandir eru
sjaldnast nefndir á nafn þegar laxveiðiár
þessa lands ber á góma. Engan þarf að
undra það því á þessu harðbýla landsvæði
eru straumvötn köld og einna helst að þar
megi finna sjóbleikju, sums staðar jafnvel
í töluverðum mæli.
Þarna má finna nöfn eins og Selá og
Víðidalsá en nafntoguðust bleikjuáa á
þessu svæði er líklegast Bjarnarfjarðará.
Neðri hluti hennar rennur um sléttlendi
og þar eru höfuðvígi sjóbleikjunnar.
Færri vita þó að Bjarnarfjarðará er
afkvæmi Sunnudalsár og Goðdalsár sem
koma saman ofarlega á vatnasvæðinu.
Það er einmitt við þá síðarnefndu sem
mig langar að drepa niður fæti og minnast
ógleymanlegra daga sem ég átti þar um
miðjan ágústmánuð fyrir tíu árum.
Fyrstu kynni
Goðdalur fór í eyði er heimilisfólk á
samnefndum bæ lést á hörmulegan hátt
í snjóflóði í desembermánuði árið 1948.
Erfitt er að ímynda sér þann hrylling
sem ábúendur máttu þola á þessum
harðbýla stað. Veður höfðu verið válynd
er hörmungarnar dundu yfir og komst
björgunarfólk ekki til Goðdals fyrr en
fjórum dögum eftir flóðið. Aðeins
bóndinn og dóttir hans voru með lífsmarki
en stúlkan dó skömmu síðar. Sex manns
fórust í snjóflóðinu
Fyrst hafði ég komið í dalinn til
veiða haustið 1994 og lenti þá í miklum
hremmingum. Til að komast að
veiðihúsinu, sem er fj arri allri byggð, þurfti
að aka langt inn Goðdal og yfir Goðdalsá
á brú sem var vægast sagt hrörleg á
að líta. Þetta var seint í september og
til að gera langa sögu stutta þá snjóaði
og rigndi til skiptis fyrstu nóttina, áin
varð að organdi fljóti og máttum við
dúsa innilokaðir í veiðihúsinu á þriðja
sólarhring uns fært var yfir brúna og við
komumst úr dalnum. Um tíma var rætt
um að berjast í slagveðrinu á tveimur
jafnfljótum, ganga niður að Laugarhóli og
sækja hjálp, en til allrar hamingju kom
ekki til þess.
Man ég hvað ég var feginn er við
komumst niður í byggð eftir mikla vosbúð
á þessum guðsvolaða stað. Jafnframt
strengdi ég þess heit að koma aldrei
þangað aftur.
Það þurfti því að beita mig fortölum til
að fá mig aftur til veiða í dalnum ári síðar.
í Goðdalsá er eingöngu um sjóbleikjuveiði
að ræða og er útbúnaðurinn sem notaður
er í samræmi við það. Nú brá hins vegar
svo við að ég kom til móts við félaga mína
saddur veiðidaga eftir frábæra veiðiferð
í Norðurá í Borgarfirði, bjóst við lítilli
veiði og leit satt að segja á þessa ferð sem
afslöppun með silungsveiðiívafi.
Óvæntur fengur
Fyrsta morguninn okkar var sól í heiði og
nm 20 gráðu hiti, skemmtileg tilbreyting
frá árinu áður, félagarnir fóru í berjamó
og skelltu sér í frumstæðan, heitan pott
á verönd veiðihússins. Einhver órói var í
mér er ég setti saman maðkastöngina en
í bakgrunni mátti sjá rústir bæjarhúsanna
sem splundruðust í hörmungunum
áratugum áður og hafa múrbrot og stöku
innanstokksmunir staðið þar mosavaxnir
æ síðan.
Lítil veiði hafði verið um sumarið,
einhverjar bleikjur þó skráðar í bókina
og var ég sendur út til að freista þess að
næla í fisk á grillið.
Þannig háttar til að Goðdalsá er í
einkaeign, þar veiðir stórfjölskylda sem
ég kann ekki nánari skil á. Fyrr á árum
hafði verið reynt að rækta í henni lax með
litlum sem engum árangri enda svæðið á
mörkum þess mögulega fyrir þess háttar
tilraunir. Áin er svipuð að vatnsmagni og
báðar kvíslar Elliðaánna til samans, köld
og tær en hið álitlegasta veiðivatn við
fyrstu sýn.
Ég gekk niður fyrir veiðihúsið og vissi
svo sem ekki við hverju var að búast
þar sem ég hafði ekki bleytt þarna færi
fyrr. Eftir stuttan gang blasti við fallegur
strengur sem ég ákvað að renna í og
freista gæfunnar.
Þar sem ég var með útbúnað til
laxveiða beitti ég maðki sparlega á stóran
öngulinn og renndi uns hraustlega var
rifið í. Kippti ég kraftalega á móti og
ætlaði að rífa bleikjuna á land en í stað
lítillar, spriklandi bleikju var tekið fast
á móti uns losnaði úr fiskinum. Þetta
var stórbleikja hugsaði ég um leið og ég
ákvað að rölta eftir minni öngli sem ég
átti í veiðijakkanum uppi í húsi. Er ég
kom aftur að strengnum beitti ég enn
sparlegar og renndi aftur. Það spólaðist
út af hjólinu og um leið sé ég spegilfagran
lax hreinsa sig upp úr vatninu. Eflaust
hefði mátt sjá andlitið á mér fljóta niður
ána því ég í orðsins fyllstu merkingu
missti það. Hvorki fyrr né síðar hef ég
orðið jafn hissa - ég hafði sett í konung
fiskanna. Þarna var hann þreyttur líkt og
gull væri á hinum endanum.
Innan tíðar var fallegum sex punda
hæng landað.
Gekk ég stoltur upp í hús og það var
líkt og ferðafélagarnir hefðu séð draug er
ég opnaði hurðina. Ég man enn svipinn
á gestgjafanum er honum varð á orði.
"Hvurn djöfullinn ertu með, drengur!" Sá
hafði komið til veiða í Goðdalsá í áraraðir
og aldrei séð slíkan feng.
Jafnframt flugu háðsglósur um að ég
hefði verið fenginn til að veiða bleikju í
matinn en ekki lax í fermingarveislu.
Og enn fleiri!
Eftir margfaldar hamingjuóskir, sterk
lýsingarorð og enn fleiri gífuryrði rölti
ég aftur út í á og ferðinni er heitið
að strengnum góða. Það var kominn
veiðihugur í mig og nú átti að sýna að ég
væri fullfær um að ná bleikju í matinn.
Ég var eiginlega hálf utan við mig er ég
renndi aftur. Sem fyrr var beitt sparlega
og eftir stutta stund var rifið í á sama
stað og áður. Ég beið góða stund áður en
ég tók á móti og það sauð á hjólinu er
spegilfagur fiskur tók heljarstökk og sauð
á hjólinu í annað sinn.
Innan tíðar lá annar lax á bakkanum.
Það var líkt og ég hefði hent
handsprengju inn í veiðikofann er ég
kom með seinni fiskinn í hús.
Mannskapurinn dreif sig úr heita
pottinum, farið var í vöðlurnar á mettíma,
fullorðnir karlmenn urðu sem kaupóðar
konur og skömmu síðar sat ég einn eftir á
veröndinni og dáðist að fengnum. Þarna
lágu þeir, tveir sex punda hængar eins og
steyptir í sama mótið, svo líkir voru þeir.
Þegar hér var komið sögu opnaði ég
mér öldós, fór í pottinn og leiddi hugann
að andstæðum íslensks veðurfars eftir
árstíðum. Þarna sat ég einn í íslensku
sumri og hinum megin við gafl hússins
mátti sjá hvernig óblíður veturinn getur
gert mannana verk að engu. Þarna fann
ég enn votta fyrir þeim óhug er sló mig
eftir að hafa kynnt mér sögu þessa dals
við heimkomuna árið áður.
Að loknu léttum morgunverði fór ég
jafnframt að hugsa um aflann sem lá í
kælinum. Hvernig gat staðið á þessari
heppni? Hafði komið laxaganga í ána -
núna mörgum árum eftir misheppnaðar
ræktunartilraunir? Og skyldu þeir vera
fleiri, laxarnir?
Það var ekki frá því að ég væri byrjaður
að kippa af bjórnum er ég fór í stígvélin,
greip stöngina og rölti upp fyrir veiðihúsið.
Þarna þekkti ég ekki staðhætti, engar
voru merkingarnar en eftir stuttan gang
kom ég að fallegum fossi.
Þetta hlýtur að vera efsti veiðistaðurinn
38 Veiðimaðurinn Júní2005