Fréttablaðið - 31.03.2023, Blaðsíða 9
Karl Th.
Birgisson
n Í dag
Orkuskipti eru í tízku.
Vinsæl og endurþulin mantra
þar er að framleiða þurfi meiri
orku, í stað þess að beina henni í
annað en nú er gert.
Hætta til dæmis að grafa eftir
rafmyntum, sem eru ein skýrasta
birtingarmynd sýndarveruleikans.
Þeirri hugsun mætti beita víðar.
Nota orkuna í annað.
Nefnum fáein dæmi.
Fólið
Kennari í Garðabæ var nýlega
dæmdur fyrir að ljúga glæpum upp
á saklausa blaðamenn.
Ég ætla ekki að nefna hann –
gervigreindin í tölvunni minni
myndi rísa upp til varnar almennu
velsæmi í veröldinni.
Hann hefur hins vegar ítrekað
verið staðinn að því að lifa í
hliðarveruleika og spinna þaðan
fantasíur, auk þess náttúrlega að
kunna ekki skil á réttu og röngu,
staðreyndum og lygum, fyrir utan
að skorta almenna dómgreind og
mannasiði.
Samt vill ágætasta fólk gera
þennan mann að umræðuefni, rétt
eins og Lísa í Undralandi væri efni
til samræðna um alvörumál.
Sú orka væri betur notuð í
annað.
Lygarinn
Á dögunum kom í ljós að fjölmiðla-
maður hafði logið frekar alvarlega
um feril sinn og fyrri störf.
Ekkert svona einu sinni tilfall-
andi úps og óvart, heldur aftur og
ítrekað.
Í ósannindunum var ekki síður
lýst upplifun viðkomandi í þessum
upplognu störfum. Þær meintu
upplifanir urðu svo reyndar
grunnurinn að ferlinum í fjöl-
miðlum.
Þá vill svo til að ólíklegasta fólk
vill verja ósannindin. Segir þau
skipta litlu eða engu máli, af því að
viðfangsefni fjölmiðlamannsins sé
svo mikilvægt.
Ekki dreg ég úr því, en bið við-
komandi að staldra við.
Ég gæti vitaskuld farið með
frasana um að tilgangurinn helgi
ekki meðalið, en þetta tilvik er
flóknara.
Við gerum þá sjálfsögðu kröfu að
fjölmiðlafólk segi satt og rétt frá. Á
því byggist trúverðugleiki þess.
Til dæmis þess vegna treystum
við Ríkisútvarpinu betur en
Útvarpi sögu. Fréttablaðinu betur
en Reykjavíkurbréfum Moggans.
Þegar fjölmiðlamaður verður
aftur og ítrekað uppvís að ósann-
indum opinberlega, þá er trú-
verðugleiki hans horfinn.
Hann gufar upp í móðu ósann-
indanna.
Við gerum öll mistök og sjálfsagt
að fyrirgefa þau, en það nægir ekki
að biðjast afsökunar á síendur-
tekinni „missögn.“
Viðkomandi ætti að finna sér
annað starf og við ættum að eyða
orku okkar í annað en að verja
endurteknar lygar.
Sannleikurinn er miklu betri
málstaður.
Maðurinn
Bezta fólk eyðir tilfinningaorku
í að halda því fram að konur séu
ekki menn.
Ég sem hélt að Vigdís Finnboga-
dóttir hefði afgreitt það mál árið
1980, þegar hún var spurð hvort
kjósa ætti hana sem forseta af því
að hún er kona.
„Nei, það á að kjósa mig af því að
ég er maður.“
Þarna hélt ég í einfeldni minni
að málið væri útrætt, en svo virðist
hreint ekki vera.
Ég nenni ekki að rifja hér upp
nýleg delludæmi, en þetta vits-
munaofbeldi hlýtur að stríða gegn
einhverjum ákvæðum fólksrétt-
indasáttmála Evrópu.
Prívatskýring mín er að þessi
misskilningur sé óberminu honum
Jóni Thoroddsen að kenna. Hann
skrifaði skáldsöguna Maður og
kona, og festi þar með í sessi þessa
sérkennilegu vitleysu. Bókin hefði
betur heitið Karl og kona, eða bara
Kall og kelling, sem aldalöng hefð
er fyrir.
Á meðan breytist ekkert
Á meðan við þrösum um ýmis sér-
kennilegheit tilverunnar gengur
lífið áfram sinn vanagang.
Jón Gunnarsson dómsmála-
ráðherra heldur áfram að ljúga og
dylgja, og selja líkkistur vitaskuld.
Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst
um afdrif vantrauststillögu á hann,
en ég treysti mér til að fullyrða
að Vinstri græn styðji áfram sinn
uppáhaldsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála-
ráðherra (eða ráðuneyti hans að
minnsta kosti) heldur áfram að
skrökva um Lindarhvol og hann
vill auðvitað selja fleiri hluta-
bréf í Íslandsbanka. Það er eins
og honum þyki listinn af ósann-
indum ekki orðinn nógu langur.
Aldrei of seint að bæta við og það
er engin leið að hætta, eins og
skáldið orti.
Sigurður Ingi Jóhannsson
samgönguráðherra áformar enn
að leggja vegaskatta á tiltekna
landsmenn, eftir búsetu. Þótt
hann segðist fyrir kosningar aldrei
myndu gera slíkt.
Og áfram halda vextirnir að
hækka af því að landvættur okkar,
Íslandskrónan, hættir aldrei að
koma okkur til bjargar þegar
mikið liggur við. Vonandi hafa sem
flestir bróderaðan milljónkrónu-
seðil innrammaðan uppi á vegg
hjá sér.
En þetta er allt í lagi. Við eigum
næga orku. Þyrftum bara að muna
að beina henni ekki í sýndarveru-
leikann. n
Hin orkuskiptin
Og áfram halda vext-
irnir að hækka af því
að landvættur okkar,
Íslandskrónan, hættir
aldrei að koma okkur
til bjargar þegar mikið
liggur við.
FERÐAFÉLAG ÍSLANDS
www.fi.is
Sjáumst á fjöllum
Það er ekki lengur þannig að negld
vetrardekk séu öruggari eða betri
en ónegld dekk. Af 7 bestu vetrar-
dekkjunum, að mati Bäst i testet, eru
4 ónegld og 3 negld, og þá erum við
að tala um bestu dekkin fyrir skand-
inavískar aðstæður. Það á þá einnig
við um Danmörku, Skán og vestur-
strönd Noregs þar sem almennt er
sama skítaveðrið og á Íslandi.
Bestu nagladekkin eru talin eilítið
betri á ís, en verri við aðrar aðstæður.
Þau eru samt ekki það miklu betri á
ís, heldur þannig að aka þarf um
10% hægar á ónegldum fyrir sömu
hemlun á ís!
Það upplifa sig samt flestir örugg-
ari á nöglum, en öryggistilfinningin
er langt umfram aukið öryggi. Veg-
gripið á nöglum er best þegar lítið
reynir á, en mun síðra þegar meira
reynir á og naglarnir fara að skauta.
Tilfinningin á ónegldu er hins vegar
lausari í byrjun, en er það veggrip
sem þú hefur allan tímann.
Nagladekk slíta vegum á við rúm-
lega 20 bíla á ónegldum dekkjum,
þannig að kostnaður okkar hinna er
a.m.k. tífalt það sem þú sparar fyrir
þína öryggistilfinningu. Þegar þú
ekur á nöglum eru 1.000 meitlar að
meitla upp úr götunni fyrir hvern
hring sem dekkin snúast, og eftir því
sem malbikið er betra, með harðara
grjóti, verður rykið fínna og á greið-
ari leið inn í lungu og út í blóðrás.
Þetta ryk er að ræna um 300 lífár-
um af Íslendingum árlega þá helst af
viðkvæmari hópum eins og börnum
og gamalmennum. Hér er miðað við
áhrif af fínu ryki í Evrópu, en staðan
hér er ekki betri (https://www.eea.
europa.eu/is/themes/air/intro)
Algeng viðbrögð við svona grein
eru mótbárur á við þær að hægt sé
að draga úr svifryki með því að sópa
göturnar, eða að rykið komi mest
allt af hálendinu. Með sömu rökum
mætti segja að almennt sé betra að
missa ekki í buxurnar í stað þess að
krefjast þess að einhver þvoi þær,
og að einhvern veginn virðist rykið
af hálendinu bara falla í þéttbýli á
mest eknu götunar. Einnig mætti
benda á hversu augljóst þetta er í
Hvalfjarðargöngunum, með besta
malbikinu, sem breytast í myrkan
rykmökk seint á haustin.
Mig langar að biðja fólk að bregð-
ast ekki við með krókódílaheilanum
og fara strax í vörn þegar minnst er á
að hætta notkun nagladekkja, heldur
nota framheilann með rökhugsun
og samkennd og spyrja sig hvort for-
sendur einhvers sem það taldi rétt
fyrir 15–20 árum gætu hafa breyst.
Spyrja sig hvort nagladekk séu
virkilega ennþá málið. Einnig vil ég
biðja þá sem ráða lögum og reglum
að rukka a.m.k. 20 þúsund krónur á
hvern bíl í byrjun vetrar fyrir notkun
nagladekkja, til að gera það ekki fjár-
hagslega hagkvæmt að vera sofandi
sóði, sem án nokkurrar umhugsunar
veldur öðrum heilsutjóni. n
Öryggistilfinning á kostnað annarra
Lárus Elíasson
verkfræðingur
Fréttablaðið skoðun 931. mars 2023
FÖsTuDAGuR